30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

121. mál, þegnskylduvinna

Guðmundur Hannesson:

Hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) hefir nú þegar í ræðu sinni tekið af mjer mesta ómakið. Báðir háttv. framsögum. (M. Ó. og B. J.) hafa reiknað skakt mannfjölda þann, er myndi ganga að þessari vinnu. Annar reiknar sem sje 6000 manns, en hinn 4000. Ef nú að eins karlmenn eru taldir, þá verða það hjer um bil 700 manns á ári hverju, eins og háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) tók fram í ræðu sinni, sem myndu falla inn undir lögin. 1910 voru í þeim árgangi 684 menn. Þetta er nú ekki svo ýkjahá tala, og jafnvel þótt maður reiknaði manninum 20 kr. í kaup á viku, sem er þó líklega nokkuð vel í lagt, þá yrði það þó aldrei meira en um 150,000 kr. yfir þennan tíma. Þeir, sem tækju þátt í þessari vinnu, yrðu því ekki fleiri en svo, að t. d. öll Húnavatnssýsla legði ekki til nema tæpa 20 menn. Og vinnan, sem þeir leystu af hendi þennan tíma, samsvaraði því, að þeir gætu steypt 3–4 íbúðarhús, ef þeir störfuðu að húsagjörð.

Hvað sem því nú líður, þá skal jeg leyfa mjer að vekja athygli á því, að reikningar háttv. þm. Dal. (B. J.) eru ekki rjettir, enda er þess tæplega von, þar sem hann hefir víst gleymt þessum frægu logaritmatöflum, er hann talar um á hverju ári, heima hjá sjer.

Jeg get ekki gjört að því, að jeg er að nokkru leyti hlyntur þessu máli. Það talar til tilfinninga minna, og jeg vona, að framkvæmdir í því geti einhvern tíma átt sjer stað, en jeg sje, að þær eru þó töluverðum erfiðleikum bundnar.

Það er ilt t. d. að taka menn frá nauðsynlegri framleiðsluvinnu og setja þá í aðra vinnu um svo og svo langan tíma, sem, þótt hún má ske sje gagnleg og nauðsynleg í sjálfri sjer, getur þó ekki talist framleiðsluvinna.

Þó er það tjón ef til vill ekki tilfinnanlegt, því óumflýjanlegt er að vinna ýms verk, jafnvel að sumrinu, sem ekki eru bein framleiðslustörf, t. d. húsagjörð. Það er hægt að benda á það meðal annars, að eftir er að byggja upp þúsundum saman sveitabæina, og þetta verður að vinnast að meira eða minna leyti að sumrinu.

Jeg er sammála meiri hlutanum um það, að verklagni er yfirleitt ekki síðri vor á meðal, heldur en erlendis. Það er verið með samanburð við þjóðir, sem leysa af hendi hervarnarskyldu. Af því að mjer liggur mjög á hjarta hagur alþýðunnar og vinnubrögð, hefi jeg hvar sem jeg hefi farið, veitt þessu eftirtekt, og jeg hefi komist að þeirri niðurstöðu, að vjer stöndum alls ekki erlendu herskylduþjóðunum að baki, hvorki í verklagni, hlýðni eða öðru, sem sífelt er verið að tala um, að oss sje svo áfátt í.

Jeg vil ekki að svo stöddu fara lengra út í þetta mál, til að tefja ekki tíma deildarinnar. En jeg sje ekki betur en það sje rjett, að leyfa þjóðinni að láta í ljós álit sitt um málið. Það væri hugsanlegt, að það endaði þannig, að samin yrðu heimildarlög, sem leyfðu hverri einstakri sýslu að koma á fót hjá sjer þegnskylduvinnu, með einhverjum stuðningi frá landssjóði. Reynslan yrði svo að skera úr síðar, hvort tiltækilegt væri, að koma henni á um land alt.