31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (2365)

129. mál, útflutningsgjald

Guðmundur Hannesson:

Þegar fyrsta dýrtíðarfrumv. kom hjer inn í þingið frá nefndinni, þá sýndist mjer, sem henni hefði getað tekist betur. Það var engu líkara en að nefndin færi í kring um fjárspursmálið, kjarna málsins, eins og köttur í kring um heitan graut.

Tilætlunin var sú, að útflutningsbannið ynni einkum tvent, bæði að sjá fyrir nægilegum matvælum í landinu, og hæfilegu verði fyrir fátæklingana á þeim. Mjer hefir ekki fyllilega skilist, að þetta hefði náð tilgangi sínum með vörur, sem geymast lengi, svo sem kjöt og fisk t. d.

Nú í þinglok kemur hvert dýrtíðarfrumv. eftir annað inn í þingið, eftir dúk og disk. Þessi frumv. hafa þó þann kost, að þau eru ljós og auðskilin. Það á að afla fjár með nýjum sköttum, og það á að verja þessu fje til þess, að bæta úr skortinum. Samt sem áður finst mjer ýmislegt við þessi frumv. að athuga, og stefna þeirra að sumu leyti á huldu og ekki alskostar heppileg.

Það hefir verið lögð mikil áhersla á það, að nú væri dýrtíð, að vörur hafi hækkað í verði um nálega 40%. Að vísu hefir flest hækkað í verði að miklum mun, en í raun og veru er þetta engin sönnun fyrir því, að neinn voði sje á ferðum. Þrátt fyrir þetta má vel vera, að flestir geti bjargast af eigin ramleik. Það getur tæpast verið hlutverk þingsins, að halda jöfnu verði á verslunarvörum.

Flestir ræðumenn gjöra ráð fyrir því, að sjálfsagt sje að gjöra eitthvað. Vel má vera, að nokkur ástæða sje til þess, en hverri meginreglu skal þá fylgja? Oft kemur það fyrir, að illa árar. Hve nær ber þá þinginu skylda til þess, að taka í taumana og gjöra dýrtíðarráðstafanir? Og er ástandið nú svo bágborið í landinu, frekar en nokkru sinni áður?

Fyrst má spyrja, hvað hefir verið gjört áður undir líkum kringumstæðum, ef hallæri hefir gengið yfir heilar sveitir? Annaðhvort ekkert, eða að hallærislán hafa verið veitt, en oftast af skornum skamti. Annað hefir ekki verið gjört. Hvernig stendur á því, að nú hefir enginn á þau minst? Jeg ætla mjer annars ekki að halda fram hallærislánum; þau munu fæstum hafa vel gefist. En þingið hefir auðsjáanlega fylgt þeirri meginreglu, að hjálpa almenningi ef neyð og skortur vofir yfir. Annars ekki. Jeg sje ekki, að þingið geti fylgt neinni annari reglu, án þess að komast út í ófærur.

Það, sem þó er sjálfsögð skylda þingsins í þetta sinn, er tvent, og annað ekki. Í fyrsta lagi að greiða götu fátæklinga, ef þess gjörist nauðsyn, t. d. með því, að sjá þeim fyrir nauðsynjavörum gegn hæfilegu verði. Í öðru lagi, að sjá landssjóðnum fyrir þeim tekjum, sem nægi til þess, að vega á móti kostnaðinum. Þrátt fyrir allan barlóm mun óhætt að fullyrða, að stórfje þarf tæpast, til þess að fullnægja öllum sanngjörnum þörfum fátæklinganna í bæjunum, sem sjerstaklega eiga erfitt uppdráttar. 50,000 kr. mundu fyllilega nægja til þess, að lækka kjötverð fyrir þá í öllum kaupstöðum um 10 aura á pundi. Með 100,000–200,000 kr. tel jeg vafalaust að megi uppfylla allar sanngjarnar kröfur þeirra, sem nokkur neyð vofir yfir. Og það þarf hvorki heila nje hálfa miljón til þess að vinna þenna kostnað upp. Til þess þyrfti ekki annað en örlítinn skatt á allar útfluttar vörur, sem engum yrði tilfinnanlegur.

Í þeim frumv., sem hjer liggja fyrir, er þessi leið ekki farin. Tekjurnar til landssjóðs eru áætlaðar miklu hærri þar. Jeg mundi ekki lasta það, að landssjóður fengi töluverðan tekjuauka, ef ekki væri við búið, að honum væri aftur eytt til ýmislegs óþarfa, nýrra embætta, launahækkunar og þvílíks. En síðara frumv. fer fram á dýrtíðarhjálp, sem nær miklu lengra en þörf er á. Það er alveg rjett, að engan mun á að gjöra á opinberum starfsmönnum og öðrum mönnum. Það á að hjálpa öllum, sem neyð vofir yfir. En hjer er svo langt farið, að hjálpa öllum, sem hafa 2000 kr. tekjur og minna. Jeg sje engin líkindi til þess, að meðalheimili hjer á landi hafi meira en 1400–1500 kr. í árstekjur. Fyrir nokkrum árum voru meðaltekjur í Noregi 275 kr. á mann, þó þær hafi vaxið óðfluga síðan. Jeg hefi tvisvar reynt að gjöra áætlun um meðaltekjur manna hjer, og telst mjer til, að þær mundu vera um 260 kr. á hvern mann í landinu, þegar ekki er dreginn frá neinn kostnaður, sem er auðvitað mjög mikill, Jeg skal ekki fullyrða, að þetta sje rjett, en hygg þó, að það fari nálægt lagi. Meðalheimili hjer hefir ekki 2000 kr. tekjur. Eftir þessu gengur frumv. eiginlega út á það, að taka af öllum og gefa öllum aftur, eða því sem næst. Þetta er of langt gengið að mínu áliti. Jeg vil ekki gjöra lítið úr starfi háttv. Velferðarnefndar, en jeg hygg að eins, að hún hafi yfirgefið þá stefnu, er hún hefði átt að fylgja. Jeg vil ekki amast við, að þessi frumv. komist í nefnd, í þeirri von, að þeim verði breytt svo, að þeir einir hljóti hjálp, er virkilega þurfa. Annars verður þetta til þess, að trufla fjárhag landsins, og dýrtíðarstyrkurinn yrði hefndargjöf þeim, sem hann fengju.