13.09.1915
Neðri deild: 59. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

140. mál, heimild til dýrtíðarráðstafana

Benedikt Sveinsson:

Það er undarlegt að heyra, hve mjög þeir hv. þm. Mýr. (J. E.) og þm. Dal. (B. J.) beita sjer gegn þessu frumv.

Jeg kannast við, að það er rjett hermt af háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), að alt of mikið hefir verið gjört úr hallæri nú í sumar. Blöðin hafa stöðugt alið á gasprinu, til þess að afla sjer frekara fylgis hjer í bænum, og þm. Rvk. (S. B. og J. M.) hafa neyðst til þess, að taka undir það, vegna kjósenda sinna. Að vísu verður því ekki neitað, að einstakir menn halla orðið allhart úti, vegna dýrari nauðsynja, en þá er það einmitt frumv. eins og þetta, sem helst þarf við. Vitanlega hafa menn orðið harðast úti í kauptúnunum, og þá einkum í Reykjavík. En þá ber þess jafnframt að gæta, að margir hjer hafa grætt stórum á kaupverslun og útgjörð, og væri þeim ekki ofætlun að miðla þeim, sem verr eru settir. Það er því ástæðulaust, að Reykvíkingar fari að hlaupa í landssjóðinn í þessu skyni. En þar sem það er rangt, að þeim mönnum, sem hjálpa á á þenna hátt, sje reiknað það til sveitarstyrks, þá er auðvitað alveg rjett að samþykkja frumv. eins og þetta, sem útilokar það, en setur sjerstakar reglur um það, hvernig hjálpinni skuli jafnað niður á þá menn, sem aflögufærari eru.

Háttv. þm. Mýr. (J. E.) talaði um að nauðsynlegt væri að stuðla að því, að hver maður bjargaði sjer upp á eigin spítur, en lendi ekki á sveitinni. Það er einmitt þetta, sem vakað hefir fyrir flutningsmönnum frumvarpsins, því að það er segin saga, að að þeir menn, sem einu sinni hafa tapað rjettindum, vegna þess, að þeir hafa þegið sveitarstyrk, þeir hinir sömu leita aftur á sveitina. En með þessu frumv. er komið í veg fyrir það, að menn fari á sveitina, og sjálfstæðishug manna haldið við. Það er undarlegt, að háttv. þm. Dal. (B. J.) skuli vera á móti þessu frumv., því að það er mjög skylt frumv., er hann bar fram hjer á dögunum um tekjuskatt á þeim mönnum, sem mestan gróða hefðu. Hvorttveggja frumv. leggur gjöldin á þá, sem eru aflögufærastir. Munurinn er að eins sá, að þessi aðferðin er umsvifaminni, og eins er frekari trygging fyrir, að hún komi að tilætluðum notum, því að sveitarstjórnirnar vita miklu betur, hvar það er, sem skórinn kreppir í einstökum hjeruðum, heldur en landsstjórnin eða nefnd manna í Reykjavík, sem mundi hafa verið ætlað það, að skifta fje því, er inn í landssjóðinn sargaðist með tekjuskattinum. Hvað getur stjórnin, sem situr hjer í Rvík t. d. vitað um skort manna austur í Hornafirði eða norður á Ströndum? Þetta frumv. er líka sannsýnilegra að því leyti, að hjer er að eins ætlast til heimildarlaga, og vitanlega verður ekki gripið til þessara ráðstafana, nema þar, sem það er bráðnauðsynlegt. (Bjarni Jónsson: Hvað gagnar frumv. þar, sem enginn bjargálnamaður er í sveitinni?) Það væri gaman að vita, hvar á landinu svo væri ástatt. (Bjarni Jónsson: Hjá vísindamönnunum í Gufudalssveitinni, eftir sögn þeirra eigin þm.) — (Hlátur.). Væri svo, þá væru engin önnur úrræði fyrir hendi, en að leita hallærisláns.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en með því að jeg tel þetta besta frumv., sem fram hefir komið á þinginu í þessum árbótarmálum, þá vona jeg, að það gangi greiðlega fram.