10.08.1915
Neðri deild: 29. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

35. mál, verkamannamálið

Framsm. (Guðm. Hannesson):

Þess vegna er báðum þessum orðum haldið, að lögin tala um húsmenn og þurrabúðarmenn jöfnum höndum. En það er bersýnilegt, að óþarfi er að greina þetta í sundur, vegna þess, að munurinn er eiginlega enginn, Sjest það best á landhagsskýrslunum, því þar er tekið fram, að fjöldi þurrabúðarmanna hafi 1–2 kýr. 1906 voru t. d. 553 þurrabúðarmenn, sem töldu fram kú. En upprunalega meiningin hefir verið sú, að kalla þá húsmenn, er einhverja grasnyt höfðu, en hina þurrabúðarmenn, er enga höfðu. Jeg skal leyfa mjer að minnast á, að stjórninni var áður falið að semja skýrslu um smábændur og grasbýlismenn. Þetta er því beint áframhald þar af, þar sem munurinn á merkingu þessara orða er svo sáralítill, og fellur því algjörlega saman, að forvitnast um hag þessara manna, hvernig þeir komast af.