10.07.1915
Efri deild: 3. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

47. mál, atvinna við siglingar

Ráðherra:

Jeg vil að eins leyfa mjer að benda á að þetta frumv. stendur í nánu sambandi við fyrsta frumv., sem er á dagskránni í dag, stýrimannaskólann. Frv. er samið með ráði þeirra manna, er best hafa vit á þessu máli, en það er stjórn Fiskifjelags Íslands og nefnd manna, sem Öldufjelagið í Reykjavík hefir falið að beitast fyrir, að gjörðar yrðu breytingar á núgildandi lögum nr. 50 frá 10, nóv. 1905. Síðan þau lög komu út hefir margt breytst; þau áttu aðallega við þilskipaútgjörðina, sem þá blómgaðist hjer sem mest, en nú er botnvörpungaútgjörðin, og svo eimskipaútgjörð alment, komin til sögunnar og fer árlega sívaxandi. Löggjöfin um atvinnu við siglingar er því nú orðin svo óhentug, að ekki er við hlítandi, og fær frumv. þetta því væntanlega góðar undirtektir hjer í deildinni.