21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Benedikt Sveinsson:

Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) heykslaðist á því, að jeg og aðrir hafa kvartað yfir því, að kjör leiguliða væru ekki eins góð sem skyldi. Jeg held þó, að sú kvörtun sje rjettmæt, því að einmitt þess vegna er eftirsóknin eftir að fá jarðirnar keyptar eins mikil og hún er. Það ætti að gjöra landsdrotni að skyldu, að tryggja leiguliðanum svo góð kjör, að hann finni ekki til þess, hvort hann á jörðina sjálfur eða ekki. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. (P. J.), sem jafnframt er umboðsmaður, að skjóta því fram, að það sje venja í hans hjeraði, að láta erfingja ábúanda sitja fyrir ábúðinni. Þó að þetta kunni að vera venja hjá honum, þá er það ekki svo annarstaðar. Annars mintist hann á einstakt dæmi sem sönnun þess, hve erfðaábúðin væri nú trygg; — stjórnarráðið hefði talið rjett að byggja erfingja fyrri ábúanda jörðina, þótt hann byði ekki eins hátt og aðrir. En það sýnir einmitt, hve valt það fyrirkomulag er, sem nú gildir, að umboðsmaðurinn sá sjer ekki annað fært, en að skjóta málinu til stjórnarráðsins. Erfinginn náði að vísu ábúðinni með herkjum, en þó með því að borga miklu hærra eftirgjald en áður hafði verið, af því að hinir og þessir tóku til að bjóða í jörðina, hver í kapp við annan, ef til vill meira en nokkurt vit var í. Það er bágborin erfðaábúð að þurfa að hlíta því, að afgjaldið hækki eftir því, sem Pjetri eða Páli kann að detta í hug að bjóða í ábúðina í kapp við erfingja fyrri ábúanda. Þótt hv. þm. (P. J.) sem umboðsm. hafi sýnt sanngirni í þessu efni, þá er það ekki sem tryggilegast, að stjórnarráðið þurfi að hlutast til um ábúð jarða norður á landshorni. Það getur brugðið til beggja vona um það, hvort tillögur stjórnarráðsins verði affarasælar eða rjettlátar í slíkum efnum. Jeg fæ ekki betur sjeð en að það sje mest um vert, að athuga ábúðarkjör leiguliða í sambandi við þjóðjarðasöluna.