17.08.1915
Neðri deild: 35. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

96. mál, kaup á Þorlákshöfn

Pjetur Jónsson:

Jeg fyrir mitt leyti verð dræmur að greiða atkvæði með þessari þingsályktunartillögu. Áður en slegið er föstu, að ráðast í þessa dýru hafnargjörð í Þorlákshöfn, verður að gjöra sjer fyllilega grein fyrir, hvaða hafnir og lendingarbætur er álíka brýn þörf að gjöra, eða meiri, og jafnframt hvað landið treystist til, þegar slíkt yfirlit er fengið. Jeg hygg líka, að kaup á jörðinni verði eigi með neinum viðunandi kjörum, undir þessum kringumstæðum, svo mjög sem »svindlað« hefir verð með þessa eign. Þá vil jeg og benda á, hvað hægt er að gjöra með álíka upphæð og þarf til þessarar fyrirhuguðu hafnar, alt að 700,000 kr. Það er meira en öll Flóaáveitan kostar. Fyrir sama fje er einnig hægt að beisla Markarfljót og Þverá og græða upp nýtt land, frjósamara og arðsamara, en nokkurn annan blett á öllu Suðurlandsundirlendinu, og mundi það framfleyta fleira fólki en til mála gæti komið, að yrði í Þorlákshöfn, — framfleyta því ekki einungis eins vel, heldur miklu farsællegar fyrir menningu landsins. Jeg vil að eins benda á þetta til samanburðar, svo að menn stari sig ekki alt of blinda á þetta fyrirtæki út af fyrir sig. Jeg ber mikla virðingu fyrir sjávarútveginum, en kýs samt heldur að rækta landið og fjölga fólkinu þar.