01.09.1915
Neðri deild: 48. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

121. mál, þegnskylduvinna

Framsögum. minni hl. (Matth. Ólafsson):

Þegar mál þetta var síðast til umræðu hjer í deildinni, munu hafa komið fram allar þær mótbárur, sem hægt var til að tína gegn því.

Það er því vert að athuga, hverjar þær mótbárur voru og við hve mikil rök þær hafa að styðjast. Andstæðingar málsins hjeldu því fram:

að málið væri draumórar, sem aldrei gætu rætst,

að ómögulegt myndi reynast að fá nýta verkstjóra,

að kostnaður landssjóðs yrði afarmikill,

að þjóðinni væri ekki eins ábótavant og haldið væri fram af flutningsmönnum,

að þetta fyrirkomulag legði afarþungan skatt á þjóðina í vinnutjóni þeirra manna, er að þegnskyldunni ynnu,

að óvanir menn framleiddu minna verk, og því yrði vinnan landssjóði jafnvel dýrari en launuð vinna.

Jeg vil nú í fám orðum athuga þessi andmæli, mjer liggur við að segja öfugmæli, eins og einn háttv. þm. komst að orði um kosti þá, er jeg hafði talið þegnskylduvinnunni til gildis.

Það er nú algild rökfræðisetning, að af því, að einn hlutur sje til, geti menn ályktað að hann geti verið, og það er jafnvel til önnur rökfræðisetning, sem einnig er rjett, að af því, að eitthvað er ekki til, geti menn ekki ályktað að það geti ekki verið til.

En nú vill svo vel til með þetta mál, að það má heimfæra undir fyrri setninguna.

Þegnskylduvinna hefir sem sje verið til í flestum löndum um allangan tíma. Það kemur ekki málinu við, að víðast er hún samfara hernaði og nefndist þá hervarnarskylda. Það hefir oft verið tekið fram, að á slíkri hervarnarskyldu höfum vjer Íslendingar ekki þörf. En vjer höfum þess meiri þörf til annara starfa, til að bæta þetta vanrækta land, sem vjer búum i. Alt tal um draumóra er því út í loftið, ekkert annað en vandræðatiltæki andstæðinganna, til að leiða athyglina frá málefninu.

Að ómögulegt myndi reynast að fá nýta verkstjóra er engu minni fjarstæða. Hví skyldum vjer Íslendingar vera það síðri öllum öðrum þjóðum, að meðal vor fyndust eigi efni í sæmilega verkstjóra? Nú er það alkunna, að á friðartímum eru hermenn notaðir til að vinna lík verk og ætlast er til að þegnskyldulýður vor vinni, og þá eru liðsforingjarnir sjálfsagðir verkstjórar, þótt verkfræðingar, að sjálfsögðu, leggi ráðin á. Jeg get ekki gjört svo lítið úr oss Íslendingum, að vjer getum ekki lært það, sem annara þjóða menn geta lært.

Það er fjarstæða að halda, að liðsforingjar annara þjóða sjeu allir afburðamenn. Þeir eru að sjálfsögðu eins og fólk er flest, en hafa þá þekkingu, sem útheimtist til að taka liðsstjórn að sjer. Sama mundi verða hjá oss.

Þá er sú mótbára, að kostnaður landssjóðs myndi verða mjög mikill. — Því skal ekki neitað, að það myndi kosta nokkurt fje, að fá vel lærða og nýta verkstjóra. En ef vjer hugsum nokkru sinni til að vinna þau stórvirki, sem vjer eigum óunnin, og sem vjer þurfum að vinna í nánustu framtíð, svo sem hafnagjörðir, brýr, vegi og áveitur, þá þurfum vjer að leggja mikið fje fram og afla oss nýtra verkstjóra, svo að þau verk fari ekki aflaga. — Sú mótbára er því einnig fánýt, þótt hún kunni að láta vel í eyrum alþýðu.

Þá er ágreiningurinn um, hve ábótavant oss sje í stundvísi, aga og hlýðni.

Það er á hvers manns vitorði, sem satt vill segja, að í þessum efnum er oss sjerlega ábótavant, og andstæðingar þessa máls fá engan bugsandi og heilskygnan mann til þess að votta það, að í þeim efnum sje alt hjer eins og á að vera. Þjóðin er sjerlega óstundvís og hikandi, og það tjáir ekki að leyna sjálfan sig þessu.

Svo er nú þessi mikli skattur, sem þegnskylduvinnan á að leggja á þjóðina í vinnutjóni. Þetta lætur vel í eyrum lítt hugsandi manna, en væri það ekki vel gjört, ef unt væri að hjálpa mönnum til að losa sig við það tjón, sem þeir bíða af slæpingnum? Hvern skatt leggur deyfð vor og óstundvísi á oss? Jeg er viss um að það má meta hann alt eins hátt og háttv. þm. Dal. (B. J.) mat atvinnutjónið við þegnskylduvinnuna. Og menn eyða árum saman til þess að búa sig undir lífsstöðu sína, jafnvel þótt fátækir sjeu, t. d. búfræðingar, sem oft vinna tvö sumur til þess, að fá sjer verklega æfingu, og er ekki fárast um það, þótt oft sje ekki hægt að benda á greinilegan árangur af því, því að oft vill svo til, að slíkir menn lenda í alt annarri vinnu og óskyldri. Nei, það yrði ekki tilfinnanlegt fyrir nokkurt heimili, þótt synir þess eyddu í þessu skyni 12 vikum, jafnvel af besta tímanum. Það væri ekki nema einu sinni á æfi þeirra, og þeir kæmu heim aftur færari en þeir fóru.

Loks er sú mótbáran, að þessir ungu og óvönu menn eigi að verða svo dýr vinnukraftur fyrir landssjóð. Það er einmitt best, að mennirnir sjeu ungir. Það er hægra að kenna þeim að vinna vel, sem ekki hafa þegar vanist áröng handtök. Þeir taka betur tilsögn, eða er ekki til gamalt máltæki um það, að örðugt sje að kenna gömlum hundi að sitja rjett?

Það er aldrei annað en fagurt að gjöra urðina að gróðrarbletti, og það er ekki hægt að koma því betur í framkvæmd á nokkurn annan hátt en þann, að koma á þegnskylduvinnu hjer á landi, og því verr, því lengur sem það dregst.

Það gæti orðið til ómetanlegs gagns fyrir alla upprennandi unga menn á landinu, ef þeir gætu átt kost á því, að koma saman og kynnast. Ef þegnskylduvinna væri komin á, þá ættu menn úr ýmsum hjeruðum kost á þessu. Þeir lærðu að þekkja hverir aðra, lærðu að þekkja mismunandi skoðanir á ýmsum málum, lærðu að þekkja hugsjónir annara; í þessu öllu saman yrði þeim mikill fengur. Þeir mundu eignast góða vini, sameiginlegar hugsjónir og sameiginlegar vonir, og ættu miklu fremur tök á að láta þær rætast eftir en áður. Þá yrði þjóðlífið okkar ekki eins ömurlegt og það er nú, og landið ekki heldur.

Jeg hefi tekið það fram, að ef tíminn, sem þegnskylduvinnan ætti að standa, þætti ekki nógu langur, þá væri jeg ekki á móti því, að lengja hann. Undir öllum kringumstæðum vil jeg koma því þannig fyrir, að þetta komi að sem bestum notum. Þetta á ekki að vera húmbug; það á að koma að gagni landi og lýð. Það mætti heita nokkuð undarlegt, ef við lútum ekki sömu lögum í þessu efni og allar aðrar þjóðir.

Jeg vona, að háttv. deildarmenn verði mjer sammála um það, að rjett sje að skjóta þessu undir atkvæði allrar þjóðarinnar. Jeg býst reyndar við því, að þótt atkvæði yrðu greidd um málið, þá yrðu margir menn á móti því, og gæti jafnvel komið fyrir, að meiri hlutinn yrði það, en eitt er víst, að þá yrði málið rætt, og það er ekki nema holt hverju góðu máli.