15.07.1915
Neðri deild: 7. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

5. mál, dýrtíðarráðstafanir o. fl.

Flutningsm. (Sveinn Björnsson):

Eins og kunnugt er, hófst heimstyrjöldin mikla í fyrra meðan þingið var hjer saman komið. Var það þá þegar ljóst, að bráðnauðsynlegt var að þingið gjörði ýmsar ráðstafanir hennar vegna, og það var líka gjört með nokkrum lögum, og þá einkanlega með lögum frá 1. ágúst 1914. Þá var sett nefnd til aðstoðar landsstjórninni og henni þá um leið gefnar ýmsar heimildir, sem þurfa þótti, þar á meðal til þess, að verja handbæru fje landssjóðs til vörukaupa, til að stöðva lán úr landssjóði, banna útflutning á vörum, ef þurfa þætti, og eins að taka vörur eignarnámi hjá framleiðendum, eða öðrum.

Síðasta grein þessara laga var á þá leið, að þau skyldu þegar öðlast gildi og gilda þangað til næsta þing kæmi saman. Samkvæmt þessu er þá svo komið nú, að síðan 7. þ. m. hefir stjórnina brostið þessar heimildir, ef hún þyrfti þeirra með. Þeirra hefir nú að vísu aldrei þurft allra, en sumra þó, og enginn er kominn til að segja, að þeirra geti ekki þurft. Þau voru samin, þessi lög, í byrjun, þegar kvíðinn fyrir ófriðarvoðanum hafði gripið menn, þótt mönnum væri þá ekki full ljóst, hvað fram undan var. Nú hefir ófriðurinn bráðum staðið yfir í heilt ár, og ætti þá að vera hægra að segja um, hvað nauðsynlegast er að gjöra, til þess að fyrirbyggja yfirvofandi hættur. Það er að vísu erfitt, að segja nokkuð fyrir með nákvæmni á þessum tímum, en jeg er sannfærður um það, að hvað sem því líður, þá má þingið ekki sitja auðum höndum, horfa upp á það, að þessi lög frá því í fyrra falli úr gildi, en bæta engu við í þeirra stað. Jeg gjöri líka ráð fyrir því, að það sje vilji þjóðarinnar, að þingið taki þetta mál til meðferðar nú, og því hefi jeg komið fram með þessa tillögu, að kosin verði sjerstök nefnd, til þess fyrst og fremst, að draga úr afleiðingunum af fyrirsjáanlegri dýrtíð. Alt hækkar í verði ekki hvað síst aðflutta varan, og áreiðanlega hefðu afleiðingarnar orðið verri, en þær þó hafa orðið, ef ekki hefðu verið gjörðar sumar af þessum ráðstöfunum, sem heimilaðar voru í fyrra, og svo bráðabirgðalögin um skipun verðlagsnefndar. Jeg gjöri nú ráð fyrir, að sú ráðstöfun nái samþykki þingsins, og skal því ekki tala frekar um hana.

En fyrir utan þetta, sem nú hefir verið talið, þá hefir nú og íslenska varan hækkað mjög mikið í verði; er það að vísu gott fyrir framleiðendur; en við það vaknar þó og annað alvörumál. Verð á kjöti er nú t. d. orðið gríðarmiklu hærra en áður. Vjer vitum að vísu ekki nákvæmlega, hvað það kann að verða í haust, en ekki lætur fjarri því, að það muni verða helmingi hærra en áður var, og getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarþorpin og kaupstaðina, sem ekki framleiða kjöt, eða þá í mjög litlum mæli. Af slíku getur hlotist hrein og bein neyð fyrir þá, sem ekki eru framleiðendur sjálfir. T. d. hlýtur það að verða mjög tilfinnanlegt fyrir Reykvíkinga. Jeg bendi á þetta af því, að eitt af því, sem tilfinnanlegast er, ef ekki verður útvegað með nálega eðlilegu verði, er einmitt kjöt, og reyndar mætti líka nefna fisk, og það ætti ekki að vera ókleift. Það er alkunnugt, að mikið hefir mönnum tekist að gjöra í þá átt annars staðar, og ef þessi nefnd yrði vel skipuð, ætti hún að sjá þau úrræði, að jeg vænti, að það myndi duga.

Enn fremur vildi jeg lauslega drepa á það, hvort ekki mætti jafnframt hafa það í huga, sem gjört hefir verið annars staðar, en það er að leggja á svo kallaðan stríðsskatt. Ófriðurinn hefir haft þær afleiðingar bæði hjer og annarastaðar, að einstakir menn, einkum sumir kaupmenn, hafa grætt miklu meira fje, en ella mundi. Ófriðurinn hefir beinlínis kastað fje upp í hendur þeirra, fyrirhafnarlaust eða fyrirhafnarlítið, og hefir þá í öðrum löndum verið lagður sjerstakur skattur á þessa menn fremur venju. Þetta vil jeg benda væntanlegri nefnd á að taka til athugunar, því að vjer vitum það, að hætt er við því, að erfitt verði um fjárhaginn þessi árin. Hætt við að ýmsar tekjugreinar kunni að verða lægri en vant er, og mætti þá ef til vill fylla eitthvert skarðið með þessu.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þetta mál að sinni. Jeg vænti þess, að því verði vel tekið, og ef einhverjir hv. þm. hefðu eitthvað sjerstakt við það að athuga, þá væri það heppilegt, að þeir ljetu það í ljósi við nefnd þá, er væntanlega verður kosin, eða þá við umr. hjer í deildinni.