17.07.1915
Neðri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

15. mál, forðagæsla

Pjetur Jónsson:

Jeg get tekið í sama strenginn og háttv. þm. Mýr. (J. E.). Hann hefir nú tekið fram það helsta, sem jeg vildi sagt hafa. Mjer finst sá hugsunarháttur, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) vill halda fram í þessu máli, hvorki vera hans eigin hugsunarháttur, nje sá, sem þingið á að beygja sig fyrir. Hann segist hafa orðið var við óánægju með lögin hingað og þangað. Jeg veit ekki, hversu grómtæk sú óánægja er, þótt þingmálafundir, sem fáir sækja, samþyktu áskoranir um að breyta lögunum eða afnema þau. En einkanlega hefir sú aðferð, sem hjer er farið fram á, ekkert róttækt við sig, og er ekki bygð á neinum rökum. Jeg fyrir mitt leyti þekki annan hugsunarhátt, þann hugsunarhátt, sem jeg álít að ætti að verða ofan í þinginu, því að löggjafarvaldið verður að styðja hinn betri hugsunarháttinn. Þessi lög, og lögin, sem á undan þeim gengu, hafa frá upphafi vega sinna miðað að því, að bæta meðferð á skepnum og tryggja bústofninn betur með gætilegum ásetningi. Það getur vel verið, að þetta hafi sumstaðar gengið illa, og að litlu eða engu gagni komið, en þar sem jeg þekki til, verð jeg þó að álíta, að lögin hafi orðið til gagns.

Auðvitað er hlutverk slíkra laga torvelt, og gallar hafa verið á þessum lögum eins og öðrum lögum. Þá hafa menn alt af verið að reyna að lagfæra, þing eftir þing, og þá auðvitað mest það, sem menn hafa verið óánægðastir með. Annars hygg jeg nú, að segja megi um þessa óánægju, sem mest hefir borið á með lög þessi, að þeir gusi mest, sem grynst vaða, þeir hafi mest á móti þeim, sem minst hafa um þau hugsað.

Mjer þætti gaman að benda á eitt dæmi um undirtektirnar, þegar sú breyting var gjörð, að þessi lög komu í stað horfellislaganna. Þegar jeg kom heim af þingi 1913, þá hitti jeg hreppsnefndina á fundi heitna í minni sveit, og var þá minst á lögin, og var þá á þessum mönnum að heyra mikla óánægju með þau, eins og þeir skildu þau. Út af þessu varð nú nokkurt orðakast, en jeg bað þá að bíða við, og vita hvort ekki yrði nú sú niðurstaðan, að reynslan sannaði það, að full þörf væri á þessum lögum. Nú varð veturinn 1913–14 einn af hinum allra hörðustu, sem gengið hafa yfir þetta land í manna minnum, og kom það þá í ljós, að betra var að hafa haft einhverja almenna fyrirhyggju um ásetninginn. Í minni sveit höfðu menn sett vel á, enda heyjað sæmilega, en þó komust ýmsir í heyþrot, og fáir voru til muna aflögufærir. Og um vorið í miðjum harðindunum greip flesta mikil áhyggja, og þá kviknaði ný hugsun um það, að láta eigi slíkar áminningar sem þessa og aðra eins frá 1910, sem var annar harðinda veturinn frá, verða árangurslausar. Og árangurinn varð þessi, að haustið 1914 var stofnað ásetningarfjelag í minni sveit, með þeirri grundvallarreglu, að setja svo á, miðað við reynsluna, að hver einasti fjelagsmaður væri jafnan við því búinn að taka á móti harðasta vetri.

Menn kunna nú að segja, að þar sem svona fjelagsskapur sje kominn á, þar þurfi engin lög. En lögin stuðla einmitt að fjelagsskapnum, og það er gott að hafa aðhald þeirra og fjárframlög, til þess að koma ákvörðunum slíkra fjelaga í framkvæmd.

Í annari sveit nálægt heimili mínu hefir nú þegar verið fjárræktarfjelag í milli 30 og 40 ár, og hafa þar ætíð verið hafðar skoðanir á fje og fóðurbirgðum, og svo langt er þessi fjelagsskapur kominn, að nú í nokkur ár hafa birgðir hjá fjelagsmönnum ætíð verið nægar í hvaða vetri sem komið hefir.

Þessi tvö dæmi, sem því miður eru ef til vill ekki mjög almenn, sýna það, að mikið er hægt að gjöra í þessu efni, og það eru einmitt skoðanirnar, sem alið hafa upp þann rjetta hugsunarhátt, bæði áður og eftir það, er lögin um þær voru gefin. Og ef nú ætti að fara að afnema þau, og þar með lýsa yfir því, að löggjöfin álíti sjer meðferð búpenings og fóðurtryggingar alveg óviðkomandi, þá er jeg hræddur um, að það væri spor aftur á bak í menningarlegu tilliti.

Það er eins og háttv. þm. Mýr. (J. E.) sagði, að skoðanirnar hafa mikil áhrif, því að betur sjá augu en auga. Það er margt unnið í þessu landi með persónulegum áhrifum, bæði í pólitík og öðru, og það mætti undarlegt heita, ef þau mættu sín einskis í þessu efni.

Jeg fyrir mitt leyti teldi nú rjettast, að þetta frumv. gengi ekki til 2. umr., en af því að hjer er annað frumv., um fóðurtryggingarmálið, á ferðinni, sem væntanlega verður athugað í nefnd, þá stendur mjer nokkurn veginn á sama, þótt þetta gangi til þeirrar nefndar líka.