31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

129. mál, útflutningsgjald

Þorleifur Jónsson:

Frumv. það, sem hjer liggur fyrir, er fram komið á síðustu stundu, en er þó það langstærsta skattamál, sem Alþingi hefir fjallað um. Það þyrfti rækilegrar og langrar íhugunar, ef það ætti að ná fram að ganga. Tel jeg, að þinginu mundi ekki veita af heilum mánuði, til að athuga það. Hjer er farið fram á að auka skattana um 800 þús. til 1 miljón kr.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) gjörði ráð fyrir um 800 þús. kr. tekjum, en jeg held þær verði allmiklu hærri. Í haust mun verða meira flutt út af kjöti en venja er til, sökum þess, að bændur verða að lóga miklu fleira fje, sökum grasbrests í sumar. En þó að maður haldi sjer við hans upphæð, þá býst jeg ekki við, að því verði neitað, að hjer er um þungbæran skatt að ræða.

Mjer hefir talist svo til, að skatturinn nemi um 10 krónum á hvern mann, þeirra sem stunda landbúnað, og er það dálaglegur nefskattur, ofan á aðra skatta.

Jeg held því, að það væri ekki vanþörf á að íhuga málið vandlega, áður en gleypt er við því. Jeg býst nú við, að háttv. 1. þingm. Rvk. (S. B.) og Velferðarnefndin hafi athugað málið vel. En jeg get ekki trúað því, að frumv. sje samt í samræmi við þær ráðstafanir, sem aðrar þjóðir gjöra á þessum tímum. Jeg ímynda mjer, að þær leggi ekki sama skatt á fátæklinga og ríkismenn, til að standast dýrtíðina. Mjer finst það einkennilegt, að fátæklingar sjeu látnir svara sama skatti og þeir ríku.

Við skulum nú athuga, hvernig hann kemur niður, þessi skattur.

Jeg tek til dæmis fátækan bónda í sveit. Við skulum segja, að hann eigi 80 kindur. Hann fær af þeim 160 pund af ull og greiðir útflutningsgjald af henni kr. 16,00

Ef hann lógar 35 lömbum, sem gjöra 700 kg. af kjöti, borgar hann í útflutningsgjald — 28,00

Útflutningsgjald af 35 gærum verður — 3,50

Verður þá dýrtíðarsk. hans . kr. 47,50

Og þetta er fátækur maður, sem rjett kemst af, án þess að þiggja af sveit.

Samkvæmt dýrtíðarfrumvarpi því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) flytur, og alt þetta skattakerfi byggist á, mundi hann fá eitthvað af þessum skatti aftur, líklega upp undir 40 kr. En þann krabbagang skil jeg ekki. Fyrst er lagður á manninn geysihár skattur, og svo er honum borgað til baka aftur, að einhverju leyti,

Jeg vil líka benda á, að það mundi kosta talsvert mikið að innheimta þenna skatt. Og þegar ætti að fara að útbýta honum aftur, mun verða erfitt að finna, hverjir hafa um 2000 kr. tekjur á ári. Stjórnarráðið mundi víst þurfa að bæta við sig starfsmönnum til að reikna það út, hve miklar tekjur hver maður hefði, og líklega þyrfti að setja ótal nefndir á stofn út um alt land, og mundi það verða allkostnaðarsamt.

Ef dýrtíð og vandræði eru í landinu svo mikil, að auka þurfi tekjur að mun, þá er nær að fara þá leið, að leggja skatt á hámark tekna, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) vill gjöra í sínu frumv., en ekki leggja skattinn á alla fátæklinga og borga þeim hann svo aftur.

Því er haldið fram, að það sje dýrtíð í landinu. En mjer er spurn: Hafa komið raddir úr sveitum um það? Jeg veit ekki til, að sveitirnar hafi óskað eftir nokkurri hjálp, og víst ekki búist við að fá hana. Jeg held að alt þetta dýrtíðarmál, sem mest er talað um nú á þingi, sje með öllu órannsakað og ósannað enn, t. d. hjer í Rvík, hvort mörg, eða hve mörg, heimili verða í neyð í vetur, og virðist það því kenna æði mikillar fljótfærni, að ætla sjer að leggja afar þungan skatt á þjóðina að lítt rannsökuðu máli. Það er ekki nóg að segja, að dýrtíð sje í landinu. Það sannar ekkert, þó að útlend vara sje í hærra verði en í fyrra, því á það er að líta, að kaupgjald hefir hækkað.

Jeg verð að taka undir með háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að jeg er hræddur um að þetta fyrirkomulag, að koma sem flestum á landsframfæri, verði aldrei landi og lýð til sjerlegrar blessunar, heldur verði það miklu fremur til að draga úr sjálfbjargarhvötinni og auka úrræðaleysi.

Að endingu skal jeg geta þess, að jeg get alls ekki ljeð þessum málum mitt fylgi.