13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Jóhann Eyjólfsson:

Jeg get ekki látið vera að gjöra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Jeg er eindregið á móti því, að þetta frumvarp verði samþykt, og læt jeg ráðast, hvort jeg verð kallaður ónærgætinn og harðúðgur fyrir það, gagnvart fátækum mönnum.

Jeg álít, að hjer sje verið að stíga algjörlega skakt spor, með því að vera að lögskipa gjafir handa fátækum mönnum. Ef einhver á svo erfitt, að hann getur ekki bjargað sjer sjálfur stuðningslaust, þá hefir hann þrjár leiðir að fara, þó engin sje góð. Í fyrsta lagi, að reyna að fá lán, og í öðru lagi að segja sig til sveitar, og þriðja leiðin er að lifa á gjöfum, þ. e. að betla og sníkja sjer til bjargar, og þessi síðast taldi atvinnuvegur hefir aldrei verið talinn góður eða glæsilegur.

Jeg hefi helst hugsað mjer, að menn ættu ekki að fara nema tvær af þessum leiðum, þegar í kröggurnar væri komið. Í fyrsta lagi að taka lán, og getur maður sagt, að undir mörgum kringumstæðum sje ekki mikið að því, en þegar svo er komið, að maðurinn hvorki getur fengið lán eða bjargað sjer sjálfur á einn eða annan hátt, þá finst mjer eigi um annað ráð að tala, en hann fari á sveitina.

Mjer hefir oft dottið það í hug, að jeg mundi ekki geta bjargað mjer sjálfur, að þeir dagar kæmu, að jeg yrði að vera alvarlega upp á aðra kominn, og þá hefir mjer æfinlega fundist, og finst enn, að geti jeg ómögulega fengið lánshjálp, þá vilji jeg heldur fara á sveitina en að fá framfærsluhjálp, líkt og gjört er ráð fyrir í frumvarpi þessu.

En aftur á móti er það, að veita hallærislán til bráðabirgða, þegar sjerstaklega stendur á og brýn þörf virðist fyrir hendi, ekki nema rjett og sjálfsagt, enda hefir Alþingi gripið til þess ráðs nokkrum sinnum, þegar þörfin hefir heimtað það.

Að lögskipa gjafir á þann hátt, sem hjer verið að gjöra, álít jeg vera ilt verk, og svo alvarlegt atriði fyrir framtíðina, að þingmenn ættu að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir gjörðu það, því hjer yrði þá skapað svo afar vont og hættulegt fordæmi, að við getum nú ekki gjört okkur nægilega ljóst, hverjar afleiðingar það hefði. Menn verða annars að gá vel að því, að með þessu frumvarpi er glætt það, sem lítilsigldast er og ógöfugast hjá manninum, sem sje það, að kenna honum að lifa á annarra sveita, að kenna honum að verða betlari og sníkjudýr, en venur hann af, að treysta á sjálfs sín stuðning, venur hann af að trúa á mátt sinn og megin. Það er satt, að það er hart fyrir menn að þurfa að fara á sveit, enda berjast líka flestir á móti því, svo lengi sem þeir geta, og það má ekki draga kjark úr mönnum í þeirri baráttu. Við eigum ekki hvað síst að glæða það hjá mönnum, að vera stórir upp á sig, og svo stórir þurfa menn að vera upp á sig, að þeir vilji alls ekki lifa á gjöfum og betli.

Jeg óska og vona, að svona spor, sem þetta, verði ekki stigið nú hjer á þessu þingi.