31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

129. mál, útflutningsgjald

Jóhann Eyjólfsson:

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir nú lýst yfir því, að hann sje andvígur þessu frumv., sem nú liggur fyrir. Mjer þótti leiðinlegt, að háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) var ekki viðstaddur, til að hlusta á þessa yfirlýsingu; jeg ímynda mjer, að honum mundi hafa farist líkt orð og Júlíusi Cæsar: »Og þú líka, barnið mitt, Brútus!«.

Þegar jeg beiddi um orðið, voru ýms atriði, sem jeg hafði ætlað mjer að taka til athugunar. En síðan hafa ýmsir tekið til máls, og sumir sagt það, sem jeg mundi hafa viljað taka fram, svo að jeg get verið fáorður, því að jeg tel ekki mikla þörf á að margendurtaka það sama.

Á þessu máli eru tvær hliðar, eins og á svo mörgu; í fyrsta lagi, hvort þörf sje á að gjöra nokkrar ráðstafanir, og í öðru lagi, hvernig þeim ráðstöfunum eigi að vera háttað.

Jeg er nú þeirrar skoðunar, að engin ástæða sje til nokkurra ráðstafana út af þessu dýrtíðarmáli, og þarf því ekki að fara mörgum orðum um, hvernig þeim eigi að vera háttað, það er þeirra manna, sem álíta slíkra ráðstafana þörf. Ef nú þarf að hafa dýrtíðarráðstafanir og Velferðarnefnd, þá er mjer nær að halda, að þeirra þurfi alt af. Vjer verðum að gá að því, að oft hefir hjer verið erfiðara útlit en nú. Bæði hafa hjer gengið landplágur, atvinnuleysi og aflabrestur. En um ekkert af þessu er nú að ræða. Nú er að eins að ræða um erfiðar ástæður, af slæmri og óhagstæðri verslun. Mjer er kunnugt um það, að oft hefir verið þröngt að kosti manna í sjávarplássum, vegna aflaleysis og lágs verðs á fiski, án þess að hlaupið hafi verið undir bagga með þeim.

Jeg man eftir því, að fyrir nokkrum tíma voru nokkrir hreppar hjer við sjávarsíðuna mjög illa staddir, og fengu þó enga hjálp, aðra en hallærislán. Sama er að segja um það, að oft hafa orðið fjárfellisvor í ýmsum sveitahjeruðum, og ýmsum erfiðleikum verið að að mæta, og nú ekki langt á að minnast, en löggjafarvaldið þó lítið skift sjer af slíku.

Ástandið hefir oft verið svo miklu verra en nú. Þá er það atvinnuleysíðu, sem oft hefir skapað erfiðar kringumstæður, en nú geta allir haft góða atvinnu. Jeg álít því, að ef nú á að fara að gjöra einhverjar dýrtíðarráðstafanir, þá þurfi þær að vera stöðugar og standandi.

Í þessu sambandi má minna á það, að þau mál sjeu síst látin niður falla, sem skapa landsmönnum atvinnu. En eftir því, sem jeg frjetti úr efri deild, þá er þar enginn hallærishugur í mönnum, því að þar er talinn óþarfi af landsmönnum að skjóta rjúpur sjer til bjargar; þeir álíta víst, að menn geti alveg eins lifað á sauðakjöti og öðrum góðum og ljúffengum mat, og því óþarfa fyrir okkur, að leggja okkur til munns slíka kattafæðu.

Mjer finst hugsun manna nokkuð á á reiki. Menn eru að kvarta undan dýrtíð og illum ástæðum, en ekki dettur mönnum í hug, að það sje rjett, að styðja menn í því, að bjargast af eigin rammleik, án annarra hjálpar. Nei! Hjer er ætlast til, að löggjafarvaldið gjöri tvent, í fyrsta lagi að binda hendur manna, svo að frelsi þeirra sje meira eða minna lamað eða takmarkað, til að vinna fyrir sjer á ærlegan og dugandi hátt, og í öðru lagi, að allir þeir menn, sem ekki geta vel bjargað sjer sjálfir, og það eins, þó að það sje af því, að þeir nenni því ekki, eða þá af því, að þeir mega ekki bjarga sjer samkvæmt nýjum lögum, þá skuli fæða þá og mata úr annarra skrínu. Eiginlega virðist mjer hugsunarháttur þingsins stefna með þessu að því, að best sje að ala hjer upp ósjálfbjarga ómenni.

Af því að jeg er eindregið á móti þessum ráðstöfunum, þá ætla jeg ekki að fara út í þann orðaleik, hvernig þeim verði fyrir komið.

Að eins skal jeg víkja að því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) sagði, að með frumvarpinu væri fátæklingum enginn háski búinn. Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) sýndi þó rækilega fram á, að af frumvarpinu stafaði háski fyrir bændur. Annars held jeg, að hver og einn skilji best sína erfiðleika; hver músin heldur, að það sje verst í sinni holu. En ómögulegt er annað en taka eftir ósanngirninni í hlutfallinu milli sveitamanna og sjávarmanna.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hrósaði sjer af því, að frumvarpið gjörði jafnt upp á milli stjettanna, og það yrði álíka hár skatturinn, sem kæmi yfirleitt á landbúnaðarafurðir og sjávarafurðir, því þó sjávarafurðirnar sjeu mörgum sinnum meiri, þá sýnist honum mjög rjett, að skifta alveg jafnt gjaldinu á milli þessara stjetta. Þetta væri reyndar í sjálfu sjer jafnrjettlátt, og að tveir menn, sem væru svo misríkir, að annar væri 10 sinnum ríkari, skyldu gjalda í skatt jafn mikla peninga báðir; þá yrði skatturinn af þeim ríka 1%, á móti því yrði þá skatturinn af þeim fátæka 10%.

Eftir sömu hugsunarfræði ætti smábær að bera jafnan skatt og stór borg; til dæmis ætti þá að vera sömu útgjöld í Reykjavík allri og Hafnarfirði.