04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Framsögum. minni hl. (Guðm. Hannesson):

Jeg hefði viljað tala sem stytst í þessu máli. Minni hlutinn hefir tekið flest fram í nefndaráliti sínu, en þó eru það einstaka atriði í nefndaráliti meiri hlutans, er jeg hefði viljað minnast á. Jeg álit, að ef ábúðarkjör og stjórn jarða eigi að vera hin sömu og áður hafa verið, þá sje þýðingarlaust að fresta sölu þjóðjarða. En menn verða vel að athuga, að frestunin gefur þjóð og þingi umhugsunartíma, sem nota má til þess að athuga málið á ný, endurbæta ábúðarlög vora, rannsaka hver áhrif þjóðjarðasalan hefir haft og hver líkindi sjeu til þess, að skifta megi jörðum sundur o. fl. Þetta á því ekkert skylt við kák, eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) vildi nefna það.

Jeg hallast að þeirri skoðun, að allar jarðir ættu helst að vera opinberar eignir, en takist ekki að gjöra ábúðarkjörin svo góð, að þau gefi jafna hvöt til jarðræktar og endurbóta eins og sjálfseign, þá væri þjóðeign á jörðum til ills eins. Það skipulag er að sjálfsögðu best, sem best tryggir, að landið sje notað og ræktað á sem fullkomnastan hátt. Alt veltur á því, hvort þjóðareign getur trygt þetta eða ekki.

Í nefndaráliti meiri hlutans er það talinn mikill ókostur við erfðaábúð, að eftirgjald verði bóndinn að greiða árlega í landssjóð, og verði því verr settur en ef hann keypti jörðina og losaði sig við eftirgjaldið. Í nefndaráliti minni hlutans, tölulið f., er drepið á það, að ekkert sje því til fyrirstöðu, að ábúandi leysi sig undan eftirgjaldskvöðinni, með því að greiða verð jarðarinnar. Auðsætt er, að landssjóði væri þetta að öllu áhættulaust, en ekki er mjer kunnugt um að þetta skipulag hafi tíðkast erlendis. Eigi síður er það þess vert, að það væri betur athugað.

En þar sem talað er um í nefndaráliti meiri hlutans, að sjálfsábúð tryggi betur, að jörðin haldist í ættinni, þá er svo fjarri því, að þetta sje rjett, að það er helber misskilningur. Sjálfsbúðin tryggir það engan veginn, að jörðin haldist í ættinni. Þó eitt af börnum eigandans taki við henni og eignist hana, þá getur hún gengið úr eigu þess og ættarinnar óðar en varir. Það þarf ekki t. d. annað til en að ungur sjálfseignarbóndi fái ekki þá stúlku, sem honum lítst á. Þetta getur orðið til þess, að hann breyti öllum áformum sínum, hætti búskap, selji jörðina og fari til Ameríku, og er þá jörðin úr ættinni. Ótal önnur atvik geta haft sömu áhrif, enda er reynslan sú, að mjög fáar jarðir haldast mjög lengi í sömu ætt. Svo hefir og þetta reynst erlendis. Sjálfsábúð er engin trygging fyrir að jörðin haldist í ættinni, en það er aftur á móti erfðafestuábúðin. Við skulum taka t.d., að bóndi fær jörð á erfðafestu hjá stjórninni. Ef nú elsti sonur hans annað hvort ekki vill jörðina, eða reynist svo slæmur ábúandi að hann missi ábúðarrjettinn, þá er hún svo sem ekki gengin úr ættinni fyrir því. Þá er næsta barninu boðin jörðin og svo koll af kolli. Væri jeg bóndi, og ætti fallega jörð, þá mundi jeg sennilega gefa hreppnum hana eftir mig látinn, með ákveðnum skilyrðum, til þess, að fyrirbyggja það, að hún gangi úr ættinni. Meiri hlutinn hefir algjörlega rangt fyrir sjer í því, að sjálfseignin tryggi best ættina, og hlýtur að kannast við, að jeg fari hjer með rjett mál.

Það var satt, sem háttv. framsögum. meiri hl. (B. H.) tók fram, að eins og nú hagar til, festist lítið af fje ábúenda, þó að þeir kaupi jarðir sínar. Það festist að vísu nokkuð, en oftast lítið. En hvers vegna svo lítið? Af því, að jarðirnar eru seldar mjög ódýrt og með vægum afborgunarskilmálum oft og einatt. Ábúendunum er gefinn meiri eða minni hlutinn af jarðarverðinu. Þetta er vitanlega ekki ætíð svo, en mjög oft. Jeg þekki til þess, að ábúandi hafi fengið jörð sína keypta fyrir helming eða jafnvel þriðjung verðs, á við það, sem hægt hefði verið að fá fyrir hana, ef hún hefði verið seld á uppboði.

Þá er sú mótbára, sem mörgum vex í augum, og tekin var skýrt fram af hv. frsm. meiri hl. (B. H.), að þegar ættleggurinn er aldauða, eða þegar ábúandinn sleppir ábúðarrjetti sínum, einhverra hluta vegna, þá verði hún og önnur mannvirki og umbætur á jörðinni ekki metin hærra en svo, að það borgi sig fyrir landssjóð, að eiga jörðina og leigja hana eftir sem áður. Fljótt á litið sýnist þetta hart, en svo er ekki, þegar það er athugað, að sjálfseignarbóndinn tapar eins að þessu leyti, og ekki síður. Jeg þekki dæmi til þess, að menn, sem hafa reist stórhýsi og gjört aðrar miklar umbætur á jörðum sínum, hafa orðið að láta þetta fara fyrir lítið, þegar þeir hafa orðið að farga jörðinni. Þetta vill brenna við í öllum norðlægum löndum. Þannig er sagt, að viðkvæðið sje það í Noregi hjá jarðeigendum, sem hafa bygt vel upp bæi sína og þurfa að selja jarðirnar, að ef þeir fái skaplegt verð fyrir húsin, þá skuli þeir gjarna láta sjálfa jörðina fyrir ekkert. Hjer er því engu breytt til hins verra. Og undarlega mega þeir menn vera gjörðir, sem tekur það mjög sárt, að ættmenn þeirra, eða öllu heldur einhverjir fjarskyldir útarfar, verði fyrir þessu tjóni, sem ekki kemur fram, fyrr en allur beini ættleggurinn er útdauður, eða hirðir ekki um að nota ábúðarrjett sinn.

Vissulega er óhætt að gjöra ráð fyrir því, ef löggjafarvaldið fer hyggilega að ráði sínu, að enginn geti sagt með sanni, að minni hvöt verði fyrir erfðafestubóndann, að sitja jörð sína sæmilega heldur en sjálfseignarbóndann. Eina stóra mótbáran, sem hjer mætti koma með, er sú, að rjettindi erfðafestubóndans sjeu trygð um of, svo að dugnaðarmönnum, sem utan við standa, sje gjört ókleift, að brjótast áfram og bola þessum hamingjusömu mönnum, sem jarðirnar hafa, burtu, þegar þeir eru ónýtir. Þessi mótbáta er ekki einskis virði.

Meiri hluti nefndarinnar hefir engu svarað þeirri ástæðu, sem þyngst vegur, að engar hömlur eru reistar við því, að sjálfseignarbændur níði jarðir sínar. Það er hörmulegt að sjá, hvernig sumar sjálfsábúðarjarðir eru setnar. Sjeð hefi jeg slíkar jarðir, þar sem kofarnir eru að drafna niður og hrynja, og tún og engjar komnar í hörmulegustu órækt.

Það hefir verið sagt, að yfirleitt megi þekkja þær jarðir úr, sem keyptar hafa verið, svo miklu betur sjeu þær setnar en aðrar jarðir. Þetta er sjálfsagt satt. En af hverju er þetta svo? Langoftast eru það efnuðustu og dugnaðarmestu mennirnir, sem kaupa jarðir sínar, og þeir hafa gjört þeim sjálfir til góða. En ef við gætum litið yfir 4–5 ættliði, þá býst jeg við, að annað yrði uppi á teningnum, ef borið væri saman við bestu leiguliðakjör. Það er engin sönnun fyrir því, að málstaður meiri hluta nefndarinnar sje rjettur, sem háttv. framsögumaður meiri hl. (B. H.) skýrði frá um sjálfseignarbændurna þar austur frá, þó að jeg efist ekki um, að rjett sje frá sagt, að þeir reisi vönduð steinsteypuhús á jörðum sínum og gjöri þeim á annan hátt til góða, en leiguliðarnir hafist ekki að, en flytji af jörðunum, þegar húsin sjeu að hrynja ofan í höfuðin á þeim. Því að við ætlumst ekki til, að leiguliðaábúðinni verði fyrir komið eins og nú á sjer stað. Hjer er því engan samjöfnuð hægt að gjöra. Jeg er alveg á sama máli og meiri hl. nefndarinnar um það, að ef leiguliðaábúðinni á að haga framvegis eins og verið hefir, þá komi ekki til mála að leggja neinar hömlur á þjóðjarðasöluna.

Jeg gjöri ekki mikið úr því atriði, sem hjer hefir verið hreyft, að lánstraust landsins ykist stórum við það, að landssjóður ætti allar jarðirnar í landinu. Þjóðverjar eiga mikið af fasteignum og þeir gjöra ekki mikið úr þessu.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar. Jeg vona, að háttv. deild samþykki þetta litla frumv. Það miðar ekki til annars, en að gefa mönnum dálítinn umhugsunarfrest, til þess að átta sig á þessu mikla vandamáli. Það getur meira en verið, að eftir þann tíma verði jeg harður með þjóðjarðasölu. Það er komið undir því, hver kjör leiguliða verða þá.

Það, sem jeg vildi bæta við, var, þótt undarlegt sje, um nefndarálit um verðtollinn, því þar er vikið að jarðeignamálinu. Háttv. þm. Dal. (B. J.) telur þar, að svo framarlega sem allar jarðeignir landsins yrðu þjóðareign, þá væru eftirgjöldin ærnar tekjur fyrir landssjóð. Hann segir að jarðeignir landssjóðs sjeu 100 milj. kr. virði, og með 4% eftirgjaldi geti þær því gefið landssjóði 4 milj. kr. árlegar tekjur. Þetta er vitanlega alveg rjett reiknað, það er að segja, ef jarðirnar má meta svo hátt. Samkvæmt landshagsskýrslunum eru jarðarhundruð landsins samtals 85 þús., og hvert jarðarhundrað talið 150 kr. virði. Jarðeignir landsins eru eftir því, ekki 100 milj. kr., heldur 12–13 milj. kr. virði, og afgjaldið yrði þá ekki 4 milj. kr., heldur eins að um ½ milj. kr., með 4% árlegu eftirgjaldi. Jafnvel þótt húseignir í kaupstöðum, sem eru 20 milj. kr. virði, væru taldar með, yrði eftirgjaldið ekki nema rúmlega 1 milj. kr. Það er því ekki unt, að leggja þann skatt á jarðirnar, að hann geti komið í stað allra skatta og tolla. Hv. þm. Dal. (B. J.) hefir krítað hjer heldur liðugt.

Löggjöfin á ekki heldur að hugsa um það, hvern styrk landssjóður eða lánstraust hans hafi af þessu. Hún á miklu fremur að líta á það, hvernig best verður haldið uppi góðum búskap í landinu, og hvernig hægt er að tryggja sem flestum landsins börnum atvinnu og uppeldi við hollan atvinnuveg og heilbrigðan, sem landbúnaðurinn er.