01.09.1915
Neðri deild: 48. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

121. mál, þegnskylduvinna

Framsögum. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal lofa því, að vera ekki langorður um þetta mál.

Háttv. framsm. minni hlutans (M. Ó.) segir, að við sjeum öllum öðrum þjóðum framar að óstundvísi og skorti á hlýðni. Þessi ósannindi er bráðnauðsynlegt að leiðrjetta. Jeg hefi farið um önnur lönd, og þekki þetta áreiðanlega miklu betur en háttv. þingmaður, og jeg hefi ekki orðið þessa var. Og þótt þetta væri nú eins og háttv. þingmaður segir, þá yrði það að engu gagni, að lögleiða þegnskylduvinnu hjer á landi. Það yrði sannarlega illur skóli, að hrúga saman fjölda ungra manna úr öllum stjettum og stöðum, til þess að kenna þeim hlýðni og stundvísi. Sömuleiðis vill háttv. þingmaður kenna þeim háttprýði og þrifnað. Við skulum nú hugsa okkur, að nokkur hundruð ungir menn og konur væru saman komin, til þess að vinna að vegavinnu, eða einhverju þess háttar. Þessi lýður yrði auðvitað að liggja í tjöldum. Hvað ætli yrði þá úr háttprýðinni og þrifnaðinum. Það eru auðvitað falleg orð, þetta, sem hv. framsögum. minni hlutans (M. Ó.) lætur alt af klingja hjer í deildinni, að það eigi að klæða landið, en jeg get fullvissað háttv. þingmann um það, að þetta er ekki aðferðin. Hjer eru menn rifnir út úr atvinnu sinni, frá þeim verkum, sem þeir kunna, og settir til að vinna þau verk, sem þeir hafa engan áhuga á og ekkert vit á.

Hv. þm. (M. Ó.) leggur mikla áherslu á það, að menn kynnist í þessari þegnskylduvinnu, og hve mikið gagn geti leitt af þessum kunningskap manna á meðal. Jeg skal ekki gjöra lítið úr gagninu, en jeg skal benda honum á, að menn hafa víðar tækifæri á að kynnast en í vegavinnu og því um líku. Jeg er ekki eins viss um neitt eins og það, að þessi þegnskylduvinna hefir ekki áhrif til menningar. Það er ómögulegt, að láta fara fram andlega kenslu samhliða moldarmokstri og því um líku.

Þegar menn eru að bera þessa þegnskylduvinnu saman við herskyldu í öðrum löndum, þá minnir það mig á ályktun í rökfræðinni, sem kölluð er á dönsku »Positiv Slutning í anden Figur«. Það hefir aldrei þótt góð regla, að fara eftir henni. Til þess að menn skilji, við hvað jeg á, þá skal jeg setja hjer dæmi upp á þess konar ályktun. Ef sagt er t. d. snjórinn er hvítur — sykrið er hvítt, þess vegna er snjórinn sykur, þá er það alveg sams konar, eins og þegar verið er að bera saman herskyldu og þegnskylduvinnu. Við vopnaæfingarnar hafa menn það sífelt í huga, að það geti komið fyrir á hverri stundu, að þeir verði að fórna lífi sínu fyrir föðurlandið. Úr þegnskylduvinnunni getur aldrei orðið annað en moldarmokstur eða eitthvað þess háttar. Er það ekki talsvert ólíkur grundvöllur?

Jeg er viss um, að það eru engar líkur til, að vonir háttv. þingmanns rætist, um að þetta mál verði til blessunar fyrir land og lýð.

Mjer hefir verið legið á hálsi fyrir það, að jeg hafi sagt, að minni hlutinn ætlaði að sá löstum. Jeg get ekki gjört annað betra en að vísa til nefndarálits hans á þgskj. 517.

Þar segir svo:

»Hugsunarháttur allrar þjóðarinnar yrði innan fárra áratuga breyttur til hins betra. Tortrygnin, öfundin, einræningsskapurinn, fjelagslyndisleysið, áhugaleysið, óstundvísin, og með henni ýms óreiða í orðum og gjörðum, mundi væntanlega með öllu hverfa. Agaleysið færi í sömu gröfina, og á moldum þessara bresta og lasta mundu vaxa áhugi, hlýðni, háttprýði, atorka, fjelagslyndi, þrifnaður, stundvísi og áreiðanleiki í orðum og viðskiftum«.

Er þetta nú ekki alveg sama og jeg hefi sagt, að minni hlutinn vilji sá löstum og uppskera dygðir?