17.07.1915
Neðri deild: 9. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

15. mál, forðagæsla

Björn Hallsson:

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem síðast talaði, hefir nú þegar tekið fram sumt af því, sem jeg ætlaði að segja. Mjer kemur það nokkuð á óvart, að fram skuli koma frumvarp, eins og þetta, um að afnema forðagæslulögin, svona tafarlaust, þar sem þau hafa þó ekki komið til framkvæmda hingað til, nema einn einasta vetur. Að vísu heyrðist á síðasta þingi rödd úr sömu átt um það, að rjettast mundi vera að stinga þeim undir stól, en þá var sú leið valin, að halda þeim eins og þau voru.

Það er ekki svo að skilja, að jeg sje að öllu leyti ánægður með þessi lög, og að því leyti á jeg sammerkt við marga. En einmitt af því, að skoðanir manna um þau eru svo mjög sundurleitar, þá vil jeg ekki fara að hringla í þeim nú þegar. Jeg álít sem sje engu spilt, þó að þau sjeu látin gilda til næsta þings og athuguð sem best á meðan. Eins og við vitum eru nú komnar fram nýjar tillögur, sem þarf að athuga í þessu sambandi. Torfi heitinn í Ólafsdal sendi út um landið tillögur, sem ekki hefir gefist tími til að ræða og athuga nógsamlega áður en þing kom saman nú, og er full ástæða til að ætla, að þar sje ýmislegt gagnlegt í, þótt mjer virðist ýmsir annmarkar á því fyrirkomulagi. En eins og kunnugt er, er þar aðallega gjört ráð fyrir heimildarlögum.

Út af því, sem talað er um óánægjuna með þessi lög, vil jeg segja það, að þar sem jeg þekki til, hefi jeg ekki orðið var svo verulega óánægju með þau, að þess vegna sje ástæða til að fella þau úr gildi nú þegar. Auðvitað hafa ýmsir verið óánægðir með þau, en svo verður ætíð, þegar takmarkað er að einhverju leyti athafnafrelsi einstaklingsins, eða sett eftirlit með einstökum mönnum, þá verður það ætíð óvinsælt, enda er það fullkomlega athugavert, hvað löggjafarvaldið á að fara langt í því efni. En þótt nú ætti að afnema þessi lög, þá efast jeg um, að þingið gæti, sóma síns vegna, gjört það án þess, að setja eitthvað í staðinn. Það hefir hingað til álitið gagnlegt, að hafa lög, sem miðuðu til þess, að bæta meðferð á skepnum í landinu og koma henni á fullkomnara stig, og jeg held, að bæði þessi lög og horfellislögin gömlu hafi gjört talsvert gagn í þá átt, þrátt fyrir galla þá, sem á þeim hafa verið. Og ef nú ætti að fella þessi lög alveg úr gildi, þá vantar öll slík lög framvegis, og þarf þingið þá að athuga, hvort nokkuð eigi að setja í staðinn, og þá hvað það ætti að vera. Auk þess hefir borið alt of mikið á hringli í löggjöfinni á hverju þingi nú undanfarið. Það er eins og menn sjeu að fálma út í loftið og viti ekki hvað þeir vilja, þegar verið er að setja lög á einu þinginu og gjörbreyta þeim svo eða fella þau á því næsta. Samkvæmt undanfarinni reynslu mátti búast við því, að þótt forðagæslulögin væru feld nú úr gildi og einhver önnur lög sett í staðinn, þá yrðu þau lög afnumin á næsta þingi. Það er ekki vegur til að auka virðingu þingsins, að halda slíku áfram, og þess vegna álít jeg rjett, að láta forðagæslulögin gilda til næsta þings, en að landsmenn athugi vel á meðan bæði þau og aðrar uppástungur, sem fram koma, hvað muni vera heppilegast, svo að menn hafi eitthvað meira að styðjast við en álit einstakra þingmanna eða einstakra sveitarfjelaga, ef á að fara að breyta þeim. Full ástæða virðist mjer til, að stjórnarráðið leitaði umsagnar allra sveitarstjórna í landinu í þessu máli, til þess að fá heildaryfirlit yfir skoðanir manna í þessu efni.

Að endingu vildi jeg mega beina því til flutningsm. (E. P.), hvort honum finnist ekki þetta mál svo skylt ýmsum öðrum landbúnaðarmálum, sem nú liggja fyrir þinginu, að það ætti að verða þeim samferða og leggjast fyrir landbúnaðarnefnd.