19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

13. mál, harðindatrygging búfjár

Flutningsm. (Bjarni Jónsson):

Þegar Torfi heitinn í Ólafsdal sendi þingmönnum bækling í vetur með þessu frumv. í, hafði jeg einsett mjer, að láta það koma til umræðu hjer á Alþingi. Jeg taldi sjálfsagt, að þingið tæki til meðferðar hugsanir og skoðanir jafnmerks manns og reynds að áhuga og vitsmunum á því efni, sem frumvarpið fjallar um.

Síðan er jeg kom í kjördæmi mitt, fjekk jeg áskoranir um það sama, sem jeg hafði ætlað mjer að gjöra, sem sje, að bera frumv. fram á Alþingi, fá það þar íhugað og rætt og gjört að lögum, ef mönnum fjelli það í geð.

Nú er þessi ágætismaður, sem frumv. hefir samið, dáinn, og ætti þá enn fremur að vera ástæða til að taka málið til rækilegrar íhugunar, og láta ekki undir höfuð leggjast, að sýna höfundinum þann vott virðingar og þakklætis, að ganga sem best frá málinu.

Jeg ætla ekki að lengja umræðurnar mikið, en vil að eins lýsa yfir því, að jeg álít það bæði viturlegt og sjálfsagt, að setja tryggileg lög, til þess að reisa skorður við þessari þúsund ára gömlu búnaðarsynd okkar Íslendinga, að fella fje í hörðum vetrum.

Það er eitt grundvallaratriði, sem deilt hefir verið um í löggjöfinni, hvort leggja ætti á menn lagaskyldu í þessu efni, eða láta sjer nægja með heimildarlög. Torfi í Ólafsdal hallast fremur að heimildarlögum, og mjer hefir heyrst Dalamenn vera þeim hlyntari. Jeg fyrir mitt leyti efast um, að hægt sje að ná takmarkinu með heimildarlögum; er hræddur um að margir hreppar muni skella skolleyrunum við þessu, en væntanlega verður þetta atriði rætt í nefnd, og hún kemst þá að einhverri niðurstöðu um, hvað tiltækilegast sje í þessu efni. Jeg vil geta þess, að sumir þingmálafundir í Dalasýslu komust að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að samþykkja heimildarlög, en skylda jafnframt alla hreppa til þess, að gjöra hreppssamþyktir um málið, en þeir að öðru leyti rjeðu sjálfir fyrirkomulaginu. Torfi í Ólafsdal hefir skrifað ítarlegar athugasemdir við frumv., og gjört áætlun um kostnaðinn við lögin, og getur það orðið til mikils stuðnings nefndinni. Fyrir skömmu var kosin hjer í deildinni, samkvæmt samþyktri þingsályktunartillögu þar að lútandi, landbúnaðarnefnd, og get jeg ekki sjeð, að þetta mál eigi heima í annari nefnd. Það er líka venjuleg hæverska, að leyfa flutningsmönnum frumv. sæti í nefndum þeim, er um málin fjalla. Nú vill svo vel til, að jeg á sæti í landbúnaðarnefndinni, og er flutningsmaður þessa frumv. Jeg vænti því, að háttv. deild vísi frv. til þessarar nefndar, og gjöri það að tillögu minni.