21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Jeg skal vera fáorður mjög. Okkur flutningsmönnum kom saman um að bera fram frumv. þetta, af því, að okkur ógnaði, hve mikið hefir verið selt af fasteignum landsins, síðan þessi lög gengu í gildi. Og þar sem það er nú auk þess staðhæft af mörgum, að þjóðjarða og kirkjujarðasölulögin hafi þó ekki náð þeim aðaltilgangi sínum, að koma jörðunum í sjálfsábúð, þá virðist þeim mun meiri ástæða til að athuga þetta mál. Jeg skal svo geyma það þangað til seinna, að reifa þetta mál nákvæmar. Jeg vænti þess, að best fari á, að því verði vísað til landbúnaðarnefndar, með því að þar mun vera niður komið annað mál, skylt þessu.