04.09.1915
Efri deild: 52. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

108. mál, fjárlög 1916 og 1917

Kristinn Daníelsson. Jeg hefi að vísu ekki fleiri brtt. en þær, sem þegar hafa verið bornar undir atkvæði, en þó vil jeg nú leyfa mjer að drepa fingri á ýmsa liði fjárlaganna, sem mjer stendur ekki á sama um.

Fyrst vil jeg minnast á, að hv. nefnd hefir lækkað laun háskólakennaranna um 400 kr. Jeg get ekki verið nefndinni samdóma um þessa niðurfærslu. Þetta fje mun vera ætlað docent Sigurði Sivertsen, og hygg jeg að hv. Nd. hafi komist að rjettri niðurstöðu, er hún samþykti að laun hans skyldu hækkuð um þessa upphæð, þar sem hann hefur eins mikið starf og prófessorar, en getur engar aukatekjur haft af ritstörfum í kenslugrein sinni. Þá vil jeg minnast á tillögu nefndarinnar, um að lækka námsstyrk til Mentaskólans, og fleiri skóla. Þessi tillaga finst mjer skifta miklu máli, og er jeg henni algjörlega mótfallinn. Slíkar styrkveitingar eru algjörlega nauðsynlegar í okkar landi, þar sem ekki eru til neinir sjóðir, er starfi í viðlíka stefnu. Jeg hygg óhætt að fullyrða, að margir bestu menn okkar, eigi námsstyrknum það að þakka, að þeir hafa komist áfram. Margir fátækir piltar, sem seinna hafa reynst mestu ágætismenn, mundu aldrei hafa lagt á mentabrautina, ef námsstyrkurinn hefði eigi verið. Jeg veit að vísu, að menn hafa slegið því fram, að í staðinn fyrir styrkinn eigi að koma frípláss við skólana, en áður en jeg get greitt atkvæði með því, að hann falli burtu, verð jeg að sjá, að þessi frípláss verði stofnuð, hve mörg þau eiga að verða, og hvernig þeim á að hátta. Því hefir og verið haldið fram, að aðsóknin að skólunum, sjerstaklega Mentaskólanum, væri nú svo mikil, að nauðsyn bæri til að hefta hana með einhverju móti. Það getur vel verið, að þetta sje rjett, en mjer virðist þessi aðferð með öllu óhæfileg. Jeg held annars, að þetta jafni sig sjálft, þegar mönnum skilst, að of margir ganga þessa braut, þá dregur sjálfsagt úr aðsókninni af sjálfu sjer. En hinu held jeg fást fram, að námstyrkurinn er nauðsynlegur fátækustu stjettum þjóðfjelagsins, því að þar geta fundist þær perlur, sem þjóðin má ekki fyrir nokkra muni missa af.

Þá get jeg ekki verið samdóma nefndinni, um að lækka styrkinn til skálda og listamanna um 1000 kr. Íslendingar mega aldrei gleyma, hvað þeir eiga bókmentum sínum að þakka; öll okkar frægð í heiminum er við þær tengd. Að vísu verður að gæta hófs í þessu efni, svo að styrkveitingum sje ekki fleygt í hvern sem er, en hitt sýnist mjer óþarft, og ástæðulaust, að vera að færa þenna styrk niður úr þeirri upphæð, sem háttv. Nd. hefir til tekið. Jeg vil því vona, að þessi brtt. verði feld.

Háttv. nefnd hefir lagt til, að styrkur. inn til Helga Pjeturss verði færður niður í 1000 kr. Hjer er að ræða um góðan, viðurkendan vísindamann, sem hefir unnið kappsamlega í þarfir vísindanna, eftir því sem heilsa og kraftar hafa leyft. En örlögin hafa lagt á hann þunga hönd, og hefði því háttv. nefnd átt að varast að bæta þar nokkuru við. Allir vita, hvernig ástandið er nú hjer á landi, fádæma dýrtíð og, örðugleikar, og þar að auki hefir þessi maður við marga aðra erfiðleika að berjast. Jeg mun ekki fara lengra út í þá sálma, en jeg vona, að háttv. deild klípi ekki af þeim styrk, sem hann hingað til hefir haft. — Einnig finst mjer rangt að lækka styrk Helga Jónssonar, hann er merkur og duglegur vísindamaður, sem hefir unnið af miklu kappi að sinni fræðigrein, og á því alt gott skilið.

Loks vil jeg mæla fram með brtt. á þgskj. 716, sem fer fram á að hækka styrkinn til Sighvats Grímssonar Borgfirðings, um 100 kr. Þessi maður hefir . alla sína æfi lagt hina mestu stund á söguleg fræði, og hin síðustu árin hefir hann unnið hjer í söfnunum, fyrir þann litla styrk, sem Alþingi hefir veitt honum. Auðvitað hefir hann orðið að kosta ferð sína hingað fram og aftur, og hljóta því allir að sjá, að sá styrkur, sem hann hingað til hefir haft, hefir verið af alt of skornum skamti. Jeg vona því að brtt. verði tekin til greina.