02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

137. mál, dýrtíðarskattur af tekjum

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg þarf ekki að vera langorður um þetta frumv., því að það bar á góma, þegar rætt var um ráðstafanir út af misæri hjer í deildinni nýlega. Jeg sagði það þá, að jeg hefði sett óþarflega hátt hundraðsgjald á tekjur manna, og hefi jeg því síðan gjört brtt., sem færa þetta niður í skaplegt gjald. Jeg gat þess einnig þá, og held því fram enn, að þetta sje rjetti grundvöllurinn, að taka skatt af þeim tekjum, sem eru til.

Annars býst jeg við, að stjórnin hafi gleggri hugmynd um það heldur en jeg, hve mikið fje þyrfti til þess að afstýra vandræðum, ef til misæris kæmi. Jeg hefi gjört lauslega áætlun um, hver skatturinn myndi verða, eftir breytingartillögum mínum, sem jeg vil láta skoða sem frumv., þótt þær sjeu í brtt. formi, Jeg hefi áætlað, að 275 þús. kr. fáist upp úr þessum skatti. Nú hygg jeg, að þetta, ásamt þeim tekjum, sem fást munu af hinu frumv., um stimpilgjald, sem áætla má af báðum um 300 þús. kr., gæti orðið hæfileg fjárhæð fyrir stjórnina, til þess að jafna svo niður, að misæri í verslun kæmi ekki hart niður á þeim mönnum, sem lifa af handafla sínum. Jeg álít, að þetta sje nægilegt til að borga mismuninn á hæfilegu verði og gangverði á þeim vörum, sem þeir þurfa að kaupa. Líti nú þingið ekki svo á, þá er enn þá tími til að koma fram með frumv. um tolla.

Jeg býst við, að menn lofi þessu frv. að ganga til nefndar, og leyfi mjer að gjöra það að uppástungu minni, að því verði vísað til þeirrar nefndar, sem fer með lögin um stimpilgjald.