31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

129. mál, útflutningsgjald

Pjetur Jónsson:

Það er leitt, um svo mikils vert mál sem þetta, að það skuli ekki koma fram, fyrr en svo áliðið er orðið þingtímans. Samt sem áður vænti jeg þess, að það verði tekið til rólegrar íhugunar og auðvitað jafnframt til fljótra úrslita, eftir föngum. Jeg ætla að minnast fám orðum á frumv., eins og það liggur nú fyrir, um útflutningsgjald af íslenskum afurðum. Háttv. flutnm. (S. B.) sagði í ræðu sinni, að hjer væri að eins um dýrtíðarráðstöfun að ræða, sem ekki ætti að vera nema til bráðabirgða. Þegar þetta er haft fyrir augum, þá virðist mjer það allvafasamt, hvort tekjurnar af þessu gjaldi eigi að nema meiru en svari til þeirra ráðstafana, er þingið gjörir, svo sem dýrtíðaruppbót til opinberra starfsmanna og annars fleira. Að því nú, er sjeð verður af öðrum skjölum, hefir ekki verið hugsað til stærri upphæðar til slíkra ráðstafana en næmi helmingnum af því, er hjer er stungið upp á. Mjer virðist því, að háttv. flutnm. (S. B.) hefði átt að halda sjer við svo hóflegan skatt, að honum væri að eins ætlað að ganga til þessara ráðstafana.

Þá er annað atriði, er mjer virðist ákaflega athugavert. Frumv. fer fram á það, að miða þetta gjald við ákveðinn þunga vörunnar, eða mergð, án tillits til þess, í hvaða verði hún stendur. Þar sem til grundvallar fyrir gjaldinu mun þó liggja gróði einstakra manna af völdum Norðurálfuófriðarins, get jeg ekki annað sjeð, en gjaldið hefði þá að eins átt að leggja á þennan gróða, þann hluta vöruverðsins, sem er hærri en »normalverð«, vegna heimsstyrjaldarinnar. Jeg meina þetta ekki svo bókstaflega, að það ætti að hnitmiða upphæðina, heldur ætti hún að nema þessu hjer um bil. Þá yrði það ekki heldur sagt með sanni, að þetta væri ósanngjarn skattur, ef hann að eins kæmi niður á þeim, er hafa hag af þeim sorglegu atburðum, er nú eru að gjörast í heiminum, og sem aðrir aftur á móti bíða svo óendanlega mikið tjón af. En þessi skattur má þá til með að vera verðtollur, ekki miðast við hluta úr kg. eða tunnu, heldur hluta af verðinu. Og jeg get vel hugsað mjer, að þetta væri framkvæmanlegt.

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að mjer virðist það skökk hugsun, að leggja jafna upphæð á landafurðir eins og sjáfarafurðir. Það er mikið meira flutt út af sjávarafurðum tiltölulega, en landbúnaðurinn framfærir ferfalt fleiri menn í landinu, og hefir því þeim mun meira af dýrtíðinni að segja, því að hann þarf jafnframt að að kaupa miklu meira af útlendum lífsnauðsynjum.

Þá þykir mjer það galli á frumv., ef haldið er fast við þær upphæðir, er nefndar eru í fyrstu gr., hve gjaldið verður ójafnt; t. d. á kjöti og lifandi fje reiknast mjer það muni nema 8–10%, hestum 5%, ull 4–5%, gærum 2½% og saltfiski 1¼%. Jeg hefi ekki reiknað út gjaldið af lýsi, en hygg, að það sje geysi hátt. Jeg skal svo ekki tala um þetta frekar; hefi að eins tekið þessi atriði fram til þess, að benda á, hvaða leiðir mjer þættu tiltækilegastar að fara.