09.08.1915
Neðri deild: 28. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (2523)

94. mál, vegalög

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er kunnugra en svo, að frá þurfi að segja, að ýmsir, bæði einstakir menn og heil hjeruð, eru mjög óánægð með ýms ákvæði í vegalögunum frá 1907. Og vegalagafrumvörpin, sem nú eru hjer á dagskrá, þrjú í röð, sýna þetta líka best. Þau eru öll til þess gjörð, að gjöra breytingar á rangsleitnum fyrirmælum vegalaganna, og eiga að bæta úr göllunum á þeim. Sjerstaklega vil jeg minna á það, að þótt nú verði samþ. frumvarpið um Stykkishólmsveginn svo kallaða og að viðhald hans yrði framvegis kostað af landssjóði, samkvæmt þeirri venju, sem ella gildir um aðra þjóðvegi landsins, þá vona jeg, að háttv. deild verði mjer samdóma um það, að þótt þessi eini galli á vegalögunum yrði þar með lagaður, þá sjeu svo margir eftir samt, að ástæða sje til þess, að endurskoða lögin öll frá rótum. Og mín till. fer nú fram á það, að stjórnin sjái um, að það verði gjört, helst af öllu fyrir næsta þing.

Jeg tel það góðan vott um væntanlegt fylgi háttv. deildar við þetta mál, að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem áður hefir oftast sett sig á móti öllum breytingum á vegalögunum, hefir nú verið hlyntur þeim breytingum, sem hjer hafa legið fyrir. Þetta er vottur um það, að annmarkarnir á lögunum eru að verða augljósari, einnig þeim háttv. þingmönnum, sem áður höfðu talið þau góð og gild.

Skifting laganna á vegunum í þjóðvegi og flutningabrautir er mjög af handahófi gjörð og ósamrýmanleg, þegar bornir eru saman einstakir kaflar. Þannig liggur það nær, að álíta allan veginn austur um Árnessýslu og Rangárvallasýslu þjóðveg en flutningabraut. Og sama er að segja um ýmsa aðra póstvegi og vegi, sem tengja sveit við sveit, og sveitirnar við höfuðstað landsins, eins og t. d. vegurinn frá Blönduósi um Húnavatnssýslu, og fleiri vegir.

Jeg skal kannast við það, að hjer verður oft erfitt að draga merkjalínur á milli, en eftir því sem vegunum fjölgar, þá verða þær þó auðdregnari en 1907, áður en gjörðar voru margar þær bætur og breytingar, sem nú eru orðnar. Tímarnir breytast, og það er ekki von, að lög, eins og þessi, geti átt sjer langan aldur. Því valda kröfur tímans og breyttir hagir og samgöngur. Þetta hefir háttv. deild líka viðurkent, með því að samþykkja frumvörpin um Dalaveginn og Stykkishólmsveginn.

Jeg hefði nú fyrir mitt leyti álitið það æskilegast, að láta alt breytingakák bíða, þangað til lögunum yrði breytt í heild sinni, en af því jeg hefi talið þessi frumvörp, sem hjer hafa legið fyrir, vera heldur til bóta en hitt, þá hefi jeg verið með þeim. En þótt þau verði samþykt, þá álít jeg engu síður þörf á gagngjörðri endurskoðun á vegalögunum, og því vona jeg, að till. mín á þgskj. 228 verði samþykt.

Eins og jeg hefi sagt, er grundvöllurinn undir þessari skiftingu á þjóðvegi og flutningabraut ekki traustur nje eðlilegur. Það verður að finna annan, og þá verður um leið að sjá um það, að einstökum hjeruðum sje ekki gjört rangt til með lagningu og viðhaldi vega. Viðhaldið er þegar orðið þungt í þeim hjeruðum, sem búin eru að fá vegi, svo að nokkru nemi, og það verður enn tilfinnanlegra með hverju ári. Nú leggja margar sýslur kapp á það, að leggja sýsluvegi í ákafa og fá til þess styrk úr landssjóði. Jeg tel það ekki eftir, en afleiðingin verður sú, að þessir nýju vegir krefjast enn meira viðhaldskostnaðar, og það kostar meira viðhald á akfærum vegum en að ryðja vegi og brúa keldur, eins og áður var siðurinn. Flutningabrautir eru nú að komast upp víða, smátt og smátt, og þegar viðhald þeirra kemur á sýslufjelögin, auk allra sýsluveganna, þá verður það tilfinnanlegur skattur, og hann er meira að segja þegar orðinn það sumstaðar.

Jeg skal ekki fara út í það, hvaða leið ætti að fara, til þess að fá komið á meiri jöfnuði og sanngirni í þessu efni. Sumir hafa álitið, að til mála gæti komið, að láta hjeruðin borga nokkurn hluta viðhaldsins á flutningabrautunum, t. d. 1/3 eða helming. Jeg segi ekkert um það, en hitt segi jeg, að að svo búið má ekki lengur standa; annars eru allar horfur á því, að fara kunni um fleiri vegi eins og veginn vestur um Mýrarnar, að þeim verði svo illa við haldið, að til vandræða horfi. Um þann veg var svo ástatt, að hjeraðsmenn orkuðu ekki að halda honum við, með fram af því að hann mun hafa verið illa gjörður í fyrstu, og svo getur víðar verið.

Þá verður að líta á það, að sýslurnar hafa engan tekjustofn, til þess að svara þessum gjöldum, nema verkfæramenn, og það væri mjög gott, ef hægt væri á einhvern hátt að bæta úr þessu. Þess vegna fer seinni liður tillögunnar fram á það, að stjórnin leitist við, að finna tekjustofna handa sýslufjelögunum, til þess að þau geti staðist kostnaðinn af vegaviðhaldinu, að svo miklu leyti sem hann kynni að verða á þau lagður.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta mál, en vænti hins besta um það, að tillagan verði samþykt.