31.08.1915
Efri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

100. mál, seðlaauki Íslandsbanka

Framsögum. (Stgr. Jónsson) :

Frumv. þetta er komið frá hv. Nd. Hafði konungur gefið út bráðabirgðalög um þetta efni 30. nóv. f. á., og lagði stjórnin þau fyrir Nd. Þrátt fyrir skiftar skoðanir og mikinn ágreining, var frv. samþ. í hv. Nd. og er því hingað komið. Eins og kunnugt er, fer það fram á að heimila Íslandsráðherra að leyfa Íslandsbanka að auka seðlafúlgu sína um 1 miljón kr., úr 2½ milj. upp í 3½ milj.

Eins og sjá má af nefndarálitinu á þgskj. 636, var nefndin ekki sammála um þetta mál, í heild sinni. Þó var hún sammála um eitt atriði, sem sje, að full ástæða og jafnvel brýn þörf sje á því, að seðlaútgáfurjetturinn verði aukinn. Ástæðurnar, sem hún færir fyrir þessu, er dýrtíðin sem leiðir af ófriðnum, og það, hve peningar hafa fallið mikið í verði. Nú er það öllum ljóst, að sá maður, sem áður komst af með 1 krónu, þarf nú 1½. Sjálfsögð afleiðing af því, er að fleiri seðla þarf að hafa í umferð en áður. Nú var það upplýst, að í fyrra voru ekki nægir seðlar til þegar ófriðurinn byrjaði; þá þurfti að minsta kosti ½ milj. af útlendum seðlum. Síðan í fyrra hafa peningar enn lækkað í verði, krónan er orðin enn ljettari í vasa en hún var þá. Þess vegna urðu nefndarmennirnir sammála um það, að samþ. frv. óbreytt. Við teljum þetta nægilegan seðlaforða, enda þótt sumir sjeu í efa um, hvort 3½ miljón reynist nóg. Meiri hlutinn taldi ekki hægt að komast af með minna, en minni hlutinn hjelt, að ½ milj. væri jafnvel nóg, en vildi þó ekki koma fram með breytingartillögu.

Nefndin vill láta þess getið, að 3. liður í 1. gr. á í raun og veru ekki heima í frv., en viljum þó ekki koma fram með breytingartillögu. Hann ræðir um viðskifti Íslandsbanka og Landsbankans, en slíkt er einungis samningsatriði milli bankastjórnanna, og hefir nefndin heyrt, að um það hafi verið samið ; gjörir því ekkert til, þó það standi í frumvarpinu.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að fjölyrða meira um þetta mál, en legg það á vald hv. deildar.

Að eins vil jeg geta þess, að nefndinni þykir full þörf á, að frumvarpið verði samþykt, og líka að það verði gjört sem fyrst.

Bankastjórnin hefir skýrt okkur frá því, að nú yrði að gefa út nýja seðla, ef ekki ætti að fá hingað útlenda seðla. Að vísu er hjer mikið af útlendum seðlum nú, en það verður ekki nóg, þegar farið verður að kaupa innlendu vöruna í haust.