30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

121. mál, þegnskylduvinna

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Það er að eins út af þessu með reikninginn, sem jeg vildi segja nokkur orð. Jeg gæti svarað skætingi, en jeg ætla nú að gjöra það, sem menn eru ekki vanir að gjöra, og játa hreinskilnislega, að jeg hefi reiknað rangt af misskilningi. (Matthías Ólafsson: Það er alt misskilningur hjá háttv. þingm.). Jeg er að skýra háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) frá þessu, en ekki að tala við þann ágæta. Þetta verður þó um hálf miljón, ekki alt kaupgjald að vísu, heldur ýmislegur annar kostnaður.

Eins og menn þekkja, er það algengt erlendis, að herskyldan eyðileggur fyrir mönnum verslun og önnur fyrirtæki, sem menn hafa byrjað á. Þótt háttv. framsm. einmenningshlutans (M. Ó.) viti það ekki, að fjölskyldur hafa oft og tíðum farið á vonarvöl vegna herskyldunnar, þá er það engu síður áreiðanlegt fyrir því.

Jeg skal segja háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) það, að slíkan reikning, sem þenna, reikna menn ekki með logaritmareikningi, svo að það var óþarfi fyrir hann að blanda því inn í ræðu sína áðan.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) mintist á það, að hann legði aðaláhersluna á þetta, að menn fengju að vinna föðurlandi sínu, án þess að fá nokkuð fyrir starfa sinn.

Ó, hve margur yrði sæll

og elska myndi landið heitt,

mætti’ hann vera mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt.

Þessa alkunnu vísu hafa þeir minni hluta menn tekið upp í nefndarálit sitt. Það kann vel að vera, að það sje rjett, að einhverjir geti fundið sælu í þessu. En jeg álít hitt þó sanni nær, sem hv. þm. Mýr. (J. E.) sagði, að það er ekki það, að vera neyddur til vinnunnar, sem eflir föðurlandsástina, heldur hitt, ef menn leggja eitthvað á sig fyrir föðurlandið af fúsum og frjálsum vilja. Það er fallegt og lofsvert, sem ungmennafjelögin hafa tekið sjer fyrir hendur, að rækta skóg af eigin hvöt. Það, sem maður gjörir fús og viljugur, það gjörir maður vel, en ef maður er skyldaður með lögum til að inna eitthvert starf af hendi, þá býð jeg ekki fje við því. Jeg skil ekki í því, að menn skuli vera að sækjast eftir þessu, sem með erlendum þjóðum er álitið malum necessarium. Bak við herþjónustuskylduna liggur meðvitundin um, að þetta er undirbúningur til að falla í valinn fyrir föðurlandið. Töfrarnir til agans liggja í þessu. Annars er það stytst af að segja, að ein dæmisaga getur skýrt gang þessa máls.

Einu sinni bjuggu froskar í tjörn nokkurri. Þeim þótti óstjórn og agaleysi keyra svo úr hófi í tjörninni, að þeir báðu Júppíter að senda sjer stjórnara. Og Júppíter sendi þeim drumb í tjörnina. Nú þótti froskunum vænkast þeirra ráð, er þeir höfðu fengið drotnara, og settust þeir á drumbinn og undu nú vel hag sínum um hríð. En brátt rak að því, að þeir fundu til þess, að þetta var fremur atkvæðalítill stjórnari. Urðu þeir nú enn óánægðari út af óstjórninni, og báðu þeir Júppiter enn á ný að senda sjer stjórnara, sem meira kvæði að en þessum. Þá sendi Júppiter þeim vatns-hydru, og þá fengu þeir nóg af stjórninni, því að hydran gleypti alla froskana og át þá. Þetta minnir mig aftur á gamalt, latn. vísubrot, sem svo hljóðar:

Optat ephippia bos

piger, gestit arare caballus.