17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Matthías Ólafsson:

Hjer hafa orðið miklar umræður, og vildi jeg ógjarnan lengja þær. En jeg hjó eftir einu hjá háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.). Það var um hvar byrja ætti, og mjer skildist svo, að hann kæmist að þeirri niðurstöðu, að það væri þar, sem þörfin er brýnust, sem byrja ætti. Hvort er nú meiri eða brýnni þörf annarstaðar en hjer, þar sem, auk fólksfjölda og hafnleysis, eru fiskisæl mið. Jeg get ekki betur sjeð en að útvegurinn og útgjörðin frá Þorlákshöfn sje í hættu stödd, ef ekki er ráðin bráð bót á því, enda óhugsandi, að ekki verði meira eða minna manntjón á næstu árum, einkum þar sem útgjörðin er nú orðið mest megnis vjelbátaútgjörð. Eins og allir vita, er sjór mikill og illur fyrir þessum hluta landsins, og þegar ófært er um sundin fyrir framan Eyrarbakka, er einnig ófært á Stokkseyri og í Þorlákshöfn; auk þess er aðalvindstaðan svo, að ómögulegt er að komast til Vestmannaeyja, og þá auðvitað vonlaust að komast út fyrir Reykjanes. Frá mínu sjónarmiði er þetta aðalástæðan, að draga úr hættunni, en hún er líka mikils virði.

Nú er komin fram tillaga um, að landið kaupi þessa jörð, og ef ekki gengur saman um kaupin, þá er hægt að taka jörðina eignarnámi. Það er raunar satt, að verðið er hátt og kostnaðurinn við hafnargjörðina mikill eftir áætluninni, en þetta á líka að verða góð höfn, sem rúmar að minsta kosti 150–170 vjelabáta og auk þess 2 stór farmskip; þetta ætti því að verða mjög viðunanleg höfn, og jeg lít svo á, að menn ættu ekki að horfa í að kaupa jörðina. Við höfum að vísu ekki handbært fje, en verðum þá að taka fje að láni, til að sjá lífi manna borgið og auka framleiðslu landsins. Vjer getum ekki til lengdar komist hjá að byggja hafnir á miklu fleiri stöðum.

Ef vel semdist um kaupin, er ekki heldur hundrað í hættunni, því að ekki kæmi til þess, að það þyrfti að borga eignina út á fjárhagstímabilinu. Ef ekki semdist um kaupin, er altaf hægt að taka jörðina eignarnámi. Álít því rjettast að samþykkja tillöguna; engin ástæða til, að setja hana í nefnd, tillagan skýrir sig sjálf, og því ekkert fyrir nefnd að gjöra.