27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (2531)

94. mál, vegalög

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg verð að biðja hv. þm. S.-Þ. (P. J.) velvirðingar á því, að jeg gleymdi að geta þess, að hann hafði ekki viljað kveða svo ríkt að orði, sem gjört er í nefndarálitinu, og hafði jeg þó ætlað mjer það, til þess að honum yrði ekki eignað það, sem hann átti ekki í nefndarálitinu. — En þar sem hann talaði um að málinu væri flaustrað af hjer á þingi, þá er það að vísu rjett, en það er til önnur leið, til þess að vinna vel að málunum en sú ein, að fækka þeim, og hún er sú, að sitja lengur yfir þeim. Tveggja mánaða tími annað hvort ár er alls ónógur tími til löggjafarstarfs fyrir heilt ríki, eins og allir geta sjeð, og það getur ekki liðið á löngu þangað til þing verður haldið á hverju ári. — Þessu vildi jeg að eins skjóta fram nú, af því að það bar á góma, þótt það komi ekki beint þessu máli við.