17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Guðmundur Hannesson:

Hv. þm. V.-Sk. (S. E.) hefir tekið fram flest þau atriði, er jeg vildi sagt hafa. Jeg er samþykkur því, að málinu verði vísað til nefndar, og þá náttúrlega til sjávarútvegsnefndarinnar. En jeg vildi fara nokkrum orðum um þá tillögu háttv. flutningsm. (S. S.) að festa kaup á jörðinni. Hann færði sem ástæðu, hve margir bátar gengju frá þessum slóðum, og hve hættan væri mikil fyrir þá nú. En það er auðsjeð, að bátarnir eru jafn illa staddir eftir sem áður, þó fest sjeu kaup á jörðinni, ef ekki verður gjörð þar höfn jafnframt.

Háttv. flutningsm. (S. S.) fór mörgum orðum um lendingarleysið. Kjarni málsins er þessi: Það stoðar ekki að festa einungs kaupin, eins og jeg tók fram áðan, ef hafargjörðin dregst von úr viti. Hvað snertir upplýsingar þar að lútandi, þá eru þær fengnar betri nú en í fyrra. Þá var gjörð áætlun um lendingabót, — garð á þurru landi að mestu leyti, svo að jafnt þyrfti að setja upp báta eftir sem áður. Verkfræðingurinn, sem áætlunina gjörði, fullyrti, að ekki væri víst, að þannig lagaður garður yrði full tryggilegur, til þess að lendingin yrði sæmileg. Nú liggur fyrir ábyggileg áætlun um það, hvernig úr þessu megi bæta á viðunanlegan hátt. Með þessu er sjeð fyrir bátahöfn, sem ef til vill mætti nota sem höfn fyrir millilanda- og strandferðaskip, ef á þyrfti að halda. En þegar þetta liggur nú ljóst fyrir, þá verður manni næst fyrir að spyrjast fyrir um, hverjar horfur sjeu á því, að höfnin verði bygð.

Kostnaðurinn er ekki veruleg mótbára í mínum augum. Sjö hundruð þúsund króna framlag til hafnargjörðar er að vísu mikill kostnaður, en ætti þó ekki að vaxa í augum, ef ekki væri annað til fyrirstöðu. Þingið hefir nú nýlega gjört ráðstafanir til þess, að gjörð verði föst áætlun um hafnir og lendingar á fiskveiðasvæðinu öllu. Er nú ástæða til að rjúka í að byggja höfn í Þorlákshöfn, áður en þessari rannsókn er lokið? Er það ætlun flutningsmanns (S. S.), að Þorlákshöfn eigi að sitja fyrir öllum öðrum? Jeg tel það vafamál. Þá er annað atriði. Hversu myndi höfn þessi bera sig, ef bygð væri? Tekjur og gjöld hafnarinnar byggjast vitanlega á því, hversu mikil bátaútgjörðin er, og hver gjöld bátarnir borga. Jeg hygg, að fullhátt sje að áætla 500 kr. á hvern bát fyrir hafnarafnot. Þetta er töluvert gjald og mjer hefir skilist á sjómönnum þeim, sem jeg hefi talað við, að svo hátt gjald mundi illa þokkað. Það er enginn vafi á því, að hafnargjörðir eru hið mesta nauðsynjamál fyrir fiskveiðar vorar. En hins vegar er það athugandi, hvort þörfin er ekki meiri annarstaðar, og auðvitað sjálfsagt að láta þá staði sitja fyrir, þar sem þörfin er brýnust. En hvar er hún brýnust? Ekki þar, sem mannslífin eru í mestri hættu, þó leiðinlegt sje að segja, heldur þar, sem arðsvonin er mest. Jeg álít ekki, að lítil veiðistöð, með svo sem 10–30 bátum og lífshættulegri lendingu, eigi að ganga fyrir öðrum, sem 200–300 bátar myndu nota.

Jeg fyrir mitt leyti álít það varhugavert, að leggja út í svo dýra höfn, sem Þorlákshöfn er, meðan málið er ekki betur undirbúið. Og jeg er ekki einn um þessa skoðun. Jeg hefi átt tal við fjölmarga sjómenn, sem líta svo á, að Þorlákshöfn sitji alls ekki fyrir. Nú er það sagt, að jörðin kunni að hækka í verði og landssjóður skaðist á biðinni. Mjer sýnist hjer engin hætta á ferðum. Hafnarvonin er eina verulega verðmæti jarðarinnar, og að nokkru leyti hefir hjer landssjóður tögl og hagldir. Ef útlendingar kaupa jörðina, þá byggja þeir höfnina. Við það er tæpast skaði skeður. Hún verður þá eflaust til afnota fyrir almenning, og landssjóður sleppur við það stórfyrirtæki, og ekki flytja útlendingarnir höfnina út úr landinu. Ef við getum brúkað útlendinga til nokkurs, þá er það til þess, að byggja fyrir okkur slík mannvirki. Annars munu ekki mikil líkindi til þess, að útlendingar kaupi jörðina fyrst um sinn. En að kaupa hana nú, án þess að gjöra þar höfn, er að eins til þess, að festa fje landssjóðs í eign, sem eflaust getur tæplega svarað vöxtum af fjenu. Og vjelbátarnir eru jafnilla settir fyrir því.

Niðurstaðan hjá mjer verður sú, að málið verði sett í nefnd, sem athugi það vel. Gjöri tillögu um sjávarútvegsnefnd.