31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1646 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

129. mál, útflutningsgjald

Flutnm. (Sveinn Björnsson):

Það yrði alt of langt mál ef jeg ætti að fara að svara öllum þeim athugasemdum, sem komið hafa fram frá hv. þingdeildarmönnum, síðan jeg talaði síðast, og skal jeg því ekki fara mikið út í að svara þeim, enda eru umræðurnar þegar orðnar ærið langar.

Mjer skilst, að árangurinn af umræðunum um þetta mál í dag sje þessi: Menn skiftast í tvo flokka, og segir annar þeirra, að það sje engin dýrtíð í landinu, sem sje þess verð, að gjörðar sjeu nokkrar óvenjulegar ráðstafanir af hálfu löggjafarvaldsins. Hinn flokkurinn segir, að það sje að vísu dýrtíð í landinu og alvarlegt ástand, svo að vert sje að gjöra einhverjar ráðstafanir, en þeim líkar ekki frumv. Við þá menn, sem líta svo á, að hjer sje ekki um nein vandræði að ræða, er erfitt fyrir mig að tala, því að þeir líta öðrum augum á þetta mál en jeg gjöri. Við gætum, hvað það snertir, haldið áfram að stæla í alla nótt, án þess að líkindi sjeu til, að við yrðum á eitt sáttir. Við hina mennina vil jeg segja það, að þessi frv. eru fram komin til þess, að vekja eftirtekt hins háa Alþingis á þessu máli. Nefndarmennirnir hafa altaf gjört ráð fyrir því, að hvorugt þessara frv. gengi fram í óbreyttri mynd. En útflutningsgjaldsfrumv. er fram komið af því, að við álitum, að það þyrfti að afla landssjóði tekna, og mitt frumv. er komið fram af því, að jeg vildi vekja athygli Alþingis á því, að hjer þurfi eitthvað að gjöra, ef ekki á að draga til stórra vandræða á komandi tímum. Sumir segja, að það sje ekki vert að vera að þessu; það hafi áður verið hallæri í landinu og bjargast þó alt af fram á þenna dag. Það eru nú ekki neitt gleðilegar endurminningar, að hugsa til þess að menn hafi fallið hrönnum saman af hungri og harðrjetti, og þótt ekki liti út fyrir slíkt nú, þá ættum við vera komnir á það menningarstig, að þola ekki, að fólk liði neyð og skort, ef hægt er að afstýra því. Nú hafa menn fengið tækifæri til að koma fram í frumvarpsformi með aðrar uppástungur, sem hið sama liggur á bak við og hjá nefndinni. Enn fremur hafa menn fengið tækifæri til að ræða málið hjer á fundi, og þar með ef til vill fengið það betur skýrt en áður. Jeg hygg, ef nokkur alvara á að fylgja þessu máli á annað borð, að menn geti ekki haft neitt á móti því, að þessi frumv. fari til nefndar, til þess að úr þeim og öðrum uppástungum megi sjóða frumv., sem menn geta komið sjer saman um, svo að þingið afgreiði þetta mál á sæmilegan hátt.

Þótt ekki leiddi annað af því, að þessi frumv. komu fram, en það, sem hv. 1. þm. Húnv. (G. H.) drap á, að eitthvað verði gjört til að greiða fátækum mönnum götu, svo að þeir þurfi enga neyð að líða, þá vildi jeg þó gjarnan eiga minn þátt í þeim, og sæi ekki á neinn hátt eftir, að hafa verið með í að flytja þau, jafnvel þótt jeg gjörði mig að skotspæni hláturs þess hjá þjóðinni, sem hv. þm. V.-Sk. (S. E.) svo spámannlega spáði mjer. En jeg hygg nú, fyrir utan þetta, hvað langt eða skamt menn vilja fara í að hjálpa fátæklingunum, þá verði líka á einhvern hátt að afla landssjóði tekna, því að það er óforsvaranlegt, að þingið skilji nú, án þess að sjá landssjóði fyrir tekjum, til að afstýra vandræðum, sem að höndum geta borið. Hvernig sem menn koma sjer saman um að afla landssjóði tekna, er ekkert vit í að halda því fram, að með því verði lagður sá skattur á þjóðina, sem ekki verði unt að afnema síðar. Eins og hv. samþingismaður minn (J. M.), tók ljóslega fram, er bráðnauðsynlegt, vegna stríðsins, að leggja nú skatt á, sem að sjálfsögðu yrði afnuminn að því loknu. Það er mjög fjarri sanni, sem háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) sagði um vörutollslög í þessu sambandi. Þar var ekki um neinn óvenjulegan skatt að ræða, heldur um skatt, sem vegna afnáms áfengistollsins var settur inn í hinn venjulega tekjubálk, eins og hann var áður. Jeg vænti þess, úr því að þessi frumv. eru komin fram af hálfu Velferðarnefndarinnar, þá sýni háttv. þingdeildarmenn henni þann sóma, að setja nefnd í þau. Það væri að mínu áliti of mikið hugsunarleysi, að vilja á nokkum hátt stuðla að því, að þau verði ekki athuguð í ró og næði af sem flestum málspörtum.