18.08.1915
Neðri deild: 36. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (2566)

111. mál, yfirskoðunarmenn landsreikninganna

Framsm. (Magnús Kristjánsson):

Hæstv. ráðherra hefir nú svarað ræðu minni, og er jeg að sumu leyti ánægður með svar hans, en að sumu leyti ekki.

Það er vel farið, að breyting er orðin á um útistandandi vexti af veðlánum, svo að búast má við, að það verði í góðu lagi framvegis. Um það hefi jeg ekki meira að segja — tek orð hæstv. ráðherra trúanleg.

Sömuleiðis er ánægjulegt að heyra um Iðunni, að hið nýja fjelag hefir tekið að sjer skuldina til landssjóðs, svo að þar er engin hætta á ferðum. Samt sem áður tel jeg fullar ástæður hafa verið fyrir hendi hjá endurskoðendum, að gjöra athugasemdir viðvíkjandi þessu, því að af svörum stjórnarinnar varð það ekki sjeð, hvernig málinu var varið.

Jeg held, að hæstv. ráðherra hafi ekki tekið eftir orðum mínum viðvíkjandi skrifstofukostnaði stjórnarráðsins. Jeg var ekki svo mjög að fárast yfir því, hve mikill hann væri, en jeg álít það heppilegra, að stjórnin gjörði grein fyrir því fyrir fram, hve mikið hún þyrfti að nota, svo að hægt væri að komast hjá aukafjárveitingu. Jafnframt tók jeg það fram, að rjett væri, að þingið veitti fje í fjárlögunum, þegar það vísaði málum til stjórnarinnar, til þess að greiða kostnaðinn, sem það hefði í för með sjer.

Þá hefir hæstv. ráðherra látið þá skoðun í ljós um 4. athugasemdina, að hún væri rjettmæt, svo að jeg þarf ekki að minnast á hana.

Um bændaskólana get jeg ekki talað af eigin þekkingu — vantar kunnugleikann —, en í nefndinni sat maður, sem er víst manna best kunnugur högum þeirra og hann fullyrti, að hægt væri að hafa nánara eftirlit með þeim en nú ætti sjer stað. Býst jeg við, að hann hafi þar átt við hið sama og háttv. 1. þingm. Árn. (S. S.) var að tala um. Það vantar alla greinargjörð fyrir því, hvernig jarða- og búsafgjaldið er innt af hendi, og þótt það sje greitt með umbótum á jörðinni, þá er það ekki rjett, að byggja á frásögnum hlutaðeiganda einna, þótt mjer detti ekki annað í hug en að þeir sjeu hinir samviskusömustu menn. Jeg býst við, að á jörðum sjeu tvenns konar hús, bæði í þarfir skólans og búsins. Kostnaðinum við þau verður að halda vel aðgreindum. Jeg held, að full ástæða sje til þess, að athuga það nánar, hvort farið er eftir fyrirmælum laganna um bændaskóla, að því er þetta atriði snertir. Jeg vil ekki deila mikið við stjórnina um eftirlitið, en jeg býst samt við því, að þótt hún eigi að hafa yfireftirlit með skólunum, þá útiloki það ekki, að samin sje reglugjörð fyrir þá með fyrirmælum í svipaða átt og nefndin hefir stungið upp á. Jeg gjöri þetta ekki að neinu kappsmáli, því að jeg finn, að mig brestur kunnugleika.

Viðvíkjandi dagpeningum embættismanna skal jeg geta þess, að eins og hjer stendur á, þá virðist svo, sem þeir sjeu fullsæmdir af því fje, sem nefndin hefir stungið upp á. Jeg verð að álíta 5 kr. á dag fullnóga fæðispeninga, þegar þess er gætt, að þeir halda óskertum launum sínum, og fá auk þess allan annan ferðakostnað borgaðan. Og ef maður vill vera smásmuglegur, þá má gjöra ráð fyrir því, að matur mundi kosta þá eitthvað heima fyrir, ef þeir sætu heima þann tíma, sem fer í ferðalagið.

Sjöundu athugasemdina hefir hæstv. ráðherra fallist á.

Um niðursuðuverksmiðjuna á Ísafirði skal jeg ekki orðlengja. Athugasemdin er fram komin vegna þess, að stjórnin hafði í svörum sínum snúið sjer til þingsins um álit þess. En jeg hygg, að það eigi allerfitt með það, og verði að treysta stjórninni. Jeg hefi svo ekki fleira um að tala. Það er ekki mikið, sem milli ber.

Það hefir sýnt sig, að flestar athugasemdirnar hafa verið rjettmætar, eftir því sem reikningar lágu fyrir. Skal jeg svo ekki lengja tímann með lengri ræðu.