04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Guðmundur Eggerz:

Aðalvopnið sem beitt er gegn okkur, sem viljum hlynna að sjálfseignarbúskap í landinu, með því að að leyfa ábúendum að kaupa jarðir sínar, er það, að lánstraust landsins rýrni við það. Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) vakti þenna draug upp. Þetta atriði er nú orðið svo margrætt, að jeg skal ekki dvelja við það.

Það, sem gaf mjer ástæðu til þess að biðja um orðið, var nefndarálit minni hluta nefndarinnar. Því er ekki að neita, að í því eru töluverð nýmæli. Háttv. framsm. minni hl. (G. H.) kemur þar fram sem fyrsti íslenskur socialisti og um leið sem fyrsti íslenski aðalsmaðurinn. Í byrjun nefndarálitsins er hann socialisti, en aðalsmaður í endanum. Í upphafi nefndarálitsins ætlast hann til, að landssjóður eigi allar jarðeignir landsins, en seinast ætlast hann til, að komið verði á sem fastastri erfðaábúð. Jeg get ekki betur sjeð, en að það sje nokkurs konar landaðall, sem hann ætlar sjer að stofna.

Fyrst skal jeg víkja að socialistanum.

Það stendur í nefndarálitinu, að jarðeignir ættu helst ekki að vera eign einstakra manna. (Guðmundur Hannesson: Það er sagt, að það sje álit margra góðra manna). Það getur verið að nál. sje ekki nál. minni hl., heldur einhverra góðra manna. Jeg verð þó að ganga út frá því, að minsta kosti þangað til hinn minnihlutamaðurinn hefir talað. En af þessu, að jarðeignir eiga ekki að vera eign einstakra manna, leiðir það, að landssjóður á ekki að selja jarðir sínar, heldur þvert á móti að kaupa allar einstakra manna jarðir. Jeg býst við, að háttv. deildarmenn sjeu mjer sammála um það, að hjer sje um svo kallaða jafnaðarstefnu að ræða, sem víðs vegar úti um heim á marga áhangendur, en en aldrei hefir rekið upp höfuðið fyrri hjer á Alþingi Íslendinga. Þegar öðru eins stórmáli og þessu er slegið fram, þá virðist mjer, að heimta megi, að tilraun sje gjörð til þess að rökstyðja það. En svo er ekki gjört, heldur er alt uppi í skýjunum. Eða hvernig hugsar minni hl. sjer að því verði fyrir komið, að landssjóður kaupi allar einstakra manna jarðir? Jeg er á þeirri skoðun, að ef háttv. framsm. minni hl. (G. H.) ætti sjálfur jörð, þá mundi hann ekki hlaupa til þingsins, til þess að verða af með hana, fyrir miklu minni peninga en hann hefir gefið fyrir hana. Enda hefir það oft viljað brenna við, að þeir, sem eru socialistar í theoríunni, eru það ekki í praxis. En það er líka sitt hvað. Úr því að minni hluti er nú kominn inn á þetta, því vill hann þá ekki halda áfram, og leggja til, að öllum peningum og verðmæti sje skift jafnt niður á milli manna o. s. frv. o. s. frv.

Jeg verð að fara fljótt yfir svona loftkastalakent nefndarálit. Auðvitað eru ýms atriði í því, sem jeg er að öllu leyti sammála við minni hl. um. En það eru líka atriði, sem ekki þurfti mikla yfirvegun til að finna, svo sem það, að æskilegt væri, að landið væri sem best ræktað, og að sem flest landsins börn gætu fengið jarðnæði og sveitirnar framfleytt fleira fólki. Þetta vil jeg líka og sjálfsagt flestir.

Þetta er nú aðalinngangurinn, en síðan er nefndarálitinu skift niður í ýmsa kafla, merkta 1., 2., 3., 4. og 5.

Annar kafli gjörir ráð fyrir því, að hið opinbera ráði yfir öllum jörðum á landinu. Það er vitanlega alveg rjett hjá minni hlutanum, að meðan einstakir menn eiga jarðirnar, eru þeir ekki fúsir á að skifta þeim niður á milli hinna eða annarra. Ef jeg ætti jörð, mundi jeg að minsta kosti ekki taka því með þakklæti, ef Pjetur eða Páll, eða þó hann hjeti Guðmundur, kæmi og heimtaði af mjer 2/3 hluta af jörðinni til ábúðar. Ef landið ætti jarðirnar, gæti það náttúrlega skift þeim sundur eftir vild, en þó ekki ef það bygði þær til lífstíðar. Á þessum kafla nefndarálitsins er svo að sjá, sem minni hlutinn vilji koma í veg fyrir, að menn vanti jarðir til ábúðar. Virðist hann gjöra ráð fyrir, að hjer á landi sje mikil jarðekla. Mun minni hlutinn ekki hafa hlaupið á sig hjer, og haft annað land fyrir augum, sem sje Danmörku? Guðmundur Hannesson: Hvaða vitleysa!) Það er kunnugt, að landrými er lítið í Danmörku, því að hana byggja um 3 miljónir manna, en landið er ekki nema 38 þús. ? km. Hjer eru að eins um 90 þús. íbúar, en landið 104 þús. ? km. að stærð. (Guðmundur Hannesson: Hvað mikið af því er ræktanlegt land?) Það veit jeg ekki og enginn í deildinni. (Guðmundur Hannesson: Minna en í Danmörku). Fyrst þarf að veita fje til að láta mæla landið, áður en hægt er að segja það. (Guðmundur Hannesson: Það hefir verið mælt). Það er ekki búið að því enn. (Guðmundur Hannesson: Jú). Það hefir þá verið gjört í gær eða í fyrradag. Nei, Danmörk er lítið land í samanburði við fólksfjöldann, eins og kunnugt er, og það dugir ekki að bera hana saman við Ísland að því leyti. Hjer er landrýmið langt fram yfir það að vera nægilegt, enn sem komið er. Minni hlutinn hefir farið hjer ógætilega að í rökfærslu sinni.

Þá skal jeg víkja að 3. kafla nefndarálitsins. Hann er um verðhækkun jarða. Jeg skal játa, að jeg skil ekki meginatriðið í þeim kafla, og þó hefi jeg gjört mjer alt far um að komast þar að einhverri niðurstöðu. Helst skilst mjer, að minni hl. þyki ekkert í það varið, að jarðeignir í landinu hækki í verði, og telji það jafnvel til ills eins. Jeg hjelt, satt að segja, að það væri þó bæði hagur fyrir ábúandann og ekki síður fyrir landið. Mig minnir, að það væri háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), sem vildi ekki að landssjóður seldi jarðir sínar, vegna þess, að nú væru þær sem óðast að hækka í verði, og landssjóður tapaði verðhækkuninni, ef hann fargaði þeim. Eitthvað heldur hann að í verðhækkunina sje varið. Hjer er að minsta kosti mótsögn á milli háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) og minni hlutans.

Þá er það varhugaverð stefna, sem kemur fram í 4. kaflanum, að öll verðhækkun á jörðum eigi ekki að koma ábúandanum að notum, heldur landinu í heild sinni.

Jeg get ekki sjeð annað en að þetta sje hreinn og beinn »socialismus«. (Sigurður Sigurðsson: Hvað er ljótt við það?). Jeg er ekki að segja, að það sje ljótt. En jeg er ekki »socialisti«. Annars vildi jeg beina þeirri spurningu til háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), ef hann ætti jörð, sem væri 5 þús. kr. virði, og honum væru svo boðnar í hana 10 þús. kr., hvort hann mundi þá vilja afhenda landssjóði helminginn af verðinu. Jeg held, að hann sneri upp á sig, og gjörði það ekki. Jeg hugsa, að hann ljeti ekki landssjóð fá 5 kr. af því, hvað þá meira. Það er alt annað að prjedika þessa stefnu en að praktisera hana. Það er að sínu leyti eins og þegar háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) er að prjedika sparnaðarstefnu fyrir landssjóð, en þegar eitthvað á að gjöra í Flóanum, þá vill hann ausa gulli, silfri, kopar og seðlum út úr landssjóði, svo hundruðum þúsunda skiftir.

Jeg get ekki fallist á, að þessi lög verði numin úr gildi, nema eitthvað annað komi í staðinn, er bæti kjör leiguliða. Minni hluti nefndarinnar virðist einnig ganga út frá því, að eitthvað eigi að koma í staðinn. En hvað er það? Jú, það er þessi erfðafestuábúð. En það er að eins drepið á hana, ekki minst á, hvernig henni skuli fyrir komið, hvað þá að lagt sje fram frumv. um hana, sem þurft hefði, til þess að menn gætu sjeð, um hvað væri að velja.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) sagði, að fje væri fleygt út í vitleysu, með því að selja þjóðjarðir og kirkjujarðir, eins og nú hefði tíðkast um hríð. Þetta nær ekki nokkurri átt. Stjórnarráðið hefir einmitt farið mjög varlega í það, að selja þjóðjarðir og kirkjujarðir, svo varlega, að þó að sýslunefndir hafi lagt með sölunni, hefir það synjað um sölu á hverri jörðinni eftir aðra. Þetta er mjer að minsta kosti kunnugt úr minni sýslu.

Sami háttv. þm. (Sk. Th.) sagðist ekki skilja það, hvers vegna ætti að fara að gefa mönnum fje úr landssj., þótt þeir hefðu verið ábúendur á þjóðjörð í nokkur ár. Það hefir enginn talað um slíkt. Aftur á móti virðist það ekki ósanngjarnt, að t. d. maður, sem hefir verið ábúandi í 20 ár, hafi eitthvað gott af því; að honum sje ekki kastað út á klakann allslausum og hann fái enga borgun fyrir umbætur þær, er hann hefir gjört á jörðinni á eigin kostnað. Það er ósanngjarnt. Þetta finnur háttv. minni hl. líka. Hann veit það, að eigi að fara eins að og hann stingur upp á, þá verður jafnframt að semja lög, er á einhvern hátt tryggi rjett leiguliða. En minni hlutinn finnur engin ráð til þess.

En aðalástæðan, sem fyrir mjer vakir í þessu máli, er sú, að það er fengin reynsla fyrir því, að jarðir þær, sem eru í sjálfsábúð, eru miklu betur setnar. Það er að vísu satt, sem minni hlutinn tekur fram, að það liggja ekki fyrir neinar opinberar skýrslur um bætur á sjálfsábúðar og leiguliðajörðum. En þótt svo sje ekki, þá er til reynslan fyrir þessu, er jeg hefi sagt. Háttv. þingmenn geta riðið um landið, og það í þeim hjeruðum, sem þeir þekkja persónulega ekkert til, og samt mundu þeir geta sjeð mun á sjálfsábúðar- og leiguliðajörðum. Þeir gætu bent á jarðirnar og sagt: »Þetta er þjóðjörð, þetta er sjálfseignarjörð«. Og þetta er ósköp skiljanlegt. Það er ekki nema eðlilegt, að menn hugsi meira um og hlynni meira að þeirri jörð, sem þeir eiga sjálfir og vita, að þeir sjálfir eða þeirra afkomendur njóta afurðanna af. Það er því hjákátlegt, að halda öðru eins fram og því, að jarðir í sjálfsábúð sjeu fremur niðurníddar. Það kann að vera um einstaka jörð, en alment eru þær mikið betur setnar.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið að sinni. Mjer er mjög ant um, að þetta frumv. nái ekki fram að ganga. Jeg veit um það, að þeir munu vera margir víða um land, sem mundi slá hinn mesta óhug á, ef þeir vissu, hvað fram á að fara. Þeir, sem kunnugir eru í sveitum, þekkja það, hve vænt mönnum þykir um jarðirnar sínar og hve sárt þeim tekur, að missa þær. Þó þetta sje að sumu leyti tilfinningamál, þá hefir það samt nokkura þýðingu. Jeg get ekki fengið mig til þess, að greiða atkvæði með því, að svifta menn rjetti, sem þeir eiga, og jeg er sannfærður um það, að það er miklu heppilegra fyrir landið og betra fyrir lánstraust þess, að jarðirnar sjeu vel setnar af sjálfseignarbændum en níddar niður af leiguliðum.