11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Framsm. meiri hl. (Þórarinn Benediktsson):

Jeg hefi ekki miklu að svara, því að það hefir eiginlega ekkert nýtt komið fram í málinu í umræðunum, síðan jeg talaði síðast. En síðan hefir komið fram nefndarálit frá minni hlutanum. Það er hvorki langt nje efnismikið. Það var vel og viturlega sagt hjá háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að það væri ekki mikið á því að græða.

Í því stendur ekki annað en þetta:

»Þar sem við höfum eigi tíma til að rökræða þetta mál við meirihl. í áliti þessu, látum við okkur nægja að ráða deildinni til að fella þetta óþarfa frumv.«.

Það er dagsatt, að á þessu er fremur litið að græða. Það er lítið um ástæður, og þess vegna lítið um álitið að segja. Annars kom það fram í ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að hann er samdóma mörgu af því, sem haldið er fram í áliti meiri hlutans. Hann er meðal annars samdóma því höfuðatriði í áliti meiri hlutans, að hjer sje ekki um almenna dýrtíð að ræða, heldur að eins misæri. Af því finst mjer leiða, að það sje ekki landssjóður, sem á að leggja fje fram, heldur eigi að veita hreppsnefndum og bæjarstjórnum heimild þá, sem um ræðir í frumv.

Það, sem var aðalkjarninn í ræðu hv. 2. þingmanns Rang., var það, að eftir frv. kæmi misrjetti milli þeirra manna, sem nú þiggja af sveit, og hinna, sem eiga að njóta þessarar dýrtíðarhjálpar. Jeg skal ekki neita því, að þetta kunni að vera á rökum bygt, en þó eru þau rök minni en hann vildi láta sýnast, vegna þess, að hjálpin á fyrst og fremst að vera í því fólgin, að sjá öllum fátækum mönnum fyrir nægilegri atvinnu, jafnt þeim, sem sveitarstyrks njóta, og hinum, sem mundu þurfa hans, ef þeim væri ekki bjargað á annan hátt. En það er ekki gott að gjöra lögin þannig úr garði, að misrjetti hverfi að öllu leyti; það skal jeg játa.

Frumv. vill gefa hreppsnefndum og bæjarstjórnum tök á að gjöra ráðstafanir, svo að við því verði sjeð, að fólk þurfi að leita sveitarstyrks, vegna misærisins. En hins vegar eru líkur til þess, að meiri brögð mundu verða að því nú, vegna þess, að vinnulýður í kaupstöðum og sjóþorpum stendur verr að vígi en þeir, sem framleiða, og getur því ekki komist af, nema sjeð sje fyrir því, að þá bresti aldrei atvinnu.

Þetta er aðaltilgangur frumvarpsins. Ummæli háttv. 2. þingm. Rang. (E. P.) hnekkja því ekki, að frumvarpið sje spor í rjetta átt.

Að öðru leyti en þessu sje jeg ekki ástæðu til að svara ræðu hans.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) þarf jeg ekki að svara neinu, því að ræða hans kom hvergi nærri efni málsins. Hún snerist mest um flutningsmenn frv., hvatir þeirra og þess konar. Jeg ætla ekki að tjá mig neitt um það, af hvaða hvötum flutningsmennirnir hafi borið frumvarpið fram.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) byrjaði ræðu sína á því, að þetta stóra skjal, nefnil. nefndarálit meiri hlutans, væri helsti langt um svona ómerkilegt efni. Hann sýndi reyndar ekki fram á, að efnið væri ómerkilegt. Gat heldur ekkert af því hrakið, sem þar er sagt, enda er það ekki hans meðfæri. Jeg heyrði líka ekki betur en hann segðist hafa skilið eitthvað eftir upp á Laugavegi, sem hann þurfti á að halda hjer í þingsalnum. Hefir það kann ske verið skynsemin. Jeg er reyndar ekki viss um, að það hafi verið rjett heyrt, en ræða hans var öll mjög lík því, að svo hafi verið, enda ekki óvenjulegt, að hún sje ekki höfð með hjer í salnum.

Að því er það snertir, að frumv. sje komið fram af óhreinum hvötum, verð jeg að segja, að honum getur ekki verið kunnugt um það. Hvatir okkar flutningsmanna liggja ekki eins utan á, eins og stundum á háttv. þm. Dal. (B. J.).

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að svara ræðu hans.