11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

137. mál, dýrtíðarskattur af tekjum

Frsm. meiri hl. (Pjetur Jónsson):

Meiri hluti nefndarinnar hefir skrifað örstutt nál., er ekki hefir komið fram fyrr en nú á fundi, og þess vegna líklega ólesið af þingmönnum. Til þess að stytta framsögu mína, vil jeg hafa fyrir mjer nefndárálitið og lesa það upp:

»Því verður eigi neitað, að svo framarlega sem nákvæmur tekjuskattur hefði verið kominn hjer í lög, skattur, sem hvíldi á rjettu framtali allra tekna landsmanna á hreinum tekjum, hvers konar sem væru, þá hefði verið handhægt að koma fyrir dýrtíðarskatti, í svipaða átt og frumv. þetta fer. En einmitt þetta tekjuframtal er örðugt og tafsamt að fá, svo í lagi sje. Til þess þarf bæði nákvæm lagafyrirmæli og nákvæmar reglur frá landsstjórninni. Og loks má búast við, að fyrstu tilraunir í þessa átt yrðu ófullkomnar. Þess vegna álítum vjer, að til þessarar aðferðar verði eigi gripið í flýti nje flaustri, nje til bráðrar hjálpar, þar sem enginn undirbúningur er fyrir. Hitt virðist standa miklu nær, að sveitar- og bæjarstjórnir hafi hinn mikla tekjuauka framleiðenda, sem flýtur af verðhækkun íslenskra afurða, fyrir gjaldstofn í hverju sveitar- og bæjarfjelagi um sig, til þess að jafna á dýrtíðargjaldi eftir þörfum. Og frumv. í þá átt hefir nefndin til meðferðar.

Vjer getum því ekki ráðið háttv. deild til að samþykkja frumv. um dýrtíðarskatt af tekjum«.

Við þetta hefi jeg eiginlega engu að að bæta, því að í nefndarálitinu er í stuttu máli tekin fram skoðun meiri hl.

En jeg get ekki stilt mig um, að hafa yfir fyrstu orðin úr nefndaráliti minni hl.

»Jeg varð einn þeirra manna, sem í nefndina voru skipaðir, á því máli, að í hallæri ætti efnaðri mennirnir að hjálpa þeim fátækari«.

Þetta segir háttv. höfundur nefndarálits minni hlutans (B. J.) um samnefndarmenn sína. Jeg ætla ekki að mótmæla þessu, því að allir sjá hversu viturlega þetta er mælt.

En við þetta tækifæri finst mjer jeg hafa ástæðu til, að minnast á skattafyrirkomulag þessa lands. Því að, ef tekju- og skattafyrirkomulag landsins hefði verið í betra lagi en raun er á, og meira hefði að undanförnu verið til þess vandað, myndi það ekki hafa vafist eins hrapallega fyrir stjórn og þingi, að fá nauðsynlega hækkun á tekjunum.

Í Englandi hefir verið komið á tekjuskatti fyrir löngu. Þegar svo þarf á tekjuhækkun að halda, er tekjuskattsgjaldið hækkað með fjárlagaákvæði. En hjer er engu hægt um að þoka á þeim tekjustofnum, sem okkar skattar hvíla á. Eins og nærri má geta er síður en svo, að jeg sje á móti því, að hjer sje lögleiddur nýr tekjuskattur í sambandi við aðrar breytingar á skattalögunum. En jeg er sannfærður um, að það er ekki hægt, að koma slíkum skatti á í einni svipan, og það er af því, að jeg hefi íhugað málið meira en háttv. þingm. Dal. (B. J.).

En það er fleira að athuga en tekjuskatt. Það þarf líka að athuga fasteignaskatt eða jarðeignaskattinn.

Það þarf einnig að athuga nákvæmlega tollana, því að vörutollurinn er ekki rjettlátur eða til frambúðar. Alt þetta kemur mjer til þess, að bera fram rökstudda dagskrá, er skorar á stjórnina, að taka skatta- og tollmálin til rækilegrar íhugunar og undirbúnings fyrir næsta þing.

Þetta er fyllilega rjettmætt af því, að tvær milliþinganefndir hafa stafað að þessu máli, og hefir stjórnin þeirra starf til stuðnings. Sömuleiðis hefir á þessu þingi verið mikið rætt um þessi mál, og mætti það einnig verða til stuðnings fyrir stjórnina.

Með þetta fyrir augum leyfi jeg mjer, að koma fram með þessa dagskrá, er hljóðar þannig:

Í því trausti, að landsstjórnin taki til rækilegrar meðferðar skattamál landsins og leggi tillögur um endurbót á skattalöggjöfinni fyrir næsta reglulegt þing, þar á meðal frumvarp til laga um tekjuskatt, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.