11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsm. meiri hl. (Þórarinn Benediktsson):

Jeg sje ekki, að ástæða sje til að tala mikið í þessu máli nú, af því að ítarleg grein var gjörð fyrir málinu við 1. umr. Háttv. flutningsm. (J. J.) gjörði þá rækilega grein fyrir því, hver er tilgangur frumv. og hvað það er, sem vakir fyrir flutningsmönnum í þessu dýrtíðarmáli. Enn fremur hefir meiri hluti nefndarinnar samið svo ítarlegt nefndarálit, meðal annars til þess, að spara umræður hjer í deildinni, og til þess, að það komi skýrt fram sú stefna, sem hefir verið og er ríkjandi í þinginu í þessu svo nefnda dýrtíðarmáli. Það hefir auk þess svo margt verið sagt um dýrtíðarástandið, að mönnum er farið að leiðast að hlusta á það skraf alt.

Það hafa komið fram ýmsar uppástungur um dýrtíðarráðstafanir, en fengið misjafnan byr. Þær leiðir, sem reynt hefir verið að fara, hafa ekki þótt færar, og allar uppástungur meira og minna vanhugsaðar. Það, sem vakti fyrir flutningsmönnum þessa frumv., var að finna nýja og heppilega leið til að ráða fram úr því, á hvern hátt ætti að hlaupa undir bagga með þeim mönnum, sem helst þurfa þess, vegna misæris þess, sem er í landinu. Þessum tilgangi frumv. er rækilega lýst í nefndaráliti meiri hlutans. Læt jeg mjer nægja að vísa til þess.

Eins og flestum mun kunnugt, gat nefndin ekki fylgst að málum, hvað þetta frumv. snertir, og er nefndarálit meiri hlutans á þgskj. 925, og jeg heyri sagt, að álit minni hlutans sje í prentsmiðjunni, en það er nokkuð seint, til þess að koma að notum við þessa umræðu.

Jeg sje ekki ástæðu til þess, að gjöra grein fyrir málinu í heild sinni, en vil að eins fara örfáum orðum um brtt. frá meiri hluta nefndarinnar á þgskj. 926.

Fyrri brtt. fer fram á, að feld sjeu burtu orðin: »að fengnu samþykki.« Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að það væri of erfitt og umfangsmikið fyrir bæjarstjórnir og hreppsnefndir, að framfylgja þessu ákvæði, og er tillagan því fram komin til þess að ljetta þeim fyrirhöfnina. Nefndin leit svo á, að óhætt mundi að fá bæjarstjórnum og hreppsnefndum það vald í hendur, að gjöra þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru, án þess að áskilja samþyktir meiri hluta atkvæðisbærra manna. Gjörði ráð fyrir, að þær mundu alls ekki misbrúka slíka heimild.

Síðari brtt. fer fram á það, að 2. gr. frumv. orðist þannig: »Bæjarstjórnir í kaupstöðum og hreppsnefndir . . .« o. s. frv. Eins og sjá má af tillögunni, gjörir hún ráð fyrir, að bæjarstjórnir og hreppsnefndir veiti dýrtíðarhjálpina fyrst og fremst á þann hátt, að sjá þeim mönnum fyrir atvinnu, sem helst þurfa þess og hennar geta notið. Að öðru leyti ætlast nefndin til þess, að styrkurinn sje veittur þeim, sem þurfa, á þann hátt, að sjeð sje fyrir ódýrum nauðsynjavörum, matvælum og eldsneyti. Taldi nefndin þá hjálp mundu verða notadrýgri, en að skifta peningastyrk milli manna. Auk þess auðveldara að sjá um, að styrkurinn verði að tilætluðum notum. Þetta er aðalbreytingartillaga nefndarinnar. Hefi jeg og nefndin þá skoðun, að hún sje tvímælalaust til bóta, og vona jeg hún verði samþykt.

Þetta er það helsta, sem jeg vildi taka fram. Jeg skal geta þess um leið, að það hefir verið fremur stuttur tími fyrir nefndina, til að geta gengið frá frumv. sem skyldi, svo að í ógáti hefir fallið burtu atriði úr 2. gr., sem snertir þá, sem þegið hafa af sveit. Mun nefndin lagfæra þetta við 3. umr.

Það er svo ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta að sinni, en jeg vona, að deildin taki vel í brtt. og að frumv. gangi fram.