21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Benedikt Sveinsson:

Jeg hefi ætíð verið fremur á móti sölu þjóðjarða. Jeg ætla, að það sje miklu hyggilegra af þinginu að tryggja sem best það getur ábúð ættanna á jörðunum, heldur en selja þær og láta þær ganga úr eign landsins. Þjóðjarðasalan hefir mest verið heimtuð sakir þess, hve ábúðarlögunum hefir verið ábótavant. Hjer er engin erfðafestuábúð. Búandinn fær ábúðina í lengsta lagi sína lífstíð. En það er hart, þegar bóndi hefir búið á sömu jörðinni langa lengi, ef til vill nokkra tugi ára, og hefir gjört margvíslegar umbætur á jörðunni, og fellur svo frá, þá skuli afkomendur hans vera flæmdir á burt. Þetta hefir staðið hag lands og lýðs fyrir þrifum. Jarðirnar eru betur setnar, ef sama ættin situr á þeim um langan tíma. Bóndinn veit það þá, að hann er að búa í haginn fyrir afkomendur sína. Það væri því nauðsynlegt, að Alþingi reyndi að koma því einhvern veginn þannig fyrir, að jarðirnar gætu haldist sem lengst í sömu ættinni.

Það var að vísu tilgangurinn með þjóðjarðasölulögunum, að stuðla að því, að jarðirnar komist í sjálfsábúð. Það er því miður engin trygging fyrir því, að þessi tilgangur náist; hætt við að einstakir menn noti lögin til að ná eignarhaldi á jörðunum með góðum kjörum og selji svo aftur, er þeim lítst. Mjer virðist það því í alla staði heppilegra, að þjóðin sje eigandi jarðanna. En nú hafa þessi lög verið sett, og þá eiga allir leiguliðar á þjóðjörðum jafnan rjett til þess að kaupa jarðir sínar, með þeim takmörkunum, sem lögin setja. Ef frv. þetta verður að lögum, kemur það mörgum að óvörum. Vil jeg því beina því til þeirrar háttv. nefndar, sem jeg býst við að þessu máli verði vísað til, að hún athugi það gaumgæfilega, hvort ekki sje sjálfsagt, að þeir, sem þegar hafa lagt drög fyrir að fá ábýlisjörð sína keypta, geti fengið hana, þótt kaupin, verði ekki fullgjörð fyrir 1. nóv. n. k. Mjer finst það nokkuð hart, að þeir, sem fengið hafa vilyrði fyrir ábýlisjörð sinni, verði að hætta við að kaupa hana, vegna þessara frestunarlaga, og mjer finst þeir vera beittir órjetti í samanburði við aðra, sem fengið hafa sínar ábýlisjarðir keyptar. Því að það er víst, að það eru stór hlunnindi, sem þeir leiguliðar fá, sem fá ábýlisjarðir sínar keyptar með þeim kjörum, sem þjóðjarðir og kirkjujarðir hafa verið seldar, og þau hlunnindi ættu þá að ganga sem jafnast yfir alla. Jeg vona að háttv. nefnd athugi þetta og reyni að skirrast við að gjöra nokkrum rangt til.