04.08.1915
Neðri deild: 24. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

32. mál, sala þjóðjarða og kirkjujarða

Pjetur Jónsson:

Jeg vil að eina taka það fram, að jeg vona, að þetta frumv. verði samþykt, þrátt fyrir það, sem háttv. þm. Snæf. (S. G.) sagði áðan. Jeg vona, að það sjeu ekki svo margir landsetar á þessum jörðum, sem gjört hafa undirbúning til ábýliskaupa, að með þessu verði sjerlega mikið brotið á móti væntanlegum kaupendum á næsta ári. Þetta er hvort sem er ekki nema frestur, og má vel vera að næsta Alþingi komist að þeirri niðurstöðu, að upphefja frestinn fyrir breyttar kringumstæður.

Ástæðan hjá okkur var aðallega sú, að óheppilegt virðist að selja jarðir nú, þegar peningaverð og peningaástæður eru svo mjög á reiki. Alt stingst á endum, og ekkert er að vita hvernig fer eftir ófriðinn, og jeg legg mikla áherslu á það, að engu er spilt, þó að ábúendur bíði þetta stutta tímabil með að fá jarðir sínar keyptar. Það er sem sje regla, að erfingjar fyrri ábúenda sitja fyrir, þá er leiguliðaskifti verða, svo að það er trygt, að kauparjetturinn gengur ekki úr ættinni, þótt þessi frestur verði.

Jeg hefi oft talað um þetta mál áður, og hefi þar litlu við að bæta, enda álit jeg nefndarálit minni hlutans mjög rækilegt og er háttv. framsögum. (G. H.) í flestu samdóma.