17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Sigurður Eggerz:

Jeg vil að eins gjöra örstutta athugasemd út af því, er háttv. 1. þm. Árn (S. S.) sagði, að stjórnin í fyrra hefði lagst mál þetta undir höfuð. En öll þessi langa og skörulega flutta kjósendaræða hv. þingmanns sýndi einmitt ljóslega, að stjórnin hafði ekki lagst þetta undir höfuð, því að útreikningamir, er gjörðir voru um hafnarkostnaðinn, og sömuleiðis teikningarnar, voru einmitt gjörðar að undirlagi stjórnarinnar, og einmitt þess vegna fjekk háttv. þingmaður tækifæri til þess að halda þessa snjöllu tölu hjer í deildinni.

Jeg fjekk Jón verkfræðing Ísleifsson til þess að gjöra teikningarnar og áætlunina, og sömuleiðis átti jeg tal við ábúanda jarðarinnar, og verslunarstjóra einn þar eystra, sem áhuga hafði á málinu, en sem nú er að vísu dáinn. Jeg óskaði líka eftir ákveðnu tilboði um sölu jarðarinnar, er jeg hafði því næst hugsað mjer að leggja fyrir þingið. Málinu var að vísu vísað til stjórnarinnar á síðasta þingi, en hún hafði enga heimild til þess að kaupa jörðina. Það eina, sem fyrir stjórninni lá í fyrra, var að athuga skilyrðin fyrir kaupunum og hafnargjörðinni. Þegar jeg fór frá, var ekkert tilboð komið. Ábúandi sagði, að sjer væri ekki vel við að gjöra tilboð, sem stæði svo yfir þingtímann, vegna þess, að hann gæti vel fengið betra tilboð frá öðrum í millitíð. En þessi jörð verður áreiðanlega ekki ódýr, og víst er um það, að fulla gætni þarf að viðhafa frá stjórnarinnar hendi, ef kaupin eru gjörð, því hræddur er jeg um að þessi jörð sje farin að komast í spekúlationsáttina. Jeg kannast að vísu við, að hún hún er verðmæt, og því gott að fá hana fyrir nokkurn veginn góð kjör. (Pjetur Jónsson: Skapleg kjör). En sje farið með gætni, þá má vel vera, að komast megi að skaplegum kjörum. En þó nú stjórnin hefði haft heimild til þess að kaupa jörðina í fyrra, þá efast jeg mikillega um, að hún hefði notað sjer þá heimild, vegna þess, að á ófriðarárum þarf landssjóður sem mest fje til öryggisráðstafana fyrir land og lýð. Og þó að vel gæti verið gott að kaupa jörðina undir vanalegum kringumstæðum, þá er nú og var þá full ástæða til þess að fara varlega. Jeg mun styðja þá tillögu, að málið verði sett í nefnd, því enginn efi er á því, að þetta þarf að athuga mjög nákvæmlega. Og jeg get ekki sjeð, að fráfarandi stjórn hafi getað gjört nokkuð annað í þessu efni en hún gjörði.