15.07.1915
Neðri deild: 7. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

7. mál, strandferðir

Ráðherra:

Í fyrra sumar var tillaga eins og þessi borin fram í báðum deildum og samþykt. Af ástæðum, sem jeg mun bráðum greina, tel jeg heppilegt, að sams konar tillaga verði einnig borin fram nú.

24. október 1913 voru samningar gjörðir við eimskipafjelag Björgvinjar, um að fjelagið hjeldi uppi ferðum frá Austur- og Vestur-Noregi um Færeyjar og umhverfis Ísland. Samningurinn, sem er prentaður í Stjórnartíðindunum 1913, B. 265, átti að gilda frá í apríl 1914 til í apríl 1916. Samningurinn kom til framkvæmda í apríl 1914, eins og til var ætlast, og er fjelagið skyldugt að halda uppi strandferðum til í apríl að ári, en þá er samningstíminn útrunninn. Sem þóknun fyrir strandferðirnar og póstflutninginn fær fjelagið 30 þús. kr. á ári.

Enn fremur var gjörður samningur um strandferðir við stórkaupmann Thor E. Tulinius fyrir hönd fjelags eins, sem ekki er nafngreint í samningnum (Stjt. 1913 B. 271). Sá samningur skyldi gilda bæði fyrir 1914 og 1915. Reyndar segir í samningnum, að Tulinius hafi heimild til, að segja honum upp fyrir 1. ágúst 1914, ef hann, fyrir fjelagsins hönd, vilji ekki halda uppi ferðunum 1915. En það hefir ekki verið gjört, og gildir samningurinn því enn og til ársloka næstu. Þetta fjelag fær einnig 30 þús. kr. þóknun á ári.

Loks hefir verið ákveðið í fjárlögum 1914–1915, að Eimskipafjelagi Íslands skyldi greiða 40 þús. kr. á yfirstandandi fjárhagstímabili, ef það kæmist á fót og tæki til starfa á árinu 1915.

Þessi skilyrði eru bæði uppfylt, og styrkurinn þegar að nokkru leyti útborgaður, og verður greiddur, það sem eftir er, á sínum tíma.

Eins og kunnugt er, heldur Sameinaða gufuskipafjelagið danska uppi ferðum milli Danmerkur og Íslands og kringum landið. En það er ekki styrkt af landsfje, heldur ríkissjóði Dana.

Með lögum nr. 53, 10. nóv. 1913, var landsstjórninni veitt heimild til að kaupa hluti í Eimskipafjelagi Íslands fyrir alt að 400 þús. kr., gegn því, að fjelagið hjeldi uppi strandferðum umhverfis landið með tveimur eða fleiri strandferðaskipum. Ferðirnar skyldi hefja svo fljótt, sem því yrði við komið, í síðasta lagi 1. apríl 1916. Svo var til ætlast, með öðrum orðum, að Eimskipafjelagið tæki við strandferðunum, er samningurinn við Björgvinjarfjelagið gengi úr gildi. En ef samningar við Eimskipafjelagið tækjust ekki, einhverra hluta vegna, var stjórninni leyft að kaupa eða leigja skip til strandferða og henni heimilað að taka lán til þess, alt að 450 þús. kr. Sú lántökuheimild var síðar hækkuð upp í 500 þús. kr. með lögum nr. 41, 2. nóv. 1914. Mun það hafa verið gjört með hliðsjón af því, að búist var við, að verðið á strandferðaskipurn yrði hærra en upphaflega var ráðgjört, vegna ófriðarins.

Hinn 4. febr. 1914 var gjörður samningur milli landsstjórnarinnar og Eimskipafjelagsstjórnarinnar, um að landssjóður keypti hluti í Eimskipafjelaginu fyrir 400 þús. kr. Var samningur þessi bygður á lagaheimildinni, er jeg gat um áðan (1. nr. 53, 10. nóv. 1913). Af þessari upphæð voru greiddar samkvæmt samningnum 100 þús. kr. 1. júní 1914, en eftirstöðvarnar skyldi greiða fyrir 1. febr. 1915. Það hefir ekki verið gjört.

Samkvæmt samningnum átti Eimskipafjelagið að halda uppi strandferðum frá 1. apríl 1916 með 2 strandferðaskipum eða fleirum, enda skyldi landssjóður samkvæmt samningnum 4. febr. 1914 greiða sanngjarnan styrk til þeirra ferða. Tilætlunin var sú, eins og sjá má af 5. gr. og 4. gr. samningsins, að 300 þús. krónurnar skyldi lagðar í hluti til kaupa í strandferðaskipunum. Ef fjelagið fullnægir nú eigi skilyrðunum um strandferðirnar, sem ekki er útlit fyrir, að það geti bókstaflega gjört að sinni, sýnist landssjóður, eftir tjeðum samningi, óbundinn um hlutakaupin. En svo er að sjá, sem þingið í fyrra hafi ætlast til, að samningnum við Eimskipafjelagið yrði ekki riftað, jafnvel þótt svo færi, að það gæti ekki int af hendi þá skyldu, að halda uppi strandferðunum. Þetta má sjá á skjölum frá samgöngumálanefnd þingsins í fyrra. Og í þingsál.- till., sem þá var samþykt, er landsstjórninni heimilað að semja við fjelagið um strandferðir á árunum 1916 og 1917, fyrir alt að 77300 kr. hvort árið.

Nú er svo komið, vegna styrjaldarinnar miklu, að ekki er útlit fyrir, að hægt verði að afla strandferðaskipa fyrst um sinn. Að vísu er hægt að komast að samningum um smíði á skipum. En verð á efni í skip hefir hækkað svo gífurlega síðan ófriðurinn hófst, að skip kosta nú 70–80% meira en áður. Það er því varla viðlit, að leggja út í kaup á nýjum skipum að svo stöddu. Og er þá einsýnt, að Eimskipafjelagið getur ekki tekið að sjer strandferðirnar í apríl næstkomandi á þann hátt, sem til var ætlast upphaflega, að leggja til þeirra ný skip.

Þá er spurningin sú, hvernig fara muni um strandferðirnar.

Stórkaupmaður Thor E. Tulinius, sem á eitt skip, »Ísafold«, er verið hefir í förum kringum strendur landsins, hefir skrifað stjórnarráðinu og skýrt frá, að hann vildi helst vera laus við strandferðirnar næsta ár. Er svo að skilja á brjefi hans, sem hann þykist ekki hafa haft hagnað af strandferðunum. Hins vegar hefir Tulinius sent stjórnarráðinu tilboð, sem annað hvort er komið eða kemur bráðlega til þingsins, um að selja landinu skipið »Ísafold«. Um þetta hefir stjórnarráðið hvorki sagt til nje frá. Jeg get þó skýrt frá því, að mjer hefir sagt maður, sem vit hefir á skipum og er vel kunnugur þessu skipi, að ekki væri ráðlegt að ganga að þessum kaupum.

Mjer er ekki kunnugt um, hvort Björgvinjarfjelagið vill halda áfram strandferðunum. Jeg hefi ekki leitað hófanna hjá því, aðallega fyrir það, að í Kaupmannahöfn átti jeg tal við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, og hann taldi líklegt, að fjelagið gæti fengið skip á leigu með viðunandi kjörum, og tekið að sjer strandferðirnar með þeim leiguskipum. Hann kvað fragtskipin vera aðallega dýr, en síður þau skip, sem bæði eru ætluð til farþega- og vöruflutnings. En þannig þurfa strandferðaskipin að vera. Bjóst framkvæmdarstjórinn við, að geta sagt af eða á um þetta, þegar hann væri kominn heim. Nú er hann kominn, og mun gefa væntanlegri nefnd í máli þessu upplýsingar í þessu efni. Bæði vegna þessa, og eins af því, að þingið fór í hönd, vildi jeg ekki að svo komnu leita fyrir mjer hjá Björgvinjarfjelaginu, þar sem von var um, að þess þyrfti ekki við.

Allir hljóta að vera á eitt mál sáttir um, að þetta mál sje mjög mikils varðandi fyrir landið, og sjálfsagt, að þingið gjöri sjer far um að íhuga það sem best. En til þess er nefndarskipunin sjálfsögð.