17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Flutnm. (Sigurður Sigurðsson):

Eins og kunnugt er, og menn sjálfsagt muna, þá var þetta mál hjer fyrir aukaþinginu í fyrra. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) flutti þá frumvarp um hafnargjörð í Þorlákshöfn, og var þar gjört ráð fyrir því, að þingið styrkti það fyrirtæki og veitti lán til þess. Nefndin, sem kosin var þá í málið, breytti frumvarpinu og lagði það til, að stjórninni væri heimilið að kaupa þessa jörð með gögnum og gæðum, eða taka hana eignarnámi, það af henni, sem nauðsynlegt kynni að þykja, ef til þess kæmi, að gjöra þar höfn.

Við umræðurnar kom það þá glögt í ljós, hver nauðsyn er á því, að eitthvað verði í þessu gjört, og þarf jeg ekki að endurtaka það. En geta skal jeg þess, að eftir því, sem útvegurinn þar austan fjalls eykst, eftir því verður þörfin enn meir aðkallandi á umbótum til öryggis eða hafnargjörðar.

Lendingar eru alstaðar afleitar, eintómar hafnleysur, og Þorlákshöfn eini staðurinn, sem hægt er að leita til í brimi. Þó er hún ekki algjörlega einhlít, því oft kemur það fyrir, að þar gjörir ófæran sjó, og þá eru allar bjargir bannaðar þeim, er á sjó sækja.

Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að útvegurinn á þessum slóðum. Og sjerstaklega í Þorlákshöfn, hefir aukist nú upp á síðkastið. Frá því 1874 hafa gengið þaðan til jafnaðar frá 18 til 20 og upp í 24 skip á ári, með hjer um bil 16 mönnum hvert. En næsta vetur mun vera fullráðið, að þaðan gangi 30 skip, með 15–17 manns til jafnaðar, eða með öðrum orðum hjer um bil 500 manns alls. Þetta er stór floti og mikill manngrúi, sem hættir þarna lifi sínu á vetrarvertíðinni, þegar allra veðra er von.

í næstu veiðistöð, Selvogi, hefir undanfarið gengið einn bátur til fiskjar. Nú er áætlað, að þrír bátar gangi þaðan, með hjer um bil fimtíu manns.

Í Herdísarvík hefir enginn útvegur verið í mörg undanfarin ár, en í vetur er kemur eiga að ganga þaðan sex skip, með hjer um bil hundrað manns samtals.

Í veiðistöðvunum milli Ölfusár og Þjórsár hafa að undanförnu gengið margir opnir bátar til fiskjar, en nú hefir sá útvegur breytst í mótorbátaútgjörð. Úr þessum þremur veiðistöðvum þar, Eyrarbakka, Stokkseyri og Loftsstöðum, ganga nú ekki nema sex eða sjö bátar, með hjer um bil hundrað manns. En aftur á móti hefir mótorbátum fjölgað svo, að nú er gjört ráð fyrir, að frá Eyrarbakka gangi sjö, frá Stokkseyri seytján, og auk þess einn úr Selvogi. Þetta verða því alls tuttugu og fimm mótorbátar, með hjer um bil eitt hundrað og fimtíu mönnum samtals. Það kemur því á daginn, að úr þessum veiðistöðum milli Ölfusár og Þjórsár og utan Ölfusár ganga alls 45 opin skip og 25 mótorbátar, með hjer um bil 900 mönnum samtals. Þegar á þetta er litið, og hins vegar aðgætt hafnleysið á þessu svæði, þá get jeg ekki skilið, að neinum manni fái dulist, að nauðsynlegt er að gjöra eitthvað frekara en gjört hefir verið, til þess að tryggja líf þessara manna, er á sjó sækja. úr þessum veiðistöðvum.

Að tilhlutun Fiskveiðafjelags Íslands og eftir óskum manna alment þar eystra, þá hefir verið rannsakað lítillega, hvar hentast mundi að koma upp sæmilega góðri fiskiskipahöfn og hvað hún mundi kosta. Jón verkfræðingur Ísleifsson hefir gjört lauslega áætlun um kostnaðinn. Jeg skal leyfa mjer að taka það fram, að Þorlákshöfn er eini staðurinn á þessum slóðum, þar sem mönnum hefir komið til hugar, að hægt væri að koma upp slíkri höfn, án þess að hún kostaði of fjár. Jeg veit, að til tals hefir komið að byggja höfn bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri, en öllum, sem um þetta hafa hugsað og sem nokkuð þekkja til, dylst ekki, að höfn þar, á hvorum staðnum sem væri, mundi kosta geysi mikið fje. En hins vegar býst jeg við, að höfn í Þorlákshöfn þyrfti ekki nauðsynlega að verða svo afardýr. Samkvæmt bráðabirgðaáætlun Jóns verkfræðings Ísleifssonar gjörir hann ráð fyrir, að hún mundi kosta hjer um bil 670,000 kr. Hann gjörir ráð fyrir fiskiskipahöfn, og þó sjerstaklega mótorbátahöfn, er jafnframt væri hægt að nota sem höfn fyrir trollara og enda stærri skip, ef þau þyrftu að leita þangað vegna óveðurs eða af öðrum ástæðum. Jón Ísleifsson hefir einnig gjört áætlun um tekjur þær og gjöld, er höfnin leiddi af sjer, eftir að hún væri komin upp. Jeg skal að eins leyfa mjer að nefna aðaltölurnar. Hann áætlar árlegar tekjur af höfninni 91,500 kr., en gjöldin áætlar hann 50,900, eða sem næst 51,000 kr. á hverju ári.

Til samanburðar við þetta skal jeg leyfa mjer að upplýsa, að tekjur þær er nú fást af allri eigninni Þorlákshöfn, nema árlega hjer um bil 6000 kr., og er þó ef til vill ekki alt talið með. Þetta sýnir, að jafnvel nú gefur eignin af sjer álitlegar tekjur, og er sannarlega vert að athuga það, þegar um kaup á jörðinni er að ræða.

Máli þessu, um kaup á Þorlákshöfn, var í fyrra vísað til stjórnarinnar. En jeg hygg, án þess þó, að jeg vilji fullyrða neitt um það, að stjórnin hafi harla litið í þessu máli gjört eða getað gjört. Enda má vel vera, að hún hafi þóttst hafa öðrum hnöppum að hneppa en að sinna þessu máli. Og eftir því, sem jeg veit best, þá hefir nýja stjórnin vitanlega ekki gjört mikið heldur.

Jeg tek þetta fram til þess, ef vera mætti, að fyrrverandi ráðherra, hv. þm. V.-Sk. (S. E.), kynni að geta gefið einhverjar upplýsingar í þessu efni. En jeg vil líka taka það fram um leið, að þetta má á engan hátt skoðast sem ásökun til fyrrverandi stjórnar, um að hún hafi af ásettu ráði lagt undir höfuð sjer að greiða fyrir málinu, eða vanrækt skyldu sína í þessu efni.

Einstaka menn hefi jeg heyrt finna að því, að tillagan á þingskj. 244 fer fram á, að stjórnin leiti fyrir sjer um kaup á jörðinni Þorlákshöfn, án þess að till minnist nokkuð á, hvert verð myndi vera sanngjarnt að kaupa fyrir. Sumir hafa sem sagt talið þetta galla á tillögunni. En það er um þetta atriði eins og svo margt annað, að ýmislegt er hægt að segja bæði með því og móti. Ef í tillögunni hefði verið nefnt ákveðið verð, er kaupa mætti jörðina fyrir, þá gæti það, ef til vill, orðið þess valdandi, að seljandi jarðarinnar hjeldi sjer fast við það, jafnvel þó að það verð væri hærra en honum hefði upprunalega dottið í hug að selja jörðina fyrir. Þess vegna getur það verið varasamt, að láta nokkuð ákveðið uppi um verðið, eða hvað mest mætti gefa fyrir hana. Hins vegar ber jeg það traust til stjórnarinnar, að hún fari þann veg í þessu efni, er telja má eðlilegastan og rjettastan í alla staði. En jeg vil leggja áherslu á á það, að ekki verði horft um of í verðið, þó að það kunni að þykja nokkuð hátt, ef eignin fæst keypt á annað borð. Jeg held sem sje, að það muni verða erfitt fyrir þing og stjórn, að gjöra það, sem gjöra þarf, ef eignin heldur áfram að vera í einstakra manna höndum. Enda er ekki nema eðlilegt, að þing og stjórn verði treg til þess að lána fje til fyrirtækisins, meðan svo er högum háttað. Og þess vegna er það, að jeg legg áherslu á, að jörðin verði keypt hið fyrsta, því að þau kaup munu verða undirstaða til þess, að fleiri ráðstafanir verði gjörðar til endurbóta á lendingu eða hafnargjörðar í Þorlákshöfn.

En ef nú fást ekki kaup á jörðinni, þá felur tillagan í sjer áskorun til stjórnarinnar, um að leggja fyrir næsta þing frumvarp um eignarnám á jörðinni, eða þeim hluta hennar, sem nauðsynlegur sje, til þess að hægt sje að koma hafnargjörðinni í framkvæmd.

Jeg vona, að tillögu þessari verði vel tekið. Mjer getur ekki dulist, að hjer er að ræða um afarmikið nauðsynjamál. Hjer veltur á því — og það er ekki neitt smáræði, — að tryggja eignir manna, er nema að minsta kosti 250 þús. kr., og líf hjer um bil 1000 manna, er sjó stunda nú í þessum veiðistöðum, er jeg hefi áður nefnt. Og útvegurinn mun áreiðanlega aukast að mun, ef þessi hafnargjörð kemst í framkvæmd.

Jeg þarf tæpast að taka það fram, því að það er alkunna, að þessar verstöðvar eru afarfiskisælar, sjerstaklega þó Þorlákshöfn. Þess skal þó hjer getið, að á vertíðinni 1912 — en vertíðin er vanalega 10–11 vikur — fengust 248,000 af þorski á 22 skip; 1913 fengust á 24 skip 190,000 fiskar og árið 1914 á jafnmörg skip 220,600 fiskar, eða rúmlega það. Og í marsmánuði einum 1915 fengust 171,500 fiskar á 24 skip. Þetta sýnir, að fiskistöðin Þorlákshöfn er að öllum jafnaði fiskisæl, enda hefir hún frá alda öðli verið álitin besta fiskistöðin austan fjalls.

Langt er síðan fyrst var farið að hugsa um höfn á þessum stað, enda vona jeg nú, að senn fari að líða að því, að það komist í framkvæmd. En fyrst af öllu álit jeg nauðsynlegt, að landið fái eignarheimiid á jörðinni, og þess vegna vona jeg fastlega, að þessi tillaga mín nái fram að ganga. En hepnist það ekki, að fá jörðina keypta, vona jeg, að stjórnin sjái sjer fært, að undirbúa frumvarp um eignarnám á henni, eða því af henni, er telja má nauðsynlegt til undirbúnings og framkvæmda á hafnargjörð þar.

Það hefir verið minst á að skipa nefnd í málið. Jeg sje nú satt að segja ekki, að ástæða sje til þess að setja þessa einföldu tillögu í nefnd. En ekki skal jeg þó vera því mótfallinn, ef það mætti verða til þess, að greiða málinu veg til góðs gengis og skjótra framkvæmda, og myndi jeg þá helst kjósa, að málinu yrði vísað til sjávarútvegsnefndarinnar. Þar eru að minsta kosti tveir menn, er fjölluðu um þetta mál í fyrra. Jeg er óhræddur að hleypa því til nefndarinnar, því jeg þekki svo hugarfar þessara tveggja manna, að jeg veit, að þeir eru málinu fylgjandi eindregið, og líka ber jeg fult traust til hinna annara, er í nefndinni sitja.

Jeg get þess vegna gjarna óskað, að málinu sje vísað til sjávarútvegsnefndarinnar, í fullu trausti þess, að nefndin greiði götu þessa góða málefnis.