06.09.1915
Neðri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Flutningsm. (Jón Jónsson):

Frumvarp þetta er fram komið út af dýrtíðinni, því að oss flutningsmönnum hefir ekki geðjast að þeim frumv., sem fram hafa komið um dýrtíðarráðstafanir, hvorki því frumv., sem felt var hjer í deildinni, um nýtt útflutningsgjald, nje hinu fráleita frumv. um dýrtíðarhjálp, frá háttv. 1. þingm. Rvk. (S. B.), sem hann tók aftur að lokum. Tekjuskattsfrumv. háttv. þingm. Dal. (B. J.) er líka stórgallað. Það frumv. er allathugavert, einkum fyrir þá sök, að erfitt mundi að koma í framkvæmd slíkum lögum, sem þar er farið fram á, að sett verði.

Með okkar frumv. er farið fram á, að veita bæjarstjórnum og sveitarstjórnum heimild til að jafna niður dýrtíðargjaldi, hverri í sínu umdæmi. Við teljum, að bæjarstjórnum og sveitastjórnum sje kunnugast um hagi manna í sínu bygðarlagi, og því rjett, að veita þeim slíka heimild, ef brýn þörf er á. Þykir okkur það rjettara og aðgengilegra en að veita einhvern styrk út í bláinn úr landssjóði. Mönnum er yfirleitt svo farið, að þeim er ekki ljúft að þiggja styrk, og vilja helst bjarga sjer sjálfir. Og við hyggjum, að sveitafjelögin sjeu öll svo vel stæð, að þau geti bjargað sjer sjálf, ef heimild er gefin, til að jafna dýrtíðargjaldi á þá menn í hreppum og kaupstöðum, sem færir eru að bera það, og því fje svo útbýtt meðal þeirra, sem hjálpar þurfa.

Jeg tel rjettast, að vísa frumvarpinu til nefndar; það er samið í flýti og þarf ef til vill lagfæringar með.

Forseti leitaði síðan, að fengnu leyfi ráðherra, samþykkis deildarinnar til að frumv. væri tekið fyrir til umræðu.

Var það leyft með öllum þorra atkvæða.