11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

133. mál, stimpilgjald

Björn Kristjánsson:

Mjer finst þetta mál vera svo umfangsmikið, að ekki sje von, að ein þingnefnd fái við það ráðið. Jafnvel þótt hægt sje að hafa ný lög annara þjóða til hliðsjónar, þá þarf þó langan tíma til að íhuga það, að hverju leyti þau þurfa að vera frábrugðin því hjer, sem þau gjörast þar, vegna sjerstakra kringumstæða hjer hjá oss.

Háttv. flutnm. hafa alveg gengið framhjá því, hvað hjer hefir gjörst síðan árið 1907. Þá var þetta frumv. samið, eins og getið hefir verið um, en stjórnin gat þá ekki fallist á það, og síðan komu aukatekjulögin, og þau voru einmitt miðuð við það, að hjer væri ekki stimpilgjald lögleitt, og þess vegna var þinglestursgjald og önnur slík gjöld höfð svo há, sem gjört var. Og jeg lít svo á, fyrir mitt leyti, að þau gjöld sjeu ákveðin svo há í þeim lögum, að meiri skatta megi ekki leggja á fasteignasölu.

Þá er hjer nú fram komin sú viðbót við frumv., að stimpilgjald skuli leggja á víxla. Ef það væri gjört, þá yrðu hjer að gilda um það alt aðrar reglur en annarstaðar gjörist, því hvergi nokkurstaðar er jafnmikið af smávíxlum keypt af fátækum mönnum sem hjer. Þess vegna átti ekki að leggja þetta gjald á aðra víxla en verulega viðskiftavíxla, sams konar og gjörast erlendis. Hugsanlegt væri hins vegar, að fara aðrar leiðir, t. d. þá, sem tíðkast hefir á Englandi, þar sem tekinn var 1 penny af hverri pundskvittun. Sú leið er umfangslítil, munar lítið um gjaldið fyrir hvern og einn, en hins vegar safnast þegar saman kemur.

Að öllu athuguðu get jeg ekki gjört það fyrir háttv. flutnm. þessa frumv., að vera með því, heldur verð jeg að leggja það til, að það verði felt.