01.09.1915
Neðri deild: 48. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (2374)

133. mál, stimpilgjald

Flutningsm. (Eggert Pálsson):

Jeg skal leyfa mjer með fám orðum að gjöra grein fyrir þeim orsökum, að jeg og háttv. meðflytjandi frumv. (B. J.) höfum tekið frumvarpið upp og lagt það hjer fyrir háttv. deild.

Ástæðurnar eru stuttu máli þær, að margir þingm. munu vera smeykir við, að þarfir landssjóðs verði meiri en svo, að þeim verði fullnægt með fyrirliggjandi fje.

Fjárlögin eru nú farin frá þessari deild með allmiklum tekjuhalla. Að vísu er ekki vel að marka það, því að í athugasemdum við ýmsar mestu fjárveitingarnar, hefir það verið tekið fram, að stjórnin þurfi ekki, ef fjárþröng verði, að láta framkvæma þau verk, er fjárveitingum þessum á að verja til.

Það er því ekki víst, að tekjuhallinn verði svo mikill, sem ráð er fyrir gjört, eða sjálf 20. gr. fjárlaganna sýnir. En þó má undir öllum kringumstæðum búast við, að hann verði nokkur, og því er ekki nema gott, ef hægt er með hægu móti að afla tekjuviðbóta landssjóðnum til handa. Og það því fremur, sem lagt hefir verið nýlega fram frumvarp fyrir þessa deild, sem eykur útgjöld landssjóðs að nokkru, ef það verður samþykt. Jeg á við frumvarpið um dýrtíðaruppbót handa opinberum starfsmönnum landsins.

Við þetta eykst tekjuhallinn, og væri því gott ef þessi skattur, sem hjer er um að ræða, stimpilskatturinn, yrði samþyktur, því að með honum myndu tekjur landssjóðs aukast um ca. 25 þús. kr., að minsta kosti, eftir því sem skattamálanefndin komst að raun um, er hún fjallaði um þetta mál. En sýndist mönnum, að láta þennan skatt ná til víxla og ávísana, sem ekki er farið fram á í frumvarpinu, og jeg skal ekkert segja um, hvort sje heppilegt eða ekki, þá liggur í augum uppi, að skatturinn eykst að sama skapi. En hversu mikið það kann að verða, skal jeg láta ósagt.

Það gefur að skilja, ef frumv. þetta nær fram að ganga, að meiningin er sú, að þær tekjur, er fást með skattinum, verði ekki að eins fyrir næsta fjárhagstímabil, heldur verði þetta framhaldandi skattur, enda mun oftar en nú þörf fyrir landssjóð, að honum sje aflað tekna fram yfir þær, sem nú eru. Það er því ekki ástæða til að hafna þessum skatti síðar meir, ef frv. yrði nú samþykt, og það því síður, sem búast má við, að hann verði tiltölulega fremur vinsæll hjá þjóðinni.

Það eru líka fleiri en við, flytjendur frumvarpsins, þeirrar skoðunar, að rjett sje, að leggja svona skatt á, ef á annað borð nýrra skatta sýnist þörf. Skattamálanefndin forna, er svo má nefna, taldi þetta rjett og var þessu fylgjandi. Sömuleiðis ýmsir þingmenn síðar. Þetta mál var t. d. borið fram á þingi 1912 og 1913, þótt það næði ekki samþykki þingsins að því sinni.

Þar sem menn litu svo á áður, að skattur þessi væri vel leggjandi á, eins og þá stóð á, þá sýnir það, að engin fjarstæða er að hugsa sjer, að taka hann nú upp, þar sem nú er, að flestra áliti, fremur erfitt um tekjur handa landssjóði.

Hvað snertir frumvarpið sjálft í heild sinni, þá kemur ekki til mála, að við flutningsmenn þess svörum til galla þeirra, sem á því kunna að vera, ef nokkrir eru. Við höfum lýst yfir því, að við höfum tekið frumvarpið upp orðrjett eftir skattamálanefndinni frá 1907. Ef gallar eru á því, er það vitanlega hún, sem verður að svara til þessa, nema gallarnir sjeu síðar komnir fram fyrir tilstilli löggjafarinnar. En þá ber nefnd þeirri, sem að líkindum fjallar nú um málið, að sníða þá galla af.

Prentvillur hafa slæðst inn í frumv., en þær valda ekki neinni efnisbreytinu, heldur eru þær að eins hvað málið snertir. í 5. gr. 3. málsgr.: »sem eftir stimpluðu heimildarskjali o. s. frv.,« á að vera: »sem eftir stimpluðu o. s. frv.«. 16. gr. er útlent orð skakt prentað: »commissios«, á að vera: »commissions«. Í sömu grein stendur: »valdið rjettarmissis«, en á að vera: »valdið rjettarmissi«. Í 12. gr. hefir fallið í burtu að taka fram, hve nær lögin skuli ganga í gildi. Þar stendur 19.... en á vitanlega að vera 1916.

Að öðru leyti skal jeg ekki fjölyrða um málið. En vildi deildin á annað borð sinna málinu, þá óska jeg, að það verði sett í 5 manna nefnd.