06.09.1915
Neðri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Bjarni Jónsson:

Jeg hjó eftir því í ræðu háttv. 2. þm. N.-Múl. (J. J.), að honum þótti ekki ráðlegt að samþykkja frumvarp það, sem jeg hefi borið fram um tekjuskatt, af því, hve erfitt mundi að koma því í framkvæmd. Hvaðan kemur honum það vit? Slíkt er hugarburður, sprottinn af tali þeirra manna, sem ekkert skyn bera á málið. Frumvarp mitt er ofur einfalt og hægt að koma því kring á skömmum tíma.

Eitt ákvæði í þessu frumv., sem hjer liggur fyrir, er gott, að ekki skuli telja styrk þann, sem veita má samkvæmt því, sem sveitarstyrk. En að öðru leyti er frumv. skakt hugsað og á röngum grundvelli bygt.

Eina rjetta hugsunin er sú, að styrkurinn til fátæklinganna komi frá þeim, sem efnaðir eru, en ekki frá fátæklingunum sjálfum. Þess vegna er útflutningsgjald ranglátt, því það bitnar jafnt á öllum, fátækum sem ríkum. Með því er tekinn bitinn úr munni eins fátæklingsins og látinn í munn annars, hafi hann þá ekki horfið á leiðinni í hundraðsgjald til þeirra, sem innheimta útflutningsgjaldið.

Sama máli er að gegna um þetta frumvarp. Sum sveitarfjelög eru rík og sum eru fátæk, en eftir þessu frumv. eiga þau ríku ekkert að hjálpa þeim fátæku. Það er ekki til neins að segja hverju sveitarfjelagi að bjarga sjer sjálft. Ef t. d. engir bjargálnamenn eru til í einhverju sveitarfjelagi, þá er til lítils að segja því að bjarga sjer. Eina rjetta leiðin, þegar hallæri er í landinu, er sú, að landssjóður hjálpi öllum fátæklingum, og hjálpin komi frá þeim, sem efnaðir eru.