27.08.1915
Neðri deild: 44. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

94. mál, vegalög

Sigurður Sigurðsson:

Jeg ætla að eins að gjöra örstutta athugasemd. Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) hefir reyndar þegar tekið fram nokkuð af því, sem jeg þurfti að segja. Okkur kemur sem sje saman um það, gagnstætt skoðun háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), að landssjóði beri fyrst og fremst skylda til, að styrkja vegagjörðina í þjettbýlum hjeruðum, en síður á útkjálkum landsins.

Háttv. 1. þm. (G. H.) tók, máli sínu til styrkingar, til dæmis tvo vegakafla, sem sýna best og sanna hans skoðun á þessu máli, sem sje veginn yfir Öxnadalsheiði og veginn um Kræklingahlíð. Jeg er líka kunnugur þarna, og veit, að það er ólíkt meiri nauðsyn á veginum um Kræklingahlíð, því að yfir Öxnadalsheiði á sjer enginn verulegur þungaflutningur stað. En um Kræklingahlíðina liggur aðalaðdráttavegur þeirra, sem þar búa, og annara nálægra sveita, bæði Þelamerkur, Öxnadals og Hörgárdals.

Þessi háttv. þm. (G. H.) fer því mjög villur vegar, þegar hann dæmir um vegi, og skoðanir hans þar eru alveg gagnstæðar heilbrigða skynsemi. (Guðm. Hannesson: Misskilningur). Ánægja hv. þingmanns með sínar eigin skoðanir getur hreint og beint leitt til hættulegs sjúkdóms, sem því miður ber of mikið á hjá ýmsum lærðum mönnum hjer á þingi, og sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) er ekki heldur laus við.