30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

121. mál, þegnskylduvinna

Framsm. minni hl. (Matthías Ólafsson):

Þá hafa nú flestir þeir, er væntanlega ætla að leggjast móti þessari tillögu, látið sitt ljós skína hjer í deildinni, en fremur bar það ljós daufa birtu. Að minsta kosti hafa ræður háttv. andstæðinga lítið upplýst málið. En þær hafa upplýst annað, sem jeg veit þó ekki hvort þeim herrum hefir verið ljóst, en það er, hvernig ákveðinn þingflokkur tekur í málefni, sem líklegt væri til að hefja þjóðina á hærra þroskastig, og hve mikið þeir vilja á sig leggja, til að manna þjóðina. Jeg er, fyrir mitt leyti, ánægður með, að þjóðin fái að sjá, hverjar mótbárur þessir garpar hafa fært fram gegn tillögunni, og hve veigamiklar þær eru.

Jeg legg svo málið í dóm háttv. deildar og er þess fullviss, að ræður háttv. andstæðinga muni reynast málinu bestu meðmælin.