31.07.1915
Neðri deild: 21. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

57. mál, eignar- og afnotaréttur útlendinga

Framsm. (Guðm. Hannesson):

Þegar landbúnaðarnefndin hafði til meðferðar frumv. um forkaupsrjett landssjóðs á jörðum, þá þótti henni æskilegt, þó ekki gæti hún mælt með sjálfu frumv., að lög væru samin um takmörkun á eignar- og afnotarjetti útlendinga yfir íslenskum fasteignum.

Það kann nú vel að vera, að bættan, sem af útlendingum stafar í þessu efni, sje ekki svo ýkjamikil, en þó er það samt svo, að hvað eftir annað hefir þetta mál verið tekið til meðferðar hjer á þingi. Tillögur landbúnaðarnefndar 1877 byrjuðu með ákvæðum um það, að ekki mættu aðrir eignast jarðir hjer en þeir, er búsettir væru í landinu. Þingið 1899 afgreiddi lög um þetta efni, og 1901 lagði stjórnin frumvarp líks efnis fyrir þingið. Þá var frumvarpið orðið umfangsmeira og margbrotnara. Var mikið rætt og mikið um það þjarkað, en að síðustu felt.

Nefndin verður að álíta, að rjetti vegurinn í þessu máli sje sá, að stjórnin taki þetta til yfirvegunar og leggi svo frumvarp fyrir næsta þing.

Jeg skal láta ósagt, hve mikil eða lítil tilhæfa er í sögum þeim, er ganga af braski útlendinga í þessum efnum, en sagt er, að Frakkar hefðu haft í huga að kaupa stórar spildur á Suðurlandsundirlendinu, til þess að hagnýta sjer fossana þar o. fl. Og þetta er svo sem alls ekki ókleift fyrir miljónafjelög, eins og jarðir eru í lágu verði hjer. Jeg álít þetta þess vegna vel þess vert, að stjórnin vildi athuga það sem vandlegast hún sæi sjer fært.