04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Karl Finnbogason :

Jeg á 3 brtt. við 14. gr., og vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum þær. Jeg get ekki neitað því, að mjer finst háttv. Nd., og jafnvel háttv. fjárlaganefnd þessarar deildar, hafa verið nokkuð örðug í garð fræðslumálanna.

Fyrst skal jeg þá minnast á brtt. á þgskj. 738 við 14. gr. B: III. b. 1. Jeg fer þar fram á að upphæðin, sem ætluð er til aukakenslu við gagnfræðaskólann á Akureyri, sje hækkuð úr 2200 kr. upp í 2400 kr. Jafnframt er það tilætlunin, að þessi viðbót renni til eins af aukakennurunum skólans, Lárusar Rist. Hann hefir um undanfarin 9 ár verið kennari við gagnfræðaskólann, fyrst sem stundakennari og nú síðari árin sem fastur aukakennari með 600 kr. árslaunum. Fyrir þessa borgun hefir hann átt að kenna 12 stundir á viku. Auk þessa hefir hann haft tímakenslu við skólann, svo að í alt hafa kenslustundir hans við skólann orðið 20–24 á viku.

Hann hefir fengið 1 kr. í kaup fyrir hvern tíma, sem hann hefir kent sem tímakennari, og hefir kaup hans við skólann þannig orðið samtals alt að 1000 kr. á ári, þegar mest hefir verið. Það sjá allir, að þetta eru lítil laun, einkum þegar litið er á það, hver sultarlaun hann hafði lengi framan af við skólann. Þetta er þó maður sem er bráðnauðsynlegur fyrir skólann til að kenna þar vissar greinar og því mesti skaði að missa hann. Í umsókn til þingsins fer hann fram á að launin sjeu hækkuð svo, að alls fái hann 1400 kr. fyrir alt að 24 stunda kenslu á viku.

Fjárlaganefndin í Nd. leggur til að hann fái 200 kr. viðbót. Með því móti fengi hann þó ekki meira en 1100–1200 kr., eða 200–300 kr. minna en hann fer fram á. Nú fer jeg fram á það, að enn sje bætt við hann 200 kr., svo að viðbótin verði alls 400 kr.; þá mun hann geta unnið áfram við skólann, og jeg veit að skólameistara, og engu síður nemendum, er ant um, að hann haldi áfram kenslu þar, einkum leikfimiskenslunni, enda mundi vandfenginn jafngóður maður í hans stað, ef hann ljeti af henni. Hjer er ekki um stóra upphæð að ræða, og vona jeg að háttv. deild fallist á þessa tillögu mína.

Jeg bendi jafnframt á, að háttv. nefnd leggur til, að lækkuð sjeu fjárframlög til Akureyrarskólans, þar sem hún vill að námsstyrkur sje þar af numinn. Jeg ætla mjer ekki að skifta mjer af því máli, en tek það að eins fram, að fái hún þá tillögu sína fram, ætti henni og öðrum að verða ljúfara að samþykkja brtt. mína.

Önnur brtt. mín er á þgskj. 740. Þar fer jeg fram á, að hækkuð sje aftur fjárupphæð, sem ætluð er til framhaldsmentunar kennara, eða hún gerð lík því, sem hún er í gildandi fjárlögum. Í háttv. Nd. var upphæðin lækkuð um 1000 kr., eða úr 2500 kr. niður í 1500 kr. Þetta leiðir til þess, að kennarar, sem styrks njóta til framhaldsnáms, hljóta að fækka. Má vera, að sumir telji það skaðlítið, þótt þeim fækki, og segi sem svo, að nú muni flestir þeirra, er kenslu stunda, hafa gengið í kennaraskóla, og þar muni þeir hafa lært nóg til að gegna sæmilega kennarastarfinu, og því óþarfi fyrir landið að kosta meiri kenslu fyrir þá. Jeg er þar á annari skoðun. Það er ekki fræðslan ein, sem kennararnir sækja á kennaranámsskeiðin; og munu þó áhugasamir kennarar telja happ að eiga kost á að fá hana þar. En hitt er enn meira um vert, að þeir verða þar fyrir nýjum áhrifum. Það er svo hætt við því, að kennarar út um landið dragist smám saman aftur úr og einangrist, þrátt fyrir góðan vilja þeirra, ef þeir verða ekki fyrir nýjum og nýjum vakningaráhrifum; og kennaranámsskeiðin eru einkar vel fallin til þess; þar hittast kennarar úr ýmsum áttum og eiga kost á að ræða saman um áhugamál sín, og þar fá þeir nýja fræðslu og nýja vakning hjá kennurum kennaraskólans, þeim mönnum, sem vænta má, að best fylgi með um allar nýjungar í kenslumálum, innan lands og utan. Það getur því varla talist frekjulegt, þótt farið sje fram á rúmlega 2000 kr. ársframlag, til þess að nýja upp kennara landsins og hjálpa þeim til að halda sjer vakandi.

Þá fer jeg og fram á að utanfararstyrkur kennara sje hækkaður. Háttvirt Nd. vildi hafa hann 1000 kr. ári. Háttv. Nd. sýnir með þessu, að hún kannast við, að gagnlegt sje, að styrkja kennara til utanfara. En töluverð mistök virðast mjer þó koma fram hjá henni, fyrst í því, að hún vill minka framhaldsmentunarstyrk kennaranna, því sem utanfararstyrknum nemur, og í öðru lagi í því, að styrkurinn er svo lágur, að hann getur ekki komið að fullum notum. Á þessu hvorutveggja hefi jeg viljað ráða bætur með brtt. mínum. Þegar jeg á öndverðu þingi fór að hugsa fyrir utanfararstyrk handa kennurum, vakti fyrir mjer, að það mundi að

skaðlitlu mega minka annan útgjaldalið alþýðumentamálanna, það er að segja, gjöra lægri þá upphæð, sem gengur til prófdómenda við vorpróf barna. Í því skyni bar jeg fram frv. um að eigi þyrftu önnur börn að koma til vorprófs en þau, sem eru fullra 14 ára og eigi hafa áður lokið lögskipuðu námi. Færði jeg rök fyrir því, að þetta væri samræmt fyrirkomulagi prófa í gagnfræðaskólunum og Mentaskólanum, og hirði eigi um að endurtaka þau að þessu sinni.

Þess vil jeg geta hjer, að mjer hefir ekki komið saman við hv. meðnefndarmenn mína um þetta mál, þótt eigi hafi jeg gjört ágreining út af því, nje haldið málinu til streitu.

Þeir óttast, að með því að heimta að eins fullnaðarpróf, verði að nokkru kipt fótum undan fræðslulögunum, og afleiðingin verði verra fræðsluástand.

En jeg vil skjóta því undir háttv. deild, hvort hún álíti ekki meiru skifta, að kennarar landsins sjeu sem best mentaðir, en að 10–12 ára börn sjeu leidd til prófs. Um það skal jeg ekki deila. En fullgóð rök mundi reynslan færa fyrir því, að 2000 kr. væri betur varið til aukinnar kennaramentunar en ungbarnaprófa.

Áherslu vil jeg leggja á það, að meira en 2000 kr. má spara af prófkostnaðinum, ef frv. mitt yrði samþykt, svo útgjöld til fræðslumálanna gætu orðið minni eftir en áður, og kennararnir þó betur undirbúnir, ef farið væri að tillögum mínum.

Öllum mætti vera það ljóst, að óhæfilega illa er búið að kennurum þessa lands. Og háttv. Nd. hefir þó gefið lofsverða viðurkenningu fyrir því, að rjett sje að styrkja þá til utanfara, hvernig sem hún hugsar sjer svo að fara með þá, þegar þeir koma aftur.

En utanfararstyrkur kemur því að eins að gagni, að hann sje dálítið ríflegur. Og 1000 kr. styrkur er ekki ríflegur. Hann er með öllu ónógur til þess að verða að notum öreiga kennara. Fyrir 1000 kr. er að vísu hægt að komast til Norðurlanda og dvelja þar nokkra mánuði á 2–3 stöðum. Að ferðast fyrir það fje, er ómögulegt. En einmitt það, að geta farið milli fleiri staða, og kynt sjer það, sem hverjum er næst skapi, á hverjum stað, er líklegt til að bera ávöxt. Hafi styrkþegi nóg fje til þess að fara til helstu landa og helstu menningarstofnana þar, þá má vænta mikils árangurs, en verði hann að grafa sig og hálfsvelta á einhverjum einum stað, enda þótt sá staður sje í sjálfu sjer góður, þá eru eins miklar líkur til, að hann hafi meira tjón en gagn af förinni, komi aftur veiklaður og vonsvikinn — fyrir skort. Og þá er ver farið en heima setið.

Tillaga mín miðar ekki að eins að því, að styrkja einstaka kennara til utanfara. Hún miðar líka að því, að gjöra alla kennara landsins aðnjótandi nokkurs af þeim gæðum, er út yrðu sótt. Til þess miðar athugasemdin um það, að styrkþegi skuli gefa út skýrslu um för sína, og senda öllum kennurum landsins. Styrkþegarnir eiga að veita nýjum straumum utan úr heiminum inn í sál hvers einasta kennara á landinu, og það á hverju ári. Og sannarlega er þörf á því, fyrir alla þá öreiga. kennara, sem berjast við skort og lítilsvirðingu og misskilning hjer heima í fásinninu, berjast fyrir því, að efla og auðga sálir uppvaxandi kynslóðar. Jeg er sannfærður um, að 2000 kr. á ári til slíks leiddu meira gott af sjer en nokkurn grunar. Þær mundu bera arð, sem ekki yrði tölum talinn.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þessar tillögur. Vænti þess að eins, að hv. deild sjái og skilji, að hjer er ekkert hjegómamál á ferðum. Jafnframt vil jeg enn benda á, að þingið getur leikið sjer að því, að spara kostnaðinn, sem hjer er um að ræða, með því að samþykkja breytingarnar umræddu á fræðslulögunum.

Þá er það 3. breytingartillagan mín, á þgskj. 739. Hún fer fram á, að Samúel Eggertssyni sje veittur 900 kr. styrkur fyrra árið, til að gjöra landslagsuppdrátt af Íslandi. Því er svo varið, það vita allir kennarar; að ekkert nothæft Íslandskort er til. Þau Íslandskort, sem til eru, eru að vísu góð upp á sína vísu, en til kenslu eru þau of óljós, og alt of miklu hrært saman á þeim. Það væri því geysimikil bót, að fá gott landslagskort af landinu, og jeg veit ekki á hvað við eigum að leggja áherzlu, ef ekki það, að fá sem fullkomnast tæki til að kenna börnum vorum að þekkja okkar eigið land. Nú hefir maður boðist til að gjöra slíkt kort, með þeim tækjum og eftir þeim fyrirmyndum, sem fyrir hendi eru, og hefir hann sent þinginu sýnishorn til athugunar. Vil jeg með leyfi hæstv. forseta sýna mönnum það. Þetta er helmingi stærra en kortið á að vera. Óneitanlega stórkostlegur munur á þessu korti og þeim, sem til eru, þó auðvitað sje hægt að setja út á það. En þess ber að gæta, að þetta er einungis uppkast, og gjöri jeg ráð fyrir, að kortið sjálft verði betur úr garði gjört.

Jeg vil enn fremur taka það fram, að fræðslumálastjórinn hefir mælt með manninum og talið hann líklegan til að leysa þetta verk vel af hendi. Sömuleiðis hefir landfræðiskennari Mentaskólans, adjunki Bjarni Sæmundsson, mælt með honum. Það er ekki há upphæð, sem fram á er farið, einar 900 kr. Jeg veit að maðurinn er sjerstakur dugnaðarmaður, og mun vinna það fyrir þessar 900 kr., sem fullkomlega er þeirra virði. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en vænti þess, að háttv. deild taki vel í það.

Jeg vil minnast á einn lið, sem háttv. fjárlaganefnd vill fella, því um það er jeg henni ósammála, eins og fleira. Þó hefi jeg ekki komið með breytingartillögu. Þetta er 61. liðurinn á atkvæðaskrá, eða 46. breytingartillaga nefndarinnar á þgskj. 687. Nefndin leggur þar til, að 500 kr. styrkur handa Birni Jakobssyni til utanfarar sje felldur niður. Þessi maður er áhugasamur mjög um allar íþróttir, og hefir unnið mikið gagn. Nú er hann utanlands, til þess að æfa sig, aðallega í útiíþróttum með það fyrir augum að kenna þær, einkum sveitakennurum, þegar hann kemur heim. Jeg get ekki verið samdóma háttv. fjárlagnefnd í því, að fella styrkinn til þessa manns, sem er duglegur með afbrigðum. Hann hefir manna mest, hin síðari ár, unnið að því, að efla og útbreiða íþróttir hjer í höfuðstaðnum. Og eftir þessa utanför mun hann útbreiða kunnáttu sína margfalt meir og víðar en áður. Jeg skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en legg til, að breytingartillaga nefndarinnar verði feld. Svo skal jeg ekki þreyta háttv. deild lengur í bráðina, en mun taka seinna til máls um önnur atriði.