13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Sigurður Sigurðsson:

Jeg get lýst strax yfir því, að jeg er hlyntur því frumvarpi, sem hjer liggur fyrir, um að veita bæjarstjórnum og hreppsnefndum heimild til að jafna niður dýrtíðargjaldi einu sinni á ári, og mun greiða því atkvæði. Jeg lít svo á, að frumv. þetta fari í rjetta átt, en óttast hins vegar ekki, að heimild sú, sem í því er gefin, verði vanbrúkuð. En svo hefir komið fram brtt. frá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) á þgskj. 959, sem fer í þá átt, að þær bæjarstjórnir, sem noti heimildina, eigi rjett á að fá greiddan úr landssjóði 1/3 hluta af þeirri upphæð, sem kann að koma inn samkvæmt frv., þó aldrei hærri fjárhæð en sem svarar 2 krónum á hvern íbúa bæjarfjelagsins eða hreppsfjelagsins. Þessari tillögu er jeg ekki á neinn hátt fylgjandi, því að jeg álít, að hún fari alveg í öfuga átt. Hjer á að fara að nota fje landssjóðs til fátækraframfæris, alment, og get jeg ekki ljeð því fylgi mitt.

Jeg skal í þessu sambandi minna á, að þegar sveitirnar urðu fyrir hnekki í fyrra, svo sem mönnum er kunnugt, þá var rætt um það á þingi, hvort ekki væri hægt að gjöra neitt, til að ráða fram úr vandræðunum. Þá varð niðurstaðan sú, að samþykt var þingsályktunartillaga um, að heimila stjórninni að veita þeim sveitum, sem verst verða úti, harðærislán með sæmilegum kjörum. Stökkið þá varð nú aldrei hærra en 50,000 kr., og það var ekki svo vel, að sveitirnar fengju þessi lán í peningum, heldur að mestu leyti í matvöru. Þetta var ólíkt heppilegri og viðkunnanlegri aðferð, að heimila lán, heldur en að fara fram á gjafir af því fje, sem verið er að knýja út með álögum á framleiðendur þessa lands.

Það er harla einkennilegt, að rauði þráðurinn í öllu því dýrtíðarmoldviðri, sem nú hefir verið þeytt upp, virðist vera sá, að hjálpa þurfi bæjarfjelögunum, og þó sjerstaklega Reykjavík. Allur vaðallinn snýst um það, að veita Reykjavík hjálp. Þetta hefir hleypt illu blóði í mig og marga fleiri. Þó jeg á hinn bóginn viðurkenni, að sumir hjer í bæ verði hart úti, þá er ekki ástæða til þess barlóms, sem hefir gengið fjöllunum hærra. Alt þetta dýrtíðarhjal miðar ekki til annars en að ala upp í mönnum þá hugsun, að ekki sje um annað að gjöra en að leita landssjóðs, ef eitthvað er að. Þetta tel jeg afarilla farið og blátt áfram skaðlegt. Brtt., sem hjer liggur fyrir, styður þennan hugsunarhátt og miðar að því, að draga kjark og dug úr mönnum. Hluturinn er sá, að nú um langt áraskeið hefir aldrei verið meiri atvinna en einmitt nú, og aldrei hærra kaup goldið, hvorki til lands nje sjávar.

Það hefir komið fyrir áður, að sjávarpláss hafa orðið illa úti, vegna fiskileysis, og hefir þá stundum verið farin sú leið, að leita samskota þeim til hjálpar, og hefir gefist vel. Jeg skal játa, að mjer finst þetta ekki viðkunnanleg aðferð, en af tvennu illu þá er það þó næstum því skárra, heldur en að gefa heimild til að nota landssjóðinn til fátækra framfæris.

Af þessum ástæðum og fleirum mun jeg greiða atkvæði á móti brtt. á þgskj. 959, og verði hún samþykt, þá mun jeg greiða atkvæði á móti frumvarpinu, þó mjer þyki það leitt.