23.07.1915
Neðri deild: 14. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

35. mál, verkamannamálið

Flutnm. (Skúli Thoroddsen):

Jeg ætla mjer ekki að tala langt mál um þingsályktunartillöguna, sem hjer um ræðir, því að jeg hygg, að þess gjörist ekki þörf, þar sem hún sýnir það sjálf mjög greinilega, hver tilætlunin er.

Eins og kunnugt er, hefir sú raunin orðið að undanförnu, að verkmannamálunum hefir lítið verið sint, enda hefir sú stjett ekki átt því láni að fagna, að eiga fulltrúa á þingi, er öðrum fremur ljeti sjer ant um velferðarmál hennar.

Á hinn bóginn stefnir nú alt óðum hjer á landi í þá áttina, að fólkinu fjölgar í kaupstöðum og kauptúnum, og má þá og jafnframt vænta þess, að verksmiðjur rísi upp, og iðnaður verði rekinn að miklum mun meiri en áður, og þá þó eigi hvað síst, ef menn læra að fara að nota fossaaflið til iðnaðarreksturs.

En bæði það, að ýms iðnaðarfyrirtæki, í stærri og smærri stýl, komast á fót, og hitt, að Íslendingum lærist, að nota sjer betur auðsuppsprettur hafsins en verið hefir, getur og leitt til þess, að fólk flytji hingað frá öðrum löndum, og fjölgi því miklu örar, í verslunarstöðum og við sjóinn, en ella mundi.

Jeg held því, að einmitt nú, meðan unt er að vinna að verkmannamálunum í friði, sje tækifærið til að afla sjer þekkingar á þeim, og setja hjer lög, sem þörfin krefur, báðum málsaðilum, verkmannastjettinni og atvinnuveitendunum, til nauðsynlegrar tryggingar, þar sem miklu erfiðara verður að koma slíkum lagaákvæðum að síðar, þegar ágreiningur kann að vera risinn upp, og alt orðið í báli og brandi.

Það er auðvitað, að styðja verður verkmannastjettina á ýmsar lundir með lögum. Lögin verða að gæta hagsmuna þeirra, svo að þeim — sem verandi minni máttar — sje ekki á einn nje neinn hátt misboðið. — Lögin verða t. d. að tryggja þeim styrk, er slys eða sjúkdóma ber að böndum, sjá þeim fyrir hæfilegum ellistyrk, ákveða lengd vinnutímans o. fl. o. fl. Einnig verða að vera til gjörðardómar, er skorið gætu úr, ef ágreiningur kæmi upp milli verkmanna og vinnuveitanda.

Löggjöfin verður yfirleitt að stefna að því, að skapa mentaða og sjálfstæða verkmannastjett í landinu. Og æskilegast væri það auðvitað, að ekki væri sá fulltíða maður í þjóðfjelaginu, er eigi væri svo mentaður, að hann gæti tekist á hendur hvaða starf eða stöðu í þarfir þjóðfjelagsins, sem er, ef ekki þarf beint sjermentunar til.

Að lokum legg jeg það til, að málinu sje ekki vísað til nefndar, en samþykt eins og það er, þó að jeg hins vegar mótmæli ekki nefndarskipun, ef það er vilji deildarinnar.