30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

121. mál, þegnskylduvinna

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg get verið þakklátur háttv. framsm. (M. Ó.), með því að hann hefir tekið af mjer alt ómak með að svara ræðu hans, með því að lesa upp nefndarálit meiri hl. Er það sjaldgæft, að menn ljetti þannig á ímynduðum mótstöðumönnum sínum. Má því ekki minna vera, en að vjer þökkum háttv. þingmanni fyrir það, að vera svo vingjarnlegur að bera upp álit, sem felur í sjer fullkomna hrakning á öllu því, sem hann hefir fimbulfambað um málið bæði munnlega og skriflega. En í sambandi við álit meiri hl. skal jeg geta þess, að meinlegar prentvillur hafa slæðst þar inn. Í 2. málsgr. stendur »týnd« fyrir tínd í »talin og tínd«. í 3. lið »verklægni« fyrir verklagni. í 4. lið hefir orðið skattar fallið burt, svo að þar á að standa: »þyngri en allir núverandi skattar og tollar samtals«.

Háttv. minni hl. er óánægður yfir því, hvað nefndarálit meiri hl. er stutt. Meiri hl. taldi sjer ekki skylt að koma með lengri röksemdaleiðslu en svo, sem nægði til að hrekja ástæður minni hl., enda er það háttv. minni hl., sem sækir á. Jeg hygg, að álit vort sje nægilegt til þess að sýna, að kostir þeir, sem minni hl. telur upp, sjeu ímyndaðir eða ekki til, og ætti það að vera nægilegt til þess, að fella tillöguna, nema því að eins að fyndust einhverir kostir, sem háttv. minni hl. hefði gleymt, en svo óhæverskir erum vjer ekki, að gruna háttv. minni hl. um að hafa stungið nokkurum kosti undir stól, enda er mjer kunnugt um, hve djúpvitur háttv. frsm. minni hl. (M. Ó.) er, og að hann hefir athugað málið vel og með þeim hugsanaþrótti, sem honum er runninn í merg og bein og eitthvað er meira en nafnið tómt, eins og sjá má af þessum fjórum blaðsíðum, sem álit hans nær yfir. Það má vera, að ósvífið þyki, að hrekja þessa ritsmíð með svo stuttu máli, sem álit vort er, en þegar það nægir til að sýna það, að áhugi, hlýðni, háttprýði, atorka, fjelagslyndi, þrifnaður, stundvísi og áreiðanleiki í orðum og viðskiftum fæst ekki með tillögum minni hl., þá er kominn þessi hringur, sem kallaður er circulus vitiosus og á íslensku má nefnast hringavitleysa.

Það er ekki nýtt, að þjóta heyrist í þeim skjá, að Íslendingar sje óhlýðnari en aðrir menn. Jeg andmæli því og leyfi mjer að segja það ósatt, að þau andmæli sje sögð í smjaðurs skyni; þau eru sögð til þess, að hrinda staðlausum álygum. Einstakir menn, sem ekki hafa sjerstaklega fengist við uppeldi manna, hafa engan rjett til þess, að tala svo digurbarklega. Jeg held, að enginn hjer hafi haft yfir svo mörgu fólki að segja, að úr flokki geti talað um þetta, þótt háttv. framsm. (M. Ó.), sem þó í rauninni er að eins framsm. sjálfs sín, með því að formaður hefir ekki samþykt röksemdaleiðslu hans, leyfi sjer að koma með staðhæfingar í þessa átt. En þótt hann segi, að jeg sje að eins nafnið tómt, þá hefi jeg samt fengist hóti meira við kenslumál en hann, og það er víst, að aðferðir eru í aðalatriðunum þær sömu, hvað sem kent er.

Ekki tel jeg það heppilegt, til þess að venja menn á stundvísi og háttprýði, að reka menn í moldarvinnu eða þess háttar; miklu mundi nær, að koma mönnum fyrir á góðum heimilum hjá góðum húsbændum eða í skiprúm, en einmitt sjómennirnir eru gott dæmi, til þess að hrekja þessar kenningar háttv. minni hl. Óhlýðnin er hugarburður þeirra manna, sem aldrei hafa þekt aga; jeg veit ekki, hvort þeir hugsa sjer þetta hugtak vera einhverja skepnu með horn og klaufir, en því er líkust kenning þeirra. Þá er það og líka ofætlun verkstjórunum að kenna öllum þessum fjölda, og mundu þeir að eins hljóta spott og spje nemendanna, enda hægt að koma kenslunni betur fyrir á allan hátt annan.

Þessa ágætu afburðamenn mundi algjörlega vanta, enda líklegt, að Alþingi mundi horfa í allan þann uppeldiskostnað, sem færi til þess, að kenna verkstjórunum. En þessu hefir háttv. minni hl. ekki gjört sjer grein fyrir.

Það þarf varla að minna á það, að þessi draumur háttv. minni hl. um háttprýði í moldarvinnu er hið mesta öfugmæli. Hjer á við vísustúfurinn:

Gott er að hafa gler í skó

þá gengið er í kletta.

Þá kem jeg loks að þeim lið, sem hv. framsögum. (M. Ó.) sýndist sjálfum, að hann hefði brotið svo gjörsamlega, nefnilega, að kaupmissir og vinnumissir mundi verða eins þungur skattur á landsmönnum og allir aðrir til samans. Hann, sem er svo kunnugur landsháttum, hefir þó líklega ekki munað eftir því, að fjöldi ungra manna er sjálfra sinna, svo að kaupmissir þeirra allra til samans nemur ekki lítilli upphæð. Það var þetta, sem jeg átti við. Til þess að hrekja þetta, sagði háttv. framsögum. (M. Ó.), að þarna eigi ekki að að vinna nema 4000 manns í 12 vikur, og finst hlægilegt, að gjöra mikið úr þeim kostnaði, er það muni hafa í för með sjer. Nú er það fyrst, að þessi tala mun vera röng. Eftir manntali 1910, þá mundi talan vera nær 6000. En nú skal jeg gjöra það fyrir háttv. framsögum., að reikna með 4000 að eins, en jeg bið menn jafnframt að muna eftir því, að jeg slæ af 2000. Nú, ef vikukaupið er reiknað 20 kr. (sem kann ske er nú full hátt, en jafnast upp af misskilningnum á fjöldanum), þá kosti þó þessir 4000 menn 960,000 kr. í 12 vikur. Þetta er þó alllagleg upphæð. En nú bætist þar að auki við það tjón, sem hlýtst af því, að taka í burtu fyrirvinnu frá fátækri móður, og það er tjón, sem ekki verður reiknað í fljótu bragði, ef ársatvinna heimilisins fer í kalda kol, því fátæk ekkja á sjaldnast hægt með að fá sjer kaupamann, í stað sonar síns, er vinnur kauplaust fyrir heimilinu. Það tjón, sem af þessu hlytist, myndi áreiðanlegu ekki nema minni upphæð en nefndi jeg áðan, ef metið skyldi til peninga. Nú stendur í tillögunni, að allir heilbrigðir karlmenn skuli taka þátt í þessari vinnu. En því á að binda sig við heilbrigða karlmenn, nú er konur hafa fengið jafnrjetti. Það væri eiginlega rjett, að koma fram með brtt. er gengi í þá átt. Konur þurfa þó sannarlega ekki síður á því að halda, að kunna þrifnað, dugnað og alla háttprýði, því þær ala þó upp borgarana í landinu. Reiknaði maður nú jafn margt kvenfólk skyldugt til þessarar vinnu, og reiknaði því að eins hálft kaup á við karlmenn, þá næmi þó öll upphæðin 1,400,000 kr., eða sem næst 1½ miljón kr. á ári. Þá fyrst færi þetta nú að draga sig saman. Auðvitað væri þetta ekki svo hátt, nema fyrsta árið, er þessu góðgæti væri dembt yfir landslýðinn, og allir árgangarnir væru teknir í einu. Seinna yrði árskostnaðurinn náttúrlega minni, en þá mætti líka reikna með kaupmissi og fyrirvinnutjóninu. Nú bætist þar við, að sá skaði, sem hlýtst af því, að viðvaningar eru teknir og settir í vinnu, sem þeir ekki kunna til, í stað þess, að láta þá sitja kyrra að sinni iðju. Það er líka spilling á vinnukröftunum í landinu. Þessi reikningur er náttúrlega ekki alveg nákvæmur, en þó mun óhætt að fullyrða, að hið árlega kauptap, sem af þessu hlytist, væru 800,000 kr., eða ½ miljón, ef kvenfólkið væri reiknað með, og það þegar fyrsta náðarárið væri úti.

Háttv. framsögum. (M. Ó.) vitnaði sjer til stuðnings í biskup landsins, einn háskólakennara hjer heima og svo einhvern þýskan mann suður í Sviss, Jeg sje nú satt að segja ekki, hve hagkvæmar framkvæmdir munu verða hjer á Íslandi, þótt röksemdafærsla sje sótt suður í Zürich. Einnig er jeg ekki alveg sannfærður um, að þessi háskólakennari okkar muni nú vilja standa við alt það, er hann hefir um þetta mál sagt áður. Annars þykir mjer tillagan of óljóst orðuð. Það er ekkert tekið fram um það, hvernig þegnskylduvinnunni skuli hagað, nje heldur hve lengi hún skuli standa yfir. Það mætti þess vegna láta hana ná yfir heilt ár og þá fengi þó landssjóði einu sinni að blæða. Jeg held því, að mönnum út um land þyki þetta nokkuð óljóst, er til kosninga kemur, og muni að eins ypta öxlum og brosa, og ekki gjöra sjer mikið ómak við það, að svara þessum spurningum út í loftið. Annars er þessi þegnskylduvinna að eins laus hugmyndadraumur einstakra manna, er halda, að þeir fái nauðgað náttúrulögmálunum svo, að þau verki alt öðru vísi á þeim tímum, er þeir sjálfir lifa á. Jeg vona þess vegna, að háttv. þingdeild fari ekki að taka neinu ástfóstri við þessa vanhugsuðu hugmyndasmið, sem eiginlega ekki er þess verð, að nokkur maður minnist á hana, og skal jeg í því sambandi geta þess, að nú hefi jeg í fyrsta sinni á Alþingi talað að óþörfu.