10.08.1915
Neðri deild: 29. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

35. mál, verkamannamálið

Guðmundur Eggerz:

Jeg get vel verið hlyntur þessari tillögu, en mig langaði að eins til þess að spyrja, hver greinarmunur væri gjörður á húsmönnum og þurrabúðarmönnum. Þessi nöfn koma fyrir í lögunum, en jeg efast um, að löggjöfin hafi vitað, hvað hún var að gjöra, og að hún kunni að gjöra greinarmun þar á, en slíkt er alveg nauðsynlegt að vita, hvað meint er með þessu. Enginn má skilja orð mín svo, að jeg sje á móti tillögunni, en jeg vil að eins ekki, að hún sje sett í milliþinganefnd. (Margir: Það er ekki tilætlunin). Jæja, mjer þykir vænt um, að svo er ekki, og fer svo ekki fleiri orðum um þetta, en þætti að eins æskilegt, að fá svar upp á spurningu mína.